Rósa Jónsdóttir

Bloggsíðu þessa helga ég útivist og áheitum um bætta heilsu. Þegar alvarleg veikindi banka á dyr er stundum fátt hægt að gera nema biðja heitt fyrir hinum veika. Ég ákvað einnig að ganga á fjöll - hóla - hæðir til góðs fyrir veikan bróður minn.

Fann þessa fínu bók sem heitir Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind. Það er mikil hjálp í henni fyrir utan hve fróðleg hún er.

Fikra mig áfram eftir því sem færð og veður leyfir. Helstu hólar og fell í nágranni Hafnarfjarðar hafa verið sigruð s.s. Helgafellið, Stórhöfði og Húsfellið - meir að segja Ásfjallið! Helgafellið í Mosó, Trölladyngja, Sýrfellið, Festarfjall o.fl. Gekk á gönguskíðum inn í Kerlingardal í Bláfjöllum.

 Tindarnir bíða betri tíma enda lofthrædd kona með eindæmum (allavega ef börnin eru með í för). Svo er ég líka raunsæ og veit að suma tindana mun ég aldrei klífa.

Hálka, snjór og slabb hefur stundum komið í veg fyrir að brattar brekkur væru klifnar. Þá er bara að reyna að finna mjög hættulitla hæðir eins og Sýrfellið á Reykjanesinu. Á það var gengið í gullfallegu veðri á nýársdag.

Félagsskapurinn er alltaf góður. Ef enginn tvífættur nennir með mér get ég alltaf treyst á fjórfætta heimilisvininn, hann Sám minn. Hann hefur farið með í allar ferðirnar og skemmtir sér konunglega.

Allar tillögur að gönguferðum eru vel þegnar en reyndar á ég enn eftir um 140 tinda ef farið er eftir bókinni. Þriggja ára áætlun myndi ég ætla.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband