Andinn upp til fjalla

GLEÐILEGT NÝTT ÁR!

Ég er ekki með nein háleit markmið um fleiri skrif eða færri á þessu ári miðað við það síðasta. 

Er komin hér inn til að færa inn orð um fjöll, hóla og hæðir. Við Inga Birna frænka mín ákváðum að reyna að ganga á að minnsta kosti tvö fjöll í mánuði og nú er að sjá hvernig gengur að standa við þau markmið. Ingu Hönnu leyst svo vel á þetta að hún stakk upp á því að uppi á tindi fjallsins skyldi kasta fram fyrri parti. Þar með er komið nafnið á gönguhóp sem búið er að stofna, Gönguhópurinn Fyrri Parturinn. Ákveðinn kostur að einblína á fyrripartinn þar sem oft er erfitt að botna glataða fyrriparta. Nú og svo er gott að þurfa bara að ganga fyrripartinn, einhver annar sem getur gengið seinnipartinn, enda fólk oft orðið lúið og leitt...:)

Ég prufukeyrði þemað í gær þegar ég gekk ásamt góðu fólki á Stórhöfðann. Nei ekki var það sá vestmanneyski, heldur er þetta meðal hár hóll innan við Hvaleyrarvatn. Þar uppi blés hraustlega og mátti sjá á eftir gamla árinu á fleygiferð langt út á sjó í rokinu. Fyrripartar flugu þarna um loftið en ég læt minn hér inn: Upp i mót, ógnargrjót, augum blasir við.............

Í dag var  annars konar veður og þá var fyrsta opinbera fjallgangan á alvöru fjall.  Gengið var í súld með frænkum og fjölskyldum á Helgafell hafnfirðinga. Það var dálítið blautt, bæði jörð og himinn en félagsskapurinn ljúfur og móður af tali. Minn fyrripartur hljómar svo: Höskyhundar hlaupa á fjöll, hlýr er þeirra feldur..................

Að hálfum mánuði liðnum verður farið í aðra ferð á fjall en fram að því verður eflaust farnir upphitunar göngutúrar.

Kær kveðja

Hjerastubbur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband