Skjálftaúrvinnsla

Ég hef ekki skrifað hér inni í dálítinn tíma, kannski margt að hugsa og vinna með eftir heimkomu. Mér líður orðið mikið betur, hætt að „skjálfa“ daginn út og daginn inn,  og finn að það sem ég er að vinna með gerir sitt gagn. Og hvað er ég að gera? Jú ég skrifa niður hugrenningar í blessaða chilisku stílabókina mína, hreyfi mig daglega minnst klukkustund, borða reglulega, næ góðum nætursvefni og tala við fagaðila. Ég viðurkenni vanmátt minn og ótta gagnvart þessum ógnvænlegu náttúruöflum og forvitnin er vöknuð úr dvala, ég er farin að lesa mig til um skjálftann. Áður var ég bara tilbúin til að taka skjálftaupplýsingar inn í smá skömmtum og alls ekki þær sem voru sársaukafullar.

Fann lítinn „skjálfta“ eina nóttina og hjartað fór á þriðja hundraðið....... en þetta reyndist í raun Bjarni á bröltinu.... ég er búin að sannreyna það....:) En svakalega var þetta óþægilegt.

Ég fékk mína fyrstu skjálftamartröð daginn eftir heimkomu en eftir svefnlitla nótt hafði ég lagt mig eftir hádegið. Mig dreymdi að ég  væri stödd í stórum sal/andyri og þá kom þessi sprengikraftur og allt fór af stað. Ég stóð þarna skelfingu lostin og horfði í kringum mig, leitaði að burðarvegg, svæði þar sem ég gæti skýlt mér. Við það hrökk ég upp með andfælum og ósjálfrátt leit ég upp í ljósið í herberginu til að athuga hvort það sveiflaðist.... mér fannst þetta svo rosalega raunverulegt.

Og meðan ég man, ég er hætt að iða..... já mér leið best ef ég gat verið á hreyfingu, því þá fann ég síður fyrir litlu skjálftunum. Ef ég gat ekki gengið, ef ég þurfti að standa kyrr t.d. í biðröð, þá ruggaði ég mér frekar en að standa alveg kyrr, var einhvern vegin alltaf að reyna að blekkja hugann.

Í dag geng ég inn í hús og byrja EKKI á því að skoða byggingarstílinn og hugsanlegar fljúgandi plötur og loftlagnir.

Batnandi mönnum er best að lifa.

Kær kveðja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband