Færsluflokkur: Lífstíll

Trékerlingin hjólandi

Hugsun mín hefur einatt verið sú að ekki sé vinnandi vegur að hjóla á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur nema helst að vera með alvarleg Ironman/woman einkenni.

Ég eignaðist eðalborið fjólublátt Mongoose sycamore fjallahjól vorið 1995 og á það enn þar sem mér tókst ekki að sannfæra minn ektamann um að taka mætti eina fjóra tugi þúsunda af heimilispeningum ársins 2008. Hann tjáði mér að hjólið væri í besta lagi (hann hafði svo mikið rétt fyrir sér) og það þyrfti bara að lappa aðeins upp á það. Þessi niðurstaða stóð og hjólið var pússað og spreyjað og fékk nýja bjöllu og bretti. Næstum því aldrei litið betur út þar sem það montaði sig vorið 2008 við hliðina á splúnkunýja mótorhjóli ektamakans! En það er nú önnur saga því á þeim tíma giltu allt önnur lögmál í hugarheimi Íslendinga.

HighwheelerÍ dag stendur hjólið mitt aftur montið úti í garði en fína nýja mótorhjólið er ekki lengur hér enda ekki lengur 2008. Hjólið mitt hefur því miður fengið fullmikla hvíld undanfarin ár enda vinn ég inni í Reykjavík og tel lífi mínu betur borgið annar staðar en í geðveikislegri umferð Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar. Sá enga aðra möguleika á hjólaferðum hér á milli en eftir þessum vegum eða með því að þræða helstu útivistarsvæði bæjarfélaganna sem standa þar á milli.

Þessi hugsun umturnaðist í síðustu viku. Þá hitti ég samstarfskonu mína sem með sinni einstöku ljúfmennsku var allt í einu búin að sannfæra mig um að vera með í „hjólað í vinnuna“!  Ég veit ekki hvaða boðefnaflutningur átti sér stað í heilanum á mér á þessari stundu, en það var ljóst að ég yrði að standa við orð mín. Því var hjólið dregið fram strax sama kvöld og byrjað að prófa mögulegar hjólaleiðir.

Og viti menn, frá kvöldi þess 4. maí er ég búin að vera með óbærilegan verk í rassinum og alla vöðva stífa!

En mikið svakalega er þetta skemmtilegt. Það leystust úr læðingi gamlar og ljúfar minningar frá hjólaferðum fyrri ára, innanlands sem utan. Geggjað líf. Vil helst ekki nota annan ferðamáta.... þar til veðrið versnar. Í gær ætlaði ég að ganga í „göngum saman“ göngunni og fór hún fram í Laugardalnum. Veðrið var svo lokkandi um morguninn að ég dreif mig á hjólið og hjólaði niðureftir. Lét Bjarna sækja mig svo eftir gönguna til að fara í veislu Grafarvoginn. Þaðan hjólaði ég svo heim í Hafnarfjörðinn. Písoffkeik! Og gamli hjólafílingurinn er kominn upp í bóndanum, hann trúir því næstum því að hann sé að hjóla í skólann úti í Köben.

Ég er búin að finna ágætisleið sem ekki kallar á rússneska hraðabrautarúllettu og ekki heldur of mikla króka. Hjóla framhjá Sólvangi inn á hjólastíginn vestan við Reykjanesbrautina, í undirgöngin við Kaplakrika, inn á hraunin í Garðabænum og upp á stígana við Vífilsstaðaveginn. Þaðan eru stígar þræddir í undirgöng við Arnarneslækinn og yfir Arnarnesið og eftir stígnum norðan við Hafnarfjarðarveginn. Framhjá Sunnuhlíð og í undirgöng við Salinn í Kópavogi, niður Ásbrautina og inn á stígana og yfir göngubrúna í Fossvognum. Mætt í vinnu eftir u.þ.b. 40-45 mínútur, þetta er u.þ.b. 10-15 km eftir því hvaða leið ég hjóla heim til að fá einhverja tilbreytingu.

Ég nefndi Ironman/woman í upphafi en sú tilvísun er í ofurhetjur sem hjóla, hlaupa og synda í keppnum. Ég er búin að hjóla yfir 130 km á 5 dögum og synda og skokka smá en þar sem ég fer afskaplega rólega í þetta allt tel ég mig miklu mun nær því að vera trékerling fremur en járnkona. Bjarni segir að ég komist næst því að vera tréhaus....:). Ekki get ég verið álkerling því ég er ekki nógu létt til þess.

Hjerastubbur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband