Trúir þú á tilviljanir? - Ársafmæli stóra skjálftans í Chile 27. febrúar

Dagur mágur minn hringdi rétt fyrir klukkan tíu í morgun og spurði mig hvort ég tryði á tilviljanir. Þá var jörð búin að skjálfa á stór Hafnarfjarðarsvæðinu.

Ég vaknaði rúmlega níu við það að rúmið vaggaði létt og það brakaði í hurðakarminum. Ég var ekki viss um hvort mig hefði verið að dreyma þetta fyrr en Bjarni kvað úr um vafann. Skjálftahrina við Krýsuvík er staðreynd.

Í gær var fólk í vöfflukaffi hérna og sagðist ég halda upp á að stóri skjálftinn væri að fara að eiga ársafmæli. Það er skrítið hvað tíminn líður, virðist frekar stutt síðan ég sólbakaði mig dag eftir dag í suðrænni Chile sól.

Í dag 27. febrúar kl 7.34 að íslenskum tíma er nákvæmlega ár frá því að stóri skjálftinn reið af. Einum og hálfum tíma seinna fann ég fyrir íslenskum jarðskjálfta, þeim fyrsta íslenska í nokkur misseri. Ótrúlegar tilviljanir.

Og hvernig varð mér við? Þessi þarna í morgun hreyfði ekki við mér, enda vaknaði ég bara við hann. Næstu skjálfta fann ég ekki, var úti við ofl. Hins vegar þegar skjálftinn kom kl 17.20 sat ég við tölvuna og var mjög upptekin við lestur. Mér brá við höggið sem varði í mjög fá sekúndubrot en ég fékk gæsahúð sem leiddi allaleið inn í heila að mér fannst. Gamall vani frá Chile lét mig líta í kringum mig og sá ég að ljósakrónan hreyfðist varla. Ég ákvað að gera létt líkamsmat á mér sitjandi hér í stólnum og taldi hjartsláttinn. Hann fór ekki upp fyrir 65 slög á mínútu.

Ég upplifi sömu tilfinningu gagnvart íslenskum jarðskjálftum núna og fyrir Chile reynsluna. Þetta er ekki lífsreynsla sem fær mig til að hrópa húrra og jibbý. Ég er heldur ekki hrædd, sé ekki ástæðu til þess því þetta er mjög sakleysisleg hreyfing hér á mínu svæði. Hins vegar fór ég að líta á heimilið og skoða hugsanlegar slysagildrur, ef eitthvað félli úr hillum.

Nú get ég andvarpað feginsamlega og sagt að það sem ég hef velt fyrir mér er liðið. Já ég hef velt því fyrir mér allt frá því að ég kom aftur heim hvernig mér myndi verða við þegar ég fyndi aftur jarðskjálfta. Þau viðbrögð voru mjög ásættanleg, það verð ég nú bara að segja. 

Svo er bara að mæta í vinnuna á 8. hæðina á morgun......:)

 

Hjerastubbur

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband