Andlegur stuðningur - Áfallastreituröskun

Ég hef lítið talað um þann áfallastuðning sem ég fékk tímann sem við biðum eftir flugi út úr Chile. Nú er ég hins vegar tilbúin til að leggja á borð vanmátt minn þó mér sé meinilla við að vera eitthvað öðruvísi en aðrir sem lentu í sama skjálftanum.....:) Klassísk einkenni hins sjúka er að verða enn vanmáttugri þegar „allir“ aðrir í kring virðast fullir heilbrigði. Það fór hrikalega mikið fyrir brjóstið á mér. Þó ég ætti í raun að gleðjast yfir því að ekki væru fleiri í fjölskyldunni hræddir, að þeir hafi ekki skynjað hamfarirnar á sama hátt, en svo rökrétt hugsar maður nú ekki.

Fólkið í kringum mig úti sýndi ekki merki áfalls þó þau væru slegin. Við vorum mikið með Hörpu fyrstu dagana eftir skjálftann, enda bjuggum við inni á henni í fjórar nætur. Það var afskaplega gott að finna öryggið sem það veitti mér og eins mataði hún okkur á fréttum úr hinni spænskumælandi veröld. Fréttir á alþjóðavefum voru ansi einsleitar og skuggalegar. Borgin og fólkið í borginni tók sinn tíma til að jafna sig eftir fyrsta áfallið og upplifðum við mikla samstöðu.

Daginn eftir jarðskjálftann hafði Bjarni samband við tryggingafélagið út af flugmálum og spurði jafnframt um áfallahjálp. Það er ekkert launungamál að ég var/er með einkenni áfallastreituröskunar og viti menn, á mánudeginum hringir sálfræðingur RKÍ í okkur. Heyrir fyrst í Bjarna sem fær mjög nothæfar upplýsingar um þetta fyrirbæri sem hann segist varla hafa vitað að væri til. Við spjölluðum svo saman og þótti mér gott að vita af þessum stuðningi RKÍ sem ég leitaði svo í þegar heim kom.

Hins vegar verður að segjast að langmesti og mikilvægasti áfallastuðningurinn sem ég fékk kom frá mömmu hennar Hörpu henni Helgu Þorbergsdóttur hjúkrunarfræðingi í Vík í Mýrdal. Hún hringdi út til mín sama dag og sálfræðingurinn til að heyra hvernig mér liði. Var búin að frétta frá Hörpu að andlegt heilsufar mitt væri ekki upp á marga fiska. Við ákváðum í framhaldinu að tala saman í mynd á skype og áttum við nær dagleg samtöl út biðtímann. Hún lét sér það ekki nægja heldur fékk hún mig með sér á Helgafell Hafnfirðinga þegar heim kom og áfram töluðum við. Helga á HelgafelliRósa og Sámur á Helgafelli

 

Ótrúleg kona og umhyggjusöm. Á biðtímanum í Santiago kom ég oft inn í íbúð eins seint og ég komst upp með á kvöldin (þegar byrjaði að rökkva) og þá var klukkan orðin ansi margt á Íslandi. Helga beið samt og einhvern tímann talaði hún við mig fram yfir miðnætti! Þetta var ómetanleg umhyggja sem hún sýndi mér og hvernig hún gat rætt áfallið og svo líka bara lífið, tilveruna og fólkið í löndunum tveim. Henni tókst með sinni lagni að fá mig til að leiða hugann að öðru en bíða eftir næsta eftirskjálfta. Bjarni sagðist finna á mér ef ég missti úr dag að tala við hana, að ég hefði þá minni eirð í beinunum. Mér fannst ég reyndar alltaf eirðarlaus en það er nú annað mál. Eitthvert kvöldið sem við ræddum saman kom einmitt eftirskjálfti sem allir fundu og ég fór bara að gráta í beinni á skype. Helga var hin rólegasta og í stað þess að kveðja þar sem ég væri sýnilega ekki í stuði til að spjalla (eins og einhverjir aðrir með minni þolinmæði hefðu freistast til) þá hélt hún mér uppi á tali í klukkutíma og náði úr mér mesta óttanum. Já hún er alveg einstök og er ég henni óendanlega þakklát fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og fjölskylduna í leiðinni. Harpa hefur erft eiginleika hennar því hún var þvílíkt þolinmóð að leyfa þessari vansælu konu með alla fjölskylduna að gista hjá sér margar nætur.

Kærar þakkir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband