Færsluflokkur: Kvikmyndir

Alþjóðleg kvikmyndahátíð

Við hjónin er ósköp áþekk mörgum öðrum hjónum. Við sinnum daglegu amstri, vinnum vinnuna okkar og gerum svo lítið annað. Gætum hugsanlega þekkst úr á veitingastað, að hér færu hjón sem lengi hefðu verið saman! Wink

Tengdamóðir mín hringdi einn rigningardaginn og bauð okkur klippikort á kvikmyndahátíð. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og sagði Já Takk.  Við vorum búin að hita okkur aðeins upp þar sem við höfðum séð bæði Astrópíu og Superbad dagana áður.

Astrópía er skemmtileg mynd og eins og Bjarni segir: það er ekkert verið að búa til eitthvert dramakjaftæði, hún er bara skemmtileg og svo er hún búin og basta.

Superbad er visst sjokk fyrir unglingamóður, getur verið að líf okkar á unglingsárum hafi bara snúist um tippi og pjöllur? Myndir fjallar um kynsveltan ungling sem getur ekki hugsað sér að hefja háskólanám hreinn sveinn. Mjög uppbyggilegt efni! Ég tók alveg hálftíma í ræðuhöld eftir myndina um samskipti kynjanna. Ja hérna hér......

Mynd 1. Svo ég snúi mér að kvikmyndahátíð, þá byrjuðum við á að horfa á frábæra danska mynd, Grátið í kór. Þrátt fyrir geðsjúkan heimilisföður sem manipuleraði með alla fjölskylduna með grátköstum og sjálfsmorðshótunum og þrátt fyrir að myndin fjalli um sifjaspell og þöggun, þá er hún óskaplega vel gerð og skemmtileg líka.... merkilegt nokk. Hún er ekki "svört" ef hægt er að komast svo að orði.

Reyndar fannst mér hlegið oftar en góðu hófi gegndi að efni sem alls ekki var aðhlátursefni. Mig langaði nokkrum sinnum til að standa upp og öskra á þessa hláturmildu að þetta væri ekkert fyndið, heldur háalvarlegt mál. Stundum held ég að fólk sé svo veruleikafirrt að það haldi að allt efni sé hlátursdósaefni sem alls ekki eigi að sjúkdómsgreina neitt, bara hlægja og gleyma svo.

Þessi mynd er ljóslifandi fyrir mér og fannst mér mjög heimilislegt að sjá allt dótið frá 1971, árið sem myndin á að gerast. Svo er hún á suðurjósku og þegar hún var frumsýnd í Danmörku þurfti að texta hana fyrir danann sjálfan. Svo illskiljanlegt er þetta mál.

 Mynd 2.

Næst sáum við Iraq in fragments, heimildamynd um lífið í Írak. Mjög hæg og erfið áhorfs. Mikið talað um lífið, trúmálin og öll er hún á frummáli. Sem sé, ég sofnaði í miðjum klíðum! Kunni ekki við að ganga út og lagði mig því í staðinn......

Mynd 3.

Roaming- rótleysi. Þessi mynd er um sígauna og fallvalta menningu þeirra. Þar takast á annars vegar þjóðsagan um rótleysi, þjófótt fólk (leggst ekki svo lágt að vinna fyrir matnum) og dans, og hins vegar um nútímann þar sem ungt fólk vill komast til mennta, vera nýtir þjóðfélagsþegnar og kannski pínkulítið steypt í sama farið og restin af Evrópu. Allavega, þá fylgir maður þrem sígaunum eftir á flakki um Evrópu og fáum nasaþef af því hvernig gamli tíminn og sá nýji passa ekki vel saman og þó! Mjög skemmtileg mynd um leitina að arflegð sígauna. Tónlistin í myndinni er dásamlega falleg.

Fleira? Þetta blogg sýnir að við gerðum eitthvað meira en bara að sinna daglegu amstri og vinnu. Fórum í bíó og út að borða! Kraftaverkin gerast enn.

Enn fleira? Jú Bjarni er floginn til Ungverjalands og vill örugglega sjá blogg.

Hjérastubbur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband