Ég á ykkur kæra fjölskylda, vinir og velunnarar svo margt að þakka á þessu ótrúlega skjálftatímabili í lífi okkar. Á samkomu hjá ÍSOR fékk ég að segja nokkur orð til samstarfsfólks Bjarna og eiga þessi orð mjög mikið erindi við ykkur öll. Ég ætlaði að vera búin að setja þetta inn en ég er bara ekki á fullu gasi ennþá.... en það kemur, treystið því....:)
Mig langar til að þakka ykkur alla hjálpina, stuðninginn og kveðjurnar sem bárust með suðrænum blæ um óraveg til Chile. Þessi jarðskjálfti verður í minnum hafður og er strax farið að gantast með hann sem 8.8 á Richter + einn (er þá verið að tala um hann Bjarna minn), en það er ekki nægilega nákvæmt. Ef á að nota þessa reikniformúlu þá var þetta skjálfti upp á 8.8 á Richter + þrír, því að þeir voru þrír Richterarnir mínir sem þarna voru staddir í 5. stærsta skjálfta sem nokkurn tímann hefur mælst í heiminum!
Hægt er að segja sögur úr skjálftanum, sögur þar sem áheyrendur segja ups og vá og jafnvel brosa pínulítið því þær sögur eru af fólki sem var til frásagnar eftir skjálftann. Hinn hlutinn, sá sem veldur því að hjarta mitt er þungt er að í þessum skjálfta (og flóðbylgju) létust 432 manns og 98 hurfu (breytt 31.mars skv. nýjustu upplýsingum) sem skilja eftir sig örvæntingarfulla aðstandendur. Því get ég aldrei gleymt.
En við sluppum heil og fyrir það er ég óendanlega þakklát og alla ykkar umhyggju.
Kær kveðja
Flokkur: Ferðalög | Föstudagur, 26. mars 2010 (breytt 31.3.2010 kl. 23:19) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.