Í fyrrasumar áttum við frábæra ferð vestur á firði og voru hin ýmsustu horn og hólar skoðuð þar. Þ.á.m. var kíkt inn í fornbókabúð einstaka á Flateyri þar sem bækur voru seldar eftir vigt. Fann ég þar merkisrit nokkuð sem ég hafði ekki enn komið í verk að lesa (og verð að viðurkenna að ég er ekki enn komin í gegnum hana) en það var Hús Andanna og var þessi bók á hinni ylhýru dönsku. Bjarni var á þeim tíma byrjaður að brölta í jarðhitamálum í Chile og fannst mér gráupplagt að komast að hinum innri chiliska manni í gegnum þetta ritverk.
Allavega, þá tók ég þessa bók fram áðan og greip fyrir tilviljun niður í þessa setningu: Fjölskyldan hélt áfram að borða án þess að gera athugasemdir. Þau höfðu líka vanist spádómum litlu systur (Clara). Hún sagði fyrir um jarðskjálfta í tæka tíð, sem var mjög praktískt í svona hamfara-landi, þá gafst tími til að koma postulíninu á öruggan stað og hafa skóna innan seilingar þegar maður þyrfti að hlaupa út í nóttina. Já jarðskjálftar eru merkilegt fyrirbæri og ekkert nýtt að fólk óttist kraft þeirra.
Ég minnist þess að Bjarni hafi nefnt það einhvern tímann á dvalartíma okkar í Chile að þeir væru í raun farnir að bíða eftir þeim Stóra, það væri kominn tími á 50 ára jarðskjálftann, bara alveg eins og við erum að bíða eftir Kötlugosi (sem leggi jarðarkringluna í rúst samkvæmt hamfaraspám). Ég minnist þess líka að hafa sagt að það væri nú þeirra mál og var mjög á því að þeir skildu sko bara fá að bíða eitthvað lengur.... En mér varð ekki að ósk minni.....
Þýsk vinkona mín sendi mér póst um að allt hefði sinn tilgang. Ég gramsa og gref eftir tilgangi skjálftans og mun sennilega gera um sinn. ...... Kannski átti hún við að jörðin þyrfti að losa um spennu eða kannski ekki....
Kær kveðja
Flokkur: Ferðalög | Miðvikudagur, 31. mars 2010 (breytt kl. 21:23) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.