Um síðustu helgi lauk ég fermingarskyldum mínum..... sagði reyndar að héðan í frá myndi ég ferma að vori. Upp á þá ákvörðun mína skortir bara fleiri börn! Hins vegar er morgunljóst að ég er komin úr barneign.... allavega andlega. Í fermingarundirbúningnum var fjöldi manns hér í húsi við vinnu og skemmtan vegna fermingar, Júróvísion og kosninga. Skyndilega heyrði ég barnsgrát og tilfinningin sem kom yfir mig var að einhver þyrfti að hugga þetta barn (lesist:þagga niður í krakkanum), ég væri búin með þann skammt. Gráturinn reyndist koma úr sjónvarpinu og hugsanir mínar bentu klárlega til að ég væri komin úr barneign!
En það var ekki þetta sem ég ætlaði að ræða. Það var ferming yngri sonarins sem fæddist í þennan heim með miklum látum desembermorgunn einn í Kaupmannahöfn. Leigubílsstjórinn sem keyrði okkur hjónin upp á fæðingardeild gerði sér skyndilega grein fyrir því að allt stefndi í óefni í aftursætinu og keyrði á öðru hundraðinu. Barnið fæddist á fæðingardeild Herlev sjúkrahússins 40 mínútum eftir fyrstu hríðir. Ekki dugðu honum þessi læti því sjö dögum síðar fór heilbrigðum og flottum strák að hraka og það kvöld var hann orðinn það veikur að hann fór í öndunarstopp og var settur í öndunarvél. Í framhaldinu fór hann í hjartaaðgerð en hann hafði fæðst með hjartagalla sem ekki uppgötvaðist fyrr en þarna. Hann braggaðist og fékk að halda áramótin heima með fjölskyldunni (myndina hér til hliðar tók starfsfólk gjörgæslunnar á jólanótt).
Ekki hefur þetta háð honum síðar nema að hann var endalaust að fá slæmar lungnabólgur sem barn og gekk á tímabili undir nafninu lungnabólgu‑Jón.
Fermingardagurinn var guðdómlega fallegur, sól og blíða í Hafnarfirði en fermingin fór fram í Hafnarfjarðarkirkju og Guðbjörg sóknarprestur fermdi hópinn. Ég var hálfklökk yfir þessu og einhver tár trilluðu niður kinnar í kirkjunni enda ýmislegt sem við höfum þurft að lifa af. Og horfa á hann þarna svona fallegan og bjartan, flottan strák sem getur allt sem hann ætlar sér og nennir! Upplitsdjarfur kvaddi hann Guðbjörgu prest með orðuðum: 'Lof og dýrð sé með þér'! Hann er pínulítill grallari en hún brosti afskaplega fallega til hans.
Vikurnar fyrir fermingu vorum við að skoða gamlar myndir af strákunum og söfnuðum í myndasýningu og þá virkilega helltust minningarnar yfir mann. Ótrúlegt að þessir stóru og glæsilegu ungu menn hafi verið pínulítlir trítlar, með skærar barnsraddir. Núna rymur úr breiðum börkum. Bjarni er hins vegar í sjokki yfir aldurstengdum breytingum á fullorðna liðinu.
Eftir athöfnina var boðið til veislu í sal RKÍ og var mjög ljúft að taka á móti og hitta allt þetta yndislega fólk. Við fengum ómetanlega hjálp frá frábærum vinum og ættingjum bæði fyrir og í veislunni. Þeirra sem ekki komust var sárt saknað. Jón Hákon er helst á því að halda bara aðra fermingarveislu fyrir austan í sumar! Honum finnst sárt að hafa ekki getað gefið fólki góðar kökur að borða. Hann var gríðarlega ánægður með daginn og er enn með stjörnur í augunum yfir öllum fermingargjöfunum. Stefnir á skátamót Hraunbúa um næstu helgi með nýjan viðlegubúnað!
Kær kveðja
Hjerastubbur
Flokkur: Ferðalög | Sunnudagur, 6. júní 2010 (breytt 7.6.2010 kl. 19:41) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.