Á miðvikudaginn var sannkölluð hátíð á mínu heimili.
Chiliska fánanum flaggað, Chile súpa elduð, haft kveikt á Skynews allan daginn og fylgst með einstæðri björgun 33 námumanna úr San Jose námunni í norðurhluta Chile. Þetta voru mögnuð móment þegar þeir komu upp einn af öðrum. Merkilegt nokk þá snerti björgun hvers og eins mig mikið, ég fékk vægan hroll og tár trilluðu niður kinnar. Ég er stundum svo mikið tilfinningabúnt að ég átti mjög auðvelt að lifa mig inn í aðstæður.
Ég veit ekki hvort íslenskt "hráslagalegt" uppeldi þar sem veðrið og náttúran spilaði stóra rullu hefur haft þessi áhrif á tilfinningar mínar tengdar náttúrunni og náttúruhamförum. Fólk mjög náið manni þurfti stundum að vinna fjarri heimili s.s. við sjómennsku / ferðast langan veg um óbyggðir í leit að fé og fleira. Veður voru oft válynd og svaf maður ekki vært ef fréttist af stormi á miðum, byl á fjöllum og ófærð á vegum þar sem fjölskyldan var á ferð. Ég lærði snemma að bera virðingu fyrir miskunarlausri íslenskri náttúru og geri enn í dag.
Verð þess vegna frekar döpur þegar ég frétti af ferðum hugsunarlausra einstaklinga um landið og miðin klædd og útbúin eins og séu að fara á kaffihús í miðborginni. Taka jafnvel með sér börnin í þessar vafasömu ferðir, en börnin fengju hins vegar ekki að fara með þeim á barinn.
Allavega, piltarnir eru allir komnir upp á yfirborðið og má halda hátíð yfir því. Ég fann grein úr Santiago Times sem eftirlifendur flugslyssins í Andesfjöllum 1972 skrifuðu. Mjög góð samantekt hjá þeim á lífinu eftir björgun. Þeir bjuggu við það að hluti fólks dó og nartað í nokkra, meðan mesta álagið á námumennina er myrkrið og að vera svona langt niðri í jörðinni ..... herre gud eins og daninn myndi segja!
Læt þetta duga í bili.
Hérastubbur
Flokkur: Ferðalög | Föstudagur, 15. október 2010 (breytt 17.10.2010 kl. 12:45) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.