Eitthvað gengur nú treglega að standa við stóru orðin með fjallgöngur um hverja helgi. Þegar stund gefst á milli stríða er ekki alltaf það veður sem ég óska mér til gönguferða.
Í dag höfðum við ætlað okkur að ganga á Stóra-Reykjafell á Hellisheiði og jafnvel ef allt færi að óskum að hafa gönguskíði með og ganga á þeim á Skálafell sem er sunnan vegar á Hellisheiði.
Eins og alþjóð veit, var ekki ferðaveður á fyrrnefnt svæði vegna hvassviðris, kulda og skafrennings.
Þá voru góð ráð dýr. Ég fann fyrir vaxandi pirringi að geta ekki hreyft mig og var ekki sátt við þá uppástungu góðhjartaðs að njóta bara gluggaveðursins.
Snjóbretti og gönguskíði voru dregin fram, farið í ein fimmtán lög af flíkum og keyrt upp í Heiðmörk. Heiðmörkin hefur oft bjargað þegar veður eru válynd.
Við fórum á afleggjarann sem liggur upp í Grunnuvötn. Vegurinn var genginn upp (ca. 30 sinnum) og svo renndu drengirnir sér niður við mikinn fögnuð og læti hunds.
Ég ákvað hins vegar að fara í gönguferð ofan skógar og þvílíkt illviðri sem ég lenti í. Bálhvasst og ógeðslega kalt. Það rann stanslaust úr augum og nefi.
Til að toppa daginn skelltum við hjónin okkur á gönguskíði. Sú ferð varði ekki lengi, en nú var það ekki kuldinn sem dróg úr manni þrekið heldur erfiðið að halda sér uppréttum á þessum flekum. Bóndinn lagðist í rúmið eftir þær hremmingar.
Að lokum vona ég að þjóðin komist heilu og höldnu úr hinu íslenska vetrarveðri.
Hjerastubburinn
Athugasemdir
Já Rósa mín. Miklar eru hremmingar þína! Hér í Reykjavík var náttúrulega besta veður. Þér hefði verið hæfilegt að ganga upp á Stakkoltið, Þar hefði beðið heitt á könnunni og krakkar og hundur hefðu geta rennt sér á vatnshólnum. Þú hefðir ekki tárfellt og Bjarni ekki lent í rúminu.
Dagur Emilsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 23:43
Dagur minn! Ég skil ekki þetta sambandsleysi í höfðinu á mér að fatta þetta ekki. Reyndar hefur mér æfinlega þótt ágætur vatnstankur ykkar tæpur til stórra afreka, en ég skal samt íhuga málið næst þegar nnv 15 og skafrenningur skellur á mér
Kær kveðja í Holtið frá Hjerastubbnum.
Rósa Jónsdóttir, 19.3.2007 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.