Ég heilsa að kvöldi lengsta föstudags ársins, freknótt og fótafúin!
Páskahátíðin er yfirleitt boðberi afslöppunar, enda frídagarnir nokkuð fastir í sessi og litlar kröfur gerðar á pakkaflóð eins og á hinni stórhátíð ársins.
Ýmsar pælingar voru um hvaða fjall skyldi sigrað í þessari atlögu. Helgafell Hafnfirðinga kom sterklega til greina sem og Esjan. Eftir mikilvægt símtal við Hrísrimann gleymdist allt um gönguskó en þess í stað var ákveðið að skella sér á skíði í Bláfjöll með vinum og vandamönnum. Jú í Bláfjöllum er nægur snjór og á meðan karlpeningurinn brá sér í brekkurnar liðkaði ég gönguskíðin.
Veðrið var stórkostlegt, logn og sólin sá svo sannanlega til þess að andlit skíðafólksins skipti alveg um lit. Ekki dugði einn dagur í þetta heldur var vaknað fyrir allar aldir í morgun til að endurtaka leik gærdagsins.
Ég bauð Sámi upp í dans og þáði hann að ganga með mér stóra hringinn tvo daga í röð en leiðin lá m.a. upp á Heiðartoppa og inn í Kerlingardal (sjá kort af gönguskíðaleiðum inni á heimasíðu skíðasvæðanna www.skidasvaedi.is ). Útsýnið var stórkostlegt og set ég hér inn mynd af Sámi hvíla lúin bein á toppnum.
Harðfenni var og auðveldari það mjög gönguna, yfirleitt. Á leiðinni upp langar brekkur fékk ég nefnilega kvíðahnút í magann við tilhugsunina um það hvernig ég kæmist lifandi niður! Svo skelkuð var ég í gær yfir hraðanum að ég skellti mér barasta á rassinn..... og stoppaði að sjálfsögðu. Í dag mátti enn sjá djúpt far í snjónum....
Í dag tókst mér að fljúga á hausinn í einni lítilli og sætri brekku og var því nokkuð strekkt yfir því sem koma skyldi á bakaleiðinni, þegar að löngu brekkunni kæmi. Á brekkubrún staldraði ég við, til að telja í mig kjark og ekki síður til að virða fyrir mér hvernig reyndara fólk komst niður án þess að fórna bæði lífi og limum. Ég ákvað að tileinka mér það sem ég sá og merkilegt nokk, nýja aðferðin svínvirkar en veldur reyndar gríðarlegu álagi á innan og utanlærisvöðva sem ekki hafa þurft að gera neitt síðan í púlinu hjá JSB þarna um árið.
Í skíðabrekkunum beið mín bóndinn með gleðisvip á andlitinu, hrikalega klár á skíðunum.
Það var örþreytt og hamingjusamt fólk sem skreið í hús eftir ógleymanlegan dag með yndislegu fólki.
Hjerastubbur kveður
Flokkur: Ferðalög | Föstudagur, 6. apríl 2007 (breytt 9.4.2007 kl. 18:44) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.