Frábært páskafrí er að renna sitt skeið á enda. Þetta frí hefur fremur einkennst af mikilli samveru við vini og ættingja, mikilli hreyfingu og góðu veðri (allavega fyrrihluta frísins).
Mér fannst samt í morgun eins og ég ætti ennþá eftir að GANGA (ekki bara á gönguskíðum) á eitt fjall/fell/hól um þessa helgi. Við vorum þó búin að rölta upp að Gunnhildi (varðan ofan við Vífilsstaði) í gær í skítaveðri. Þar uppi er búið að setja útsýnisspjald með helstu kennileitum sem við sáum ekki vegna lélegs skyggnis. Það kom þó ekki að sök þar sem þessi leið hefur verið gengin oftar en tölu er á komandi og ekkert sem kom manni á óvart.
Skíðadagana frábæru á skírdag og föstudaginn langa uppgötvaði ég mér til gleði að álitlegt fell úr Bókinni var skammt frá Bláfjallaafleggjaranum þ.e. Stóra- Kóngsfell. Ég reyndi að lokka fjölskylduna með mér í fjallgönguna en nú var algjör sundrung ríkjandi hér á bæ. Einn ætlaði með afa sínum í golf til Þorlákshafnar (já golf um miðjan vetur!!!!), annar taldi sig þurfa að gera við bíl, klippa hekkið og annað smálegt í almennu viðhaldi, meðan sjá þriðji var með skotheldustu afsökunina. Jú hann langaði bara ekki.
Hundurinn hafði ekki val og keyrðum við í slabbi Hafnarfjarðarleiðina inn í Bláfjöll. Skammt frá skíðaskálunum má sjá bílastæði við merki sem á stendur ELDBORG. Þar hófum við gönguna.
Eldborgin reyndist hin glæsilegasta og þess virði að skoða, eða eins og stendur í Bókinni "...afar glæsileg eldborg með djúpri hrauntröð.... frá sögulegum tíma". Á milli Eldborgar og Stóra-Kóngsfells stendur minna fell sem heitir Drottningarfell eða bara Drottning. Þegar Eldborginni sleppti gengum við vestur fyrir Drottninguna í snjó. Hundurinn gjörsamlega missti sig í lausamjöllinni sem hefur fallið þarna síðustu dagana. Hljóp út og suður og kútveltist í snjónum af gleði. Snjórinn og drullan dró úr mér löngunina til að takast á við kónginn í þetta sinn en þess í stað gengum við hringinn í kringum drottninguna og enduðum á að klífa hana, þó þessi litli hóll væri ekki árennilegur. Það er ekkert launungarmál að ég er lofthrædd kona. Hef einnig ískyggilega ríkt ímyndunarafl og hef séð alltof mikið að stórslysamyndum til að geta gengið um íslenska náttúru án þess að velta fyrir mér hvað gæti nú gerst ef..... Allavega, hvert skref upp sendi mig þrjú niður, svo laust var í hlíðinni. Þetta hafðist þó að lokum. Eftir útsýnisskoðun renndum við okkur fótskriðu niður (það leit allavega þannig út).
Fyrstu en ekki síðustu él dagsins skullu á okkur um það leiti sem við náðum bílnum aftur.
Kveðja
Hjerastubbur
Flokkur: Ferðalög | Mánudagur, 9. apríl 2007 (breytt kl. 19:17) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.