Helgina 31. mars -2 apríl var dvalið á Fljótsdalshéraði. Stórfrænka mín hún Guðrún Sól var fermd og tókst vel til með þann gjörning. Fékk hún ritningarorð sem voru eitthvað á þá leið að hún ætti að vera fullkomin eins og jarðneskur faðir hennar eða var það kannski himneskur faðir? Veislan var haldin á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, http://www.ahreindyraslodum.is/ þar sem saman söfnuðust ættingjar og vinir fermingarbarnsins. Haddi bróðir þráði að mæta en þróttleysið og veikindin öftruðu honum frá því.
Að kvöldi fermingardags héldum við í heimsókn upp í Klaustursel og dvöldum þar yfir nótt. Vöknuðum snemma enda ýmislegt sem koma þurfti í verk þann daginn. Byrjuðum á búskapnum. Ljúft að komast aðeins í fjárhúsin og nusa af fénu og nýfæddum lömbum. Þar eru nú þegar fæddar tvær hvítar gimbrar.
Ákváðum að því loknu að uppfylla þarfir unglingsins fyrir eyðibýli og keyrðum norður fyrir á og bönkuðum upp hjá Sillu á Hákonarstöðum. Okkur var meir en velkomið að labba niður í Heimasel sem var nærtækasta eyðibýlið.
Á Heimaseli (Breiðalæk) átti heima hann Jónas Sigurgeirsson. Ljúfur karl sem bjó þar einn (utan 2 ár sem faðir hans var hjá honum) án útvarps, sjónvarps, síma, véla og konu frá 1937. Heimasel liggur norðan við Jöklu á móti Stuðlafossi en á Stuðlafossi voru beitarhús frá Klausturseli seinni ár. Ég man eftir því að sjá Jónas á vappi í kringum bæ sinn hinu megin ár, þegar við áttum leið í Stuðlafoss en ég kynntist honum ekki fyrr en hann kom til dvalar á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum þar sem ég starfaði í sumarafleysingum. Hann lést þar árið 1984. Í stað þess að fylgja vegslóðanum að Heimaseli, lögðum við bílnum á þjóðveginum nokkru ofar. Gönguleið okkar lá um hjalla sem þennan dag voru auðir af snjó og að mestu þurrir. Bærinn stendur á sléttri grund, ekki langt frá Jöklu sem heyra mátti belja fyrir neðan. Talandi um það, þá kom það mér verulega á óvart hversu lítið minni Jökla var frá síðasta sumri, miðað við eitt stykki Kárahnjúkavirkjun. Reyndar leysingar í gangi og hitinn fór vel yfir 10 gráðurnar. Á Heimaseli standa hús ennþá en þó er íbúðarhúsið nokkuð hrörlegt. Má greina þar ýmsar minjar frá tíð Jónasar, s.s. eins og gamlar nótur frá KHB honum merktar. Lengi lifi kaupfélagið!
Þegar búið var að skoða allt í þaula ákváðum við að skipta liði. Þeir piltar fóru aftur upp hjallana að bíl og ætluðu að mynda nokkra eyðibíla sem finna má á Hákonarstaðahólnum. Mig langaði meira til að ganga svolítið og rifja upp fáeinar minningar tengdar svæðinu. Ég gekk því gamla þjóðveginn í átt að Grund en hann liggur mun nær Jöklu en núverandi vegastæði. Gekk ég frá Heimaseli niður í Heimaselshvamm að Kringilsá. Hinum megin við Jöklu er Fossáin með sinn glæsilega Stuðlafoss, einnig má sjá túnin á Stuðlafossi (hét einnig Fossgerði), og innan við þau er Víðidalsáin. Það er einkennilegt að sjá þetta landslag "öfugu" megin ár. Þegar ég var krakki að flækjast um öll tún og grundir í Klausturseli og á Stuðlafossi, gangandi eða á traktor / bíl þá hafði ég ákveðin beyg af Jöklu. Ég var alin upp við það að Jökla tæki það sem hún næði tökum á og skilaði engu. Því bar ég ómælda virðingu fyrir henni og geri enn. Martraðir uppvaxtaráranna voru flestar á einn veg, þ.e. ég væri stödd á neðstu hjöllum við Jöklu og rynni af stað niður í ár. Vaknaði þá við að það vera að hrapa í ána. Nú eru mörg ár síðan mig hefur dreymt þetta en þegar ég gekk þarna í sólskininu rifjuðust upp þessar draumfarir enda blöstu neðstu hjallarnir við mér hinu megin við ána. Niðri í Heimaselshvamminum var dýrindisveður og lækir spruttu upp um allar koppagrundir. Ég komst ekki lengra en að Kringilsánni þar sem hún var í miklum vexti. Hún var reyndar ágætlega væð en mér fannst það of mikið mál og gekk frekar upp meðfram henni, upp að þjóðvegi. Þar komu að á svipuðum tíma mínir piltar og Alli bróðir að koma af beitarhúsum á Vaðbrekku.
Eftir velútilátna máltíð í Klausturseli var haldið í Egilsstaði og Haddi og fjölskylda heimsótt.
Síðan var flogið um loftin blá til Reykjavíkur.
Kveðjur
Hjerastubbur
Flokkur: Ferðalög | Mánudagur, 9. apríl 2007 (breytt 10.4.2007 kl. 19:55) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.