Undirhlíðahnjúkar (160 m.)

Suma daga stjórna veðurspár lífi mínu meir en aðra daga. Það er þá daga sem ég ætla að nota í útivist utan byggðar. Þegar helgarspáin þessa helgi var ígrunduð sá ég að skynsamlegast væri að ganga á fjall í dag, þá væri alla vega þokkalega lágt rakastig í loftinu.

Því hristi ég liðið snemma fram úr rúmi og eftir staðgóða næringu var nánast öllu testósteróni komið fyrir í tómstundum, þ.e. unglingurinn fór á bigband æfingu, barnið á sundæfingu og bóndinn í stórframkvæmdir í bílskúrnum.  Hundurinn fylgdi mér, nema hvað.

Þó ég sé búin að ganga oftar en einu sinni á Helgafell Hafnfirðinga fannst mér ekkert annað koma til greina í dag. Búið var að spá smá rigningu og roki og þó mig langi að reyna aftur við Stóra-Reykjafell þá þorði ég ekki á það svæði vegna mikillar ársmeðalúrkomu á svæðinu.

Semsé, Helgafellið skildi það vera. Keyrt var uppfyrir Kaldársel og lagt við stífluna, enda ekki lengra hægt að komast þó farartækið væri magnað. Búið að raða einni tylft af stórgrýti á gamla vegslóðann við Kaldána.  Upphafi göngu var seinkað um 15 mínútur (meðal seinkun á öllu flugi Flugleiða) vegna veðurútlits en í suðvestri reis hið hrikalegasta óveðursský sem æddi yfir okkur á stuttum tíma. Úrkoman var ekki mæld en hún var mikil, það má bóka hér og nú. Sámur skyldi ekki þessa töf á því að komast út og æddi ýlfrandi um bílinn, meðan ég lét fara vel um mig og hlustaði á upphaf hádegisfrétta. Skyndilega leyst mér miklu betur á að heilsa upp á Undirhlíðarnar og Undirhlíðahnjúkana (Kaldárselshnjúkar syðri). UndirhlíðarÞað var hvasst á svæðinu og hafði ég ekki geð í mér að vindþurrkast á Helgafellinu. Undirhlíðarnar liggja sunnan Helgafellsins og hæsti hnjúkurinn er um 160 metrar. Klifum við hann áfallalaust. Við gengum á móti storminum í suðvestur eftir endilöngum móbergshryggnum og til stóð að ganga í bakaleiðinni eftir skógræktarsvæðinu. Fyrir um þrem aldarfjórðungum hófst skógrækt á svæðinu er fyrstu barrtrjánum var plantað sumarið 1930*. Svæðið er mjög skemmtilegt til útivistar og tilvalið að fara þangað í lautartúr.

Gígaröð UndirhlíðarÍ austurhluta Undirhlíða bar nú við augu úfið hraun og gígar. Ég ákvað að skoða það betur og staulaðist niður hlíðina þeim megin. Mikill mosi er á svæðinu og sveið mig undan skemmdunum sem hvert skref mitt skildi eftir. Ýmsar myndir má sjá í hrauninu, en ekki er það nú létt yfirferðar. Mér þótti merkilegast að finna þetta fallega svæði sem sennilega kallast Bakhlíðar, svæði svo gjörólíkt því sem blasir við frá Kaldárseli.  Við gengum til baka leiðina á milli Undirhlíða og Helgafells, ein í heiminum.

Veðrið hékk þurrt það sem eftir lifði dags, en dagurinn var svo sannanlega ekki liðinn. Farið var niður í Ráðhús Reykjavíkur og hlustað á Stórsveitir landsins spila dásamlega tónlist. Básúnuleikari að loknu spiliUnglingurinn spilaði þar afro blue og smoke gets in your eyes á sína básúnu. Ef undanskildar eru endurnærandi gönguferðir þá verð ég að viðurkenna að góð músík er gulli betri og leið mér óskaplega vel í öllu þessu nótnaflæði.

Dagurinn lifði enn og eftir snarpar samningaviðræður var bíllinn fylltur atlandsolíubensíni og brunað í eyðibýlaskoðun á Vatnsleysuströndina. Krúsað var um helstu eyðibýli á svæðinu s.s. Flekkuvík  og Flekkuvík II, Sjónarhól, Ásláksstaði og Móakot. FlekkuvíkFlekkuvíkurbæirEitt býlið var brunnið yfir móðuna miklu, þ.e. Grænaborg. Við staðfestingu á þeirri heimild var farið í dýrindiskaffi á Minna-Knarrarnes.

Á leiðinni til baka var kíkt með öðru auganu á hrörleg hús í Hvassahrauninu en vígalegar girðingar og of mörg vitni drógu máttinn úr eyðibýlakönnuðum.

Get með góðri samvisku sofið út á morgun!

Góðar stundir.

Hérastubbur

Veðrið: 13-18 metrar/sek, 2-3 gráður (vedur.is)

*Heimildir um Undirhlíðar: Ratleikjakort Hafnarfjarðarbæjar 2006.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband