Stóra-Reykjafell (540 m.)

Sumardagurinn fyrsti 2007 reis bjartur og fagur. Sem alþjóð veit var nóttin köld og veit það á gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman.

Eftir tilraunir til helstu skyldumætinga s.s. eins og að mæta í skrúðgöngu (við Jón Hákon misstum reyndar af henni vegna algjörs slóðaskapar en unglingurinn lék með lúðrasveitinni)  og á skemmtun á Thorsplani var smalað í fjallgöngu.

Nú skyldi ekkert gefið eftir með Stóra-Reykjafellið, jafnvel þó þar rynni eldur og brennisteinn.  Sem stundum áður urðu einhver afföll en synirnir og hundurinn létu til leiðast enda veður guðdómlegt. Já merkilegt nokk þá var sól og nánast logn á Hengilsvæðinu, svæði sem oftar en ekki má flokka undir veðravíti.

Við keyrðum austur að skíðaskála í Hveradölum og lögðum bílnum aðeins austan við skálann þar sem sjá má glytta í gamlan veg áleiðis upp fjallið. Gengum slóðina svo lengi sem hún entist en síðan tók við grjót og mosi upp á nokkra toppa. Smá snjór var í sköflum tvist og bast. Útsýni af Stóra-Reykjafellinu er mikið og fagurt í allar áttir. Á Stóra-ReykjafelliMeir að segja virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar eyðilagði það ekki, enda Bjarni minn stórtækur í þeim aðgerðumWhistling.

Gengum austur fjallshrygginn. Sáum þar skemmtilega tröllsmynd í klettabelti og fundum þar húsarústir. Umhverfis þær var hlaðinn grjótgarður, kannski 30x30m. Óljóst hver hefur búið þar upp á hjallanum, en ólýginn jarðfræðingur heldur því fram að þar hafi danskurinn átt heima fyrir meir en hálfri öld. Leiðrétting 22.apríl: betri heimildir kveða á um að í þessu húsi hafi aðrir búið en fyrrnefndur dani.

Ég er ekki vel að mér í nafngiftum lauta og dalverpa á þessu svæði, en eftir kortagrúsk á pappír og á netinu held ég að rústirnar standi efst í svokallaðri Flengingarbrekku. Skammt þar frá fundum við fornan skíðastökkpall hlaðinn úr grjóti! Skíðastökkpallur í HveradölumÞað voru miklar pælingar hvaða tilgangi þessar hleðslur hefðu gegnt en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að þar hafi átt að gera stökkpall. Virkar eins og því verki hafi aldrei verið lokið, en heimildir sem ég hef verið að skoða segja frá skíðastökkpalli á svæðinu hvort sem það var þessi eða einhver annar. Sumardagurinn fyrsti í HveradölumNiðri á jafnsléttu var sólbaðsveður, drengirnir og hundurinn dunduðu sér við að fella snjóloft á lækjarsprænum meðan ég naut andlegrar íhugunar. 

Þreytt og sæl enduðum við i í gómsætri kvöldmáltíð hjá Ingu og Degi þar sem belgurinn var troðinn út af jökuldælsku lambakjöti.

Á leiðinni heim úr borg óttans var kíkt á sögufrægar brunarústir í miðborg Reykjavíkur og sögufrægt strandskip við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.

Með sumarkveðju

Hjerastubbur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband