Grænadyngja (402 m.)

Skólaskákmeistari Hafnarfjarðar yngri flokka 2007Skin og skúrir hafa einkennt vikuna.

Jón Hákon byrjaði á að toppa tilveruna með fullu húsi stiga á skólaskákmóti Hafnarfjarðar síðasta þriðjudag og landaði þar með bikar og fékk titilinn Hafnarfjarðarmeistari í skólaskák yngri flokka http://haukar.is/skak/index.php?frettid=1050. Brosti með öllu andlitinu, drengurinn sá. Stóri bróðir stoltur, hann tók líka á á þessu móti.

Á fimmtudagsmorguninn  lést Jóhanna móðursystir mín 82 ára að aldri. Lengst af ævinni átti hún heima á Húsavík ásamt honum Helga sínum. Það var alltaf ákaflega gott að sækja þau heim í Grafarbakka og sumarið okkar Bjarna á Húsavík vorum við þar eins og gráir kettir. Ég á eftir að sakna hennar mikið. Það var aldrei logn í kringum hana og ef ég var farin að fyllast firringu hversdagsins var nóg að heyra í henni eða heimsækja til að afruglast. Hún var ekki vön að skafa utan af skoðunum sínum, mikill mannvinur og réttlætismanneskja. Jóhanna og strákarnir sumarið 2005Kæra frænka, takk fyrir mig. Og ég sem ætlaði að koma til þín í jarðtengingu í sumar!

Veikindi Hadda setja mark sitt á hann og  tekur það mig sárt. Vegna alls þessa er ég búin að vera meyr í skapi og keyrði um þverbak í dag. Ég varð skyndilega viðþolslaus og varð að losa um spennu, enda tárin skammt undan. Hringdi neyðarhringingu í hann Bjarna minn og bað um lausn frá óheyrilega langri bið á Ármannsmóti í sundi sem fram fer í Laugardalslauginni þessa helgi. Jón Hákon keppir þar og sýndi hann þrautseigju í biðstöðunni, gemsar eru til margs nýtir. Bið eftir rástíma

Ég yfirgaf þá feðga og samdi við Sigurð Ými um að fylgja okkur Sámi í göngu á Grænudyngju. Ég var búin að miða hana út í gær og þrátt fyrir hífandi rok ákvað ég í óþökk við bóndann að halda mínu striki. Hann reiknaði allt eins með því að ég slasaði mig.

Sól skein glatt og vindar blésu þegar við keyrðum suðurúr. Rykmökkur lá yfir henni Reykjavík.

Grænadyngja er á Reykjanesskaganum eins og svo margt annað sem ég er búin að kanna í vetur. Liggur við hlið Trölladyngju, austan Keilis.  Þessar tvær dyngjur eru gjörálíkar á að sjá, og bera nöfn sín með rentu. Við lögðum á fjallið vestan megin, við veginn út að jarðhitasvæðinu. Hlýtt var í veðri en verulega sviptivindasamt. Mér fannst veðrið vera svolítið lýsandi fyrir tilfinningar mínar og ekkert við því að gera en að setja undir sig hausinn og takast á við Kára. Gangan upp mosann gekk vel en á þeim stöðum sem vindurinn náði sér virkilega á strik, mátti ég hafa mig alla við að halda hinum fjölmörgu kílóum á jörðinni. Á Grænudyngju

Upp á toppinn náðum við, bara rétt til að kíkja austur yfir öxlina því ekki var stætt þar uppi. Fukum niður hlíðina á mettíma, heilmiklu afslappaðri en fyrir uppgöngu.

Góðar stundir

Hjerastubbur

Veður: Skv. veðurkortum slógu kviðurnar á svæðinu í 20-25 metra/sek. af suðaustri. 10 stiga hiti.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband