1.maí var dagur verkalýðsins á þeim árum sem ég var að alast upp á Héraði, í ylnum af byltingarbáli Litlu Moskvu (Neskaupsstað). Síðan þá hefur fjarað undan verkalýðsbaráttu enda held ég að hér á landi sé gríðarlega öflug neðanjarðarstarfsemi sem hefur þann starfa að grafa undan bættum kjörum verkafólks til að hægt sé að byggja og bæta hjá þeim sem ríkari eru, fyrir sem minnstan pening. Allavega eru þeir hallærislegir sem mæla láglaunafólki of mikla bót og önnur lög þjóðfélagsins með frasa á takteinum s.s. að þeim sé nær að spara bara pínkulítið við sig, úr því að löngunin hneigist til þaks yfir höfuðið. Svo er annað vopn sem áróðursmeistarar gegn verkalýðsbaráttu hafa aflað sér en það er stórtækur innflutningur á erlendu farandverkafólki. Skyldu ræðurnar á 1. maí hafa verið túlkaðar yfir á mál útlendinganna til að þeir vissu hvaða rétt þeir ættu hér? Ég spyr, því ekki hef ég svarið, fullfirrt að mati einhverra og fór bara í fjallgöngu á Esjuna í stað þess að mæta í kröfugöngu. Þusaði þó um verkalýðs(ó)mál hálfa leiðina upp hvort sem það hefur nú hjálpað einhverjum að fá fyrir salti í grautinn.
Inga Hanna átti heiðurinn að því að Esjan varð fyrir valinu og dagurinn var tekinn þokkalega snemma í ljósi þessarar sívinsælu veðurspá sem lofaði bara góðu fram að kröfugöngutímasetningu. Hlaðin nesti til viku var strikið tekið upp á við. Mjög, mjög fljótlega varð kraftmikið strikið að tipli, þrjú skref og anda svo, þrjú skref og anda...... Mín ekki í góðu formi til gangs uppí móti, þrátt fyrir áhugann og gleðina af því að vera í útivistinni. Gríðarlegur fjöldi fólks á öllum aldri var á fjallinu. Sumir ofboðslega stuttfættir æddu fram úr mér!
Ég gaf mig ekki enda geri ég þetta fyrir mig og mín áheit og áskil mér þann rétt að fara á þeim hraða sem eykur líkurnar á því að ég komist það sem ég ætla mér. Bjarni hefði komist tvo hringi á þeim tíma sem tók mig að fara einn en hann er svo kurteis að segja það bara svo aðrir heyri ekki..... Honum fannst alveg agalegt að ég skyldi bera bakpokann og hvatti ég hann bara til að halda sig ögn frá þannig að ekki mætti telja svo að við þekktumst.... hann tók ekki því boði.
Við urðum viðskilja við Háteigsgengið við skilti 3 enda hásinin á frúnni ekki til þess gerð að fara lengra, það þarf nefnilega að komast niður aftur stórslysalaust.
Við héldum upp réttu megin, þ.e. hinn eiginlega göngustíg sunnan við læk. Hin leiðin er mun brattari en trúi hver sem trúa skal að frekar tek ég á mig brattann en að klungrast þetta grjót sem einkennir göngustíginn áður en lagt er á fellið sjálft.
Móð og másandi náðum við Steini og héldum til baka vestan lækjar. 15 mínútum seinna var skollin þoka á Þverfellshornið og um tveim tímum seinna fauk hjólhýsi útaf á Kjalarnesinu! Merkilegt fyrir þær sakir að gönguferð okkar var í hinu huggulegasta veðri.
Svakalegar harðsperrur þjökuðu mig í þrjá daga eftir ferðina sem sýnir að ég hef reynt á mig í alvörunni.
Flokkur: Ferðalög | Sunnudagur, 6. maí 2007 (breytt kl. 22:29) | Facebook
Athugasemdir
Þarf bara aðeins að bæta við færsluna, frúin komst upp á stöð fjögur og niður aftur eftir smá kakó- og kaffihressingu. Og bætti um betur því að í gær, laugardag aðeins fjórum HARÐSPERRULAUSUM dögum síðar - segi og skrifa fjórum dögum hljóp hún þetta aftur og hljóp þá fjölskylduna af sér - hah.
Og er harðsperrulaus!!!!!!!!!!!!!
Inga Hanna (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 00:02
Bíddu, bíddu..... átti ekki að taka mig með?????
Rósa Jónsdóttir, 8.5.2007 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.