Helgafell Hafnfirðinga (340 m.)

Áfram er gengið – þó ég sé latari við að festa það niður á blað.

Föstudagurinn 10. maí var hreinræktaður dekurdagur/langþráður frídagur og sem slíkur nýttur til hins ýtrasta. Í hlýrri morgunsólinni var byrjað að haka við á listanum yfir það sem skyldi gert þann daginn – hélt einhver að ég ætlaði að slappa af????

Fyrst var Bjarni keyrður í morgunflug til Akureyrar en hann var á leið í viku útlegð í Kröflu. Að leita að meiri orku.

Að því loknu fór ég og kaus þar sem ég ætlaði mér ekki að vera í Firðinum á kosningadag. Morgunstund er góð því þá hefur ekki náðst að myndast röð á kjörstað. Atkvæðið mitt dugði til að hreyfa aðeins við steinrunnum tröllum sem of lengi hafa fengið að dingja sér í stjórnarráðinu, áðan kom langþráð tilkynning í fjölmiðlum um það.HelgafellWink

Þegar x-ið var komið á réttan stað var stormað af stað og í þetta sinn gengið á Helgafell Hafnfirðinga. Ekki í fyrsta sinn í áheitagöngu minni og örugglega ekki í það síðasta. Við Sámur vorum alein á öllu svæðinu og hef ég aldrei upplifað það áður, enda yfirleitt verið á ferð um helgar þegar fleiri nota sér fjallið til útivistar.

Helgafell er þægilegt uppgöngu nema kannski neðst í skriðunum. Svo þegar upp úr þeim er komið gengur maður á fínasta “malbiki” allaleið upp á topp. Á toppnum blasa við öll helstu fjöll suðvesturhornsins og gaman að staldra þar við og njóta í veðurblíðunni. Gestabókin er alltaf á sínum stað og skráð í hana. Ég hringdi austur og komst að því að Haddi var búinn að kjósa íhaldinu til sigurs á Austurlandi. Til hamingju með það Haddi minn.

RisessanEftir gönguna var haldið til höfuðborgarinnar með bílinn fullan af börnum en skvísan Arndís Embla kom með okkur að gera Risessunni skil. Við ókum og gengum um bæinn og skoðuðum ógnarverk risans föður hennar og enduðum svo uppi við Hallgrímskirkju til að fylgjast með þegar Risessan vaknaði af hádegisblundi sínum. Þessi sýning er mögnuð og ég verð að viðurkenna að ég fékk gæsahúð þegar hún reis upp og gekk af stað. Ótrúlegt listaverk, áhrifamikið og fallegt í góða veðrinu.  Hundurinn var hinsvegar ekki par hrifinn af  því að  mega ekki óáreittur nusa af henni og öllu fólkinu sem var á svæðinu.Fylgst með Risessunni

Listinn var hvergi nærri fullhakaður, og næst var ekið í loftinu inni í Hafnarfjörð til að sækja vin minn hann Tuma Thorberg af leikskólanum. Tók hann fagnandi á móti mér og tilkynnti leikskólakennurunum að ég ætti flottasta hund í heimi, ýmislegt sem hægt er að fá börnin til að segjaHalo. Hann fékk líka að passa Sám á meðan Jón Hákon spilaði á hornið sitt á tónleikum tónlistaskólans.Hornleikarinn

Morguninn eftir fyrir allar aldir var lagt í ferð á Snæfellsnes þar sem ég hafði ætlað mér að ganga á ein tvö fjöll. Óheyrileg leti greip mig hins vegar þegar á staðinn kom sem og kuldi því hvasst og kalt var í Hólminum. Í staðinn settist ég að í heita pottinum, með bókina Viltu vinna milljarð í hendi og fékkst ekki upp úr honum fyrr en komið var að því að halda heim á sunnudagskvöld. Fjöllin bíða betri tíma. Gluggaði aðeins á kosningaúrslit í Finnlandi og á Íslandi. Sofnaði glöð en fékk gallbragð í munninn þegar ég sá viðsnúninginn sem átt hafði sér stað meðan ég svaf.Crying

HraunsfjörðurÞó letin hefði yfirhöndina hvað varðaði fjallgöngur tók Könnuðurinn ekki annað í mál en að skoða eyðibýli. Við brugðum okkur því í smá eyðibýlaskoðanir á nesinu, þ.á.m. var Hraunfjörður heimsóttur. Takið eftir steypta baðinu í fjárhúsunum, fremst á myndinni. Samskonar baðker mátti lengi finna á fjárbúum en ofan í illalyktandi kaldan baðlög var fé dýft til að sporna við fjárkláða. Þess má geta að lyktin af Laphroig viskíinu sem honum Bjarna mínum þykir svo ósköp gott er ekki ósvipuðSick.

Magnað umhverfi í Hraunsfirðinum, hraun, há fjöll og vatn, sjá myndir hjá ljósmyndara fjölskyldunnar-tenging hérna hægra megin. 

Kveð að sinni

Hjerastubbur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband