Ég þjáist af valkvíða.
Þegar ég ætla að fara í mína vikulegu fjallgöngu blasa við mér hólar og hæðir allt í kring og ég veit ekki hvað ég á að velja. Ég geri mitt besta til að fækka óklifnum fjöllum úr fjallabókinni og er lag til þess þegar vorar og sumrar. Ég held mínum gamla takti að fylgjast grant með veðurspám og eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum læt ég þær ráða miklu um tíma og stað. Gærdagurinn var með mun betri veðurspá en dagurinn í dag (mun heppilegra að skoða eyðiþorpið á Keflavíkurflugvelli í roki og rigningu). Ég fann mig knúna til að finna verðugt fjall til uppgöngu. Þá kom valkvíðinn klárlega í ljós. Meðan ég velti fyrir mér möguleikum fórum við og skoðuðum nýjasta vegahýsi Hrísrimabúa. Hið glæsilegasta hjólhýsi og óska ég þeim til hamingju með það. Um leið er ljóst að þau munu litla samleið eiga með okkur um vegi hálendisins og meir að segja held ég að úti séu þeir dagar sem tjaldað yrði með þeim á fremsthústúninu í Klausturseli. Það er hins vegar allt önnur saga.
Þegar ljóst var að ekki fengist neinn með mér í gönguna nema hundurinn, ákvað ég að fara upp í Þrengsli og ganga á Lambafellið. Umfjöllun um það er í Bókinni. Lambafellið er eitt þeirra íslensku fjalla sem óðum minnka í þeim tilgangi að efla lífsgæði þjóðarinnar, þvílíkt er malarnámið úr fjallinu. Ég mæli með því að þeir sem ætla sér yfirleitt að ganga þarna upp að drífa sig, hóllinn minnkar daglega!
Í Bókinni tala höfundar um að ferðin upp sé hæg. Þeir eru hinar mestu fjallageitur og því furða að láta slíkt út úr sér, hélt ég. Hins vegar þegar á reyndi skildi ég þá mjög vel. Brattinn upp mosavaxna hlíðina var þvílíkur að ég stóð reglulega á öndinni.
Í fjallgöngum mínum eru fáar hugsanir sem sækja á mig fyrr en upp á topp er komið. Þær hugsanir sem komast að snúa eingöngu að mæðinni, þreytunni, hröðum hjartslætti og verkjum í fótum. Langleiðina upp skil ég ekkert í mér að vera að standa í þessari vitleysu, væri mun gæfulegra að bæla sófann heima hjá sér og horfa á heiladrepandi sápuóperur nei reyndar hafa hugsanir mínar ekki lagst alveg svona lágt!
Sólin bakaði mig á leiðinni upp og gerði okkur Sám enn þyrstari en ella og svo þegar upp á brúnina náði tók við fj . rokið af norðri. Mér finnst ég alltaf vera í roki í þessum ferðum, reyndar veit ég að það er stórlega ýkt hjá mér, en samt sennilega rok í hugarfarinu. Við stöldruðum við undir stórum steini og fengum okkur að drekka. Þvínæst sögðum við Kára stríð á hendur og héldum norður hrygginn og upp á topp.
Um leið og upp brekkurnar er komið er eins og ég hafi aldrei þurft að hafa fyrir neinu og þá komast aðrar hugsanir að. Eins og hugsanir um pabba og veikindi hans. Hann var búinn að vera lungnaveikur á annan áratug og hafði oft lent í andnauð í veikindum sínum. Ég man alltaf óttann sem greip hann við þær aðstæður og engin furða. Þessi tilfinning er hræðileg. Þegar lyfin dugðu ekki til að lina þetta ástand var hringt á lækni og á meðan beðið var var eingöngu hægt að halda utan um hann. Daginn sem hann lést vorum við í heimsókn hjá honum á hjartadeildinni. Hann lá þar inni til rannsókna og til að láta stilla af lyfin en hann var kominn með hjartabilunareinkenni út frá lungnasjúkdómnum. Þegar við mamma vorum að fara frá honum í lok heimsóknatíma veiktist hann skyndilega alvarlega og missti fljótlega meðvitund. Það sem var öðruvísi í þetta skiptið var að hann var ekki lengur hræddur heldur vildi bara návistina. Þar sem ég hélt utan um hann gat ég ekki fengið af mér þá eigingirni að biðja hann um að hætta við þessa för sína því ég vissi að hann var búinn að líða nóg. Það var ró yfir honum þegar hann kvaddi saddur lífdaga.
Og Lambafellið, hið glæsilegasta útsýni af toppnum!
Hjerastubburinn
Athugasemdir
Frábær göngukrafturinn í þér kona! Go girl!! Það er fátt betra eða skemmtilegra en að sigrast á mæðinni og verkjunum og komast á toppinn! Svo finnur maður þolið aukast við hverja raun
Svandís Rós, 20.5.2007 kl. 23:04
Bestu þakkir fyrir hvatningarorðin!
Rósa Jónsdóttir, 23.5.2007 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.