Landið og miðin

Fjöll hafa verið gengin í sumar og er helsta afrekið í þeim efnum Þríhyrningsfjall sem staðsett er á norðaustur hluta landsins.  Á því fjalli hef ég komist hvað næst guðiHalo, knúin eigin vélarafli (tel flugferðir ekki með).  Herðubreið brosti í vestri, sjá mátti speglunina af fjölþjóðamannvirkinu við Kárahnjúka í suðri og skúr á leiðinni yfir Jökuldalsheiðina úr norðri.  Ég og hundurinn ein í heiminum fyrir utan að sjá mátti í fjarlægð einn og einn túrhest á hraðferð um öræfin.

Í þessari hringferð um landið sem endaði fyrir austan eins og æfinlega (þrátt fyrir plön um vestfjarðaferð), voru m.a. stórfjölskyldugönguferðir á Stóra-Dímon og upp að Systravatni við Klaustur. Staðir sem yfirleitt er keyrt hratt framhjá en eru stórmerkilegir þegar betur er að gáð. Útsýnið af Stóra-Dímon er mikið yfir héruð og þar hefur verið gott að fylgjast með mannaferðum á dögum Gunnars á Hlíðarenda. Í þeirri gönguferð komst ég loks að því hversvegna guð gaf okkur tærnar. Ég ákvað að ganga berfætt upp, enda mjúkt grasið undir. Brattinn er hins vegar allmikinn og til þess að renna ekki á rassinum niður brá ég á það neyðarráð að beita fyrir mig apalátum og gróf tærnar niður í svörðinn til að hægja á ferðinni. Merkilegt nokk, þetta virkar.

Í hringferðinni voru fjölmörg eyðibýli skoðuð, vítt og breitt um landið. Seyðisfjörður toppaði eyðibýlaáhugann en þá fékk drengurinn leiðsögn aldraðs heimamanns. Emil Emilsson pabbi Dags mágs sýndi þeim uppeldisslóðir sínar út með Seyðisfirði og sagði þeim fjölmargar sögur af lífinu sem lýsti upp eyðibýli og rústir dagsins í dag. Drengurinn var með stjörnur í augunum eftir þá ferð.Joyful

Norðausturströndin var þrædd, enda orðin fjölmörg ár síðan ég hef komið þar. Við komumst meir að segja fyrir Melrakkasléttuna í bongublíðu og fórum á nyrsta stað fastalandsins, á Hraunhafnartanga. Komumst að því að hann nær ekki heimsskautsbaugnum, hnitin staðfestu það. Enduðum það kvöld í Ásbyrgi. Þar hefur ýmislegt breyst á þeim árum sem hafa liðið síðan ég var þar síðast. Þá var enn hægt að tjalda inni í botni og tjaldstæðið yst var þá frekar óspennandi. En skógurinn hefur vaxið mikið, og tjaldstæðið er yndislegt. Verð að koma fljótlega aftur og eyða viku á svæðinu í gönguferðir.

Hjerastubbur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband