Selvogsgatan er búin að vera á ferðaáætlun minni í allmörg ár. Fyrir tveim árum síðan kláraði ég að ganga frá Hafnarfirði upp að Bláfjallaafleggjara og svo leið og beið. Í vor fékk ég tvö tækifæri til að klára dæmið en hvorugt gat ég nýtt mér. GPS tækið mitt fékk reyndar að fljóta með í aðra þá ferð og var ég því siglingafræðilega klár í heiðina, vantaði bara sparkið. Sparkið reið af í dag.
Fjölskyldan notaði þennan fína sunnudag í verslunarmannahelgi til stórframkvæmda. Mér hefur nefnilega alltaf þótt Selvogsgatan mikið mál og helst þyrfti kunnugan með í för. Leiðsögumann fékk ég reyndar ekki, en við vorum vopnuð góðu korti af svæðinu og svo með þessa dýrmætu gps punkta ásamt afspyrnubjörtu veðri og nokkuð stífri norðanátt, þannig að ekkert gat komið í veg í góðan túr. Reiknað var með ferð upp á góða fimm tíma.
Strax á fyrstu mínútunum kom í ljós að sennilega yrðum við að endurreikna tímalengd göngunnar þar sem sá 10 ára setti í 5 gír og æddi af stað upp Grindarskörðin. Hann hélt mjög góðum meðalhraða og var upptekinn af því að ná þessu á fjórum tímum. Pældi mikið í heildarlengd leiðarinnar sem var 14.1 km og meðalhraða sem sjá mátti á gps-inu. Og við náðum þessu á fjórum tímum, og var inni í því 30 mínútna hvíld! Flott ferð og ég er svo stolt af þeim bræðrum. Á leiðinni skoðuðum við kennileiti og ræddum líf fólksins sem reisti vörðurnar og gróf niður í steininn för sem vel eru merkjanleg enn í dag. Hvernig það hafi verið að þvælast þessa leið, kannski í kulda, snjó og bleytu, í búnaði fyrri tíma sem ekki var mjög merkilegur miðað við öll flottheitin í dag. Ræddum í hvaða erindagjörðum fólkið hefur verið og hvort allir hafi komist á leiðarenda.
Seinni helmingur leiðarinnar er nokkuð einhæfur, endalausir hjallar niður í Selvoginn. Ég mæli eindregið með að gengið sé frá Grindarskörðum og suðurúr, frekar en úr Selvogi og norður. Við þurftum jú að þrælast upp skarðið en svo var leiðin stöðugt niður á við og útsýni vítt til allra átta. Flott að sjá vörðurnar sem stóðu stoltar í beinni röð eftir breiðunum. Leiðin er vel vörðuð niður á neðri hjalla við Selvog en svo sleppir þeim nánast. Ég mælist til þess að leiðin frá Selvogi verði merkt almennilega, fátt hægt að sjá þeim megin að þar sé fornfræg gönguleið.
Þessi gönguferð var sérstaklega tileinkuð látnum fjölskyldumeðlimum þ.e. pabba og mömmu, og Hadda og Sigga bræðrum mínum. Fyrir tveim árum gengum við svona minningargöngu þegar farið var yfir Klausturselsheiði með staf Jóns gamla Jónssonar í för á dánardegi hans 31. júlí. Haddi gekk með stafinn. Ég ætla að skrifa seinna um þá frábæru ferð en býð nú góða nótt.
Hjerastubbur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.