Rafmagnsleysi nútímamannsins - DRAMA

Skrifað 28.okt.

Fjölskyldan dvelur nú í vellystingum í sumarhúsi ÍSOR í Reykjaskógi og kom hingað upp eftir í miklu vatnsveðri á miðvikudagskvöldið. Fimmtudagurinn var enn votari svo hér mátti sjá stórfljót þar sem áður var hefðbundinn holóttur sumarhúsavegur.

Linnti nóaflóðinu undir kvöld og eftir það hefur bara verið blíða. Það sem komið hefur úr lofti er í fastara formi og er jörð fölhvít. Tré eru dúðuð hrími og frost í lofti – bara eins og jólin séu komin.

Ástæðan fyrir þessu bloggi er þó ekki veðurlýsing heldur gamalkunn upplifun sem fallin var í gleymsku hjá mér.

Hér fylltist hús af góðum gestum seinnipart laugardags og samfara pottferðum var hafinn undirbúningur að mikilli átveislu. Kjúklingar voru lagðir á grill og fleira mallað í ofni og á hellu. Kvöldfréttum lauk á rás 1 - fátt fréttnæmt.

Skyndilega blikkuðu ljósin og dofnuðu mjög. Gestir vöknuðu til lífsins og fannst þetta spennandi enda sínu myrkara en áður. Hávaði mikill heyrðist í ísskápnum og var gripið til þess ráðs að slá rafmagnið alveg út og inn aftur. Lætin þögnuðu en enn var lítil spenna á. Fólk gerði að gamni sínu og fannst þetta krydda tilveruna – svipað var ástatt í öðrum bústöðum. Ekki liðu margar mínútur þar til allt rafmagn fór af hverfinu. Nú var öllum kertum safnað saman og kveikt á þeim og dreift sem hægt var. Upp komu ýmsar pælingar hvernig maturinn skyldi eldaður. Því sem var í ofni var hent á grillið og ylnum haldið á því sem klárast hafði á eldavél. Annað skyldi eldað þegar rafmagnið kæmi - mjög fljótlega..... Rifjaðar voru upp sögur af rafmagnsleysi fyrri alda s.s. eins og af konunni sem ákvað bara að nýta tímann til að strauja þegar rafmagnið fór!

Eftir kortersgleði án ljóss og „lífs“ fór aðeins að þyngja tóninn. Ætlar þetta nú ekki að fara að koma aftur? Hvernig eigum við að elda þetta og hitt og ekkert el á eldavélinni? Nýr matseðill var útbúinn í snarhasti og næsta hálftímann var tínt á borð það sem fólk taldi ætt og eldað. Birta var mjög takmörkuð og komust matargestir að því að matur án sjónskynjunar bragðaðist mun betur. Þegar eitt skynfærið nýttist ekki mögnuðust önnur upp. Tónninn var þó orðinn mjög þungur og vildu krakkarnir að þessu linnti og ekki seinna en strax. Byrjað var að segja draugasögur til að hafa ofan af fyrir þeim  – sem að sjálfsögðu endaði með heiftarlegri myrkfælni! Varúlfarnir voru taldir sérstaklega hættulegir enda fullt tungl.....

Minna var talað og rifjuð upp sjónvarpsdagskráin sem restin af þjóðinni naut. Reynt að þvo upp í myrkrinu. Litið út um glugga og mældar mínútur sem gróðurhús Suðurlands voru án rafmagns. Rætt hvort hiti héldist þar og hve langur tími mætti líða án þess að skemmdir kæmu fram. Hér innandyra féll hitastigið nokkuð hratt samfara rýrari samræðum. Tveir tímar liðnir og myrkrið aldrei svartara. Sprittkertin að brenna út og skriðið undir sæng til að halda hita. Algjör doði yfir mannskapnum. Slökkt á vasaljósum til að spara batteríin. Margir litlir kroppar komnir undir sömu sæng og ótti yfir því sem lægi fyrir utan glugga sem komnir voru með broskalla í móðuna á glerinu. Fullt tungl glotti við tönn. Ætlaði þetta engan endi að taka?

Skyndilega fannst höfuðrofinn á Suðurlandinu og skjannabjart ljósið brann í augun. Gríðarleg gleðibylgja hristi litla sumarhúsið og allur doði hvarf eins og dögg fyrir sólu. Kveikt var á öllum græjum og lágar raddir hækkuðu um 80 db og allt var eins og áður!

Hjerastubbur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband