Ferðasaga vikunnar!
Það var með vægan beig í hjarta sem lagt var af stað úr Hafnarfirði upp úr kvöldmat þann 26. maí. Ástæðu óttans mátti rekja til rafmagnaðra og ógnvekjandi skýjabakka sem æddu yfir Hellisheiði og hræddu líftóruna úr saklausum vegfarendum með skyndilegri snjókomu, þrumum og eldingum og það um miðjan dag í lok maí á hinu kalda Íslandi.
Í stað þess að hætta bara við fyrirhugaða gönguferð var hálfu glasi af róandi skellt í sig, eldingavararnir virkjaðir og vetrardekkin pússuð.
Þessar austar dró kom í ljós að óttinn var ástæðulaus og var maður þá þakklátur að hafa ekki í raun gert fyrrnefndar ráðstafanir!
Bílnum var lagt við bílstæðið skammt frá neyðarskýlinu á hafnfirska Bláfjallaafleggaranum. Göngustafir teknir fram, nestispoka skellt á bakið og arkað af stað. Fyrr um daginn var búið að bóka 6 manns í ferðina en þegar á reyndi var það sama tríóið sem gekk þessa ferð og áður farna ferð á Esjuna, Þóra, Bjarni og Rósa.
Leiðin upp Grindarskörðin hækkar hægt og bítandi, fínasta undirlag á köflum, slétt helluhraun. Veðrið gerði ekkert annað en að batna í ferðinni og þegar leið á var komið rjómalogn og hár bærðist ekki á höfði í sólskininu. Faxaflóinn breiddi út faðminn í vestur og norðurátt.
Rassvöðvarnir og félagar hans fengu aðeins að vinna vinnuna sína þegar ofar dró og síðasta spölinn upp gengum við í snjó. Þegar upp var komið blöstu Bláfjöllin við og sjá mátti niður að strönd suðurlandsins.
Ákveðið var að klífa formlega eitt "fjall" og var 500 metrum bætt við til að brölta upp á Miðbolla(tvíbollar). Mosavaxið hrúgald sem gaf ögn betra útsýni. Við virtum fyrir okkur restina af Selvogsgötunni og held ég svei mér þá að hún verði aftur gengin fyrr en seinna.
Á toppnum var dregið fram tyrkneskt te og sykurleðjan sötruð. Bjarni bar þetta heim úr síðustu ferð frá Tyrklandi og reyndist teið mjög hressandi í fjallaloftinu. Hann ætlar að koma með meira úr næstu ferð.
Sámur var glaður sem æfinlega þegar hann fær að hreyfa sig nægilega og sat hann eins og prófastur upp á fjallinu og nusaði eftir löngu liðnum ferðalöngum. Bjarni vildi halda því fram að hundurinn yrði var við drauga slík var spennan í honum. Ég held hins vegar að hann hafi fyrr en við, séð múkkann sem svo steyptist yfir okkur nokkrum mínútum síðar og stríddi hundinum í drep!
Nú var bara eftir að pakka saman og þakka móður jörð fyrir að hvíla okkar lúnu bein.
Á bakaleiðinni renndi Þóra sér fótskriðu niður skaflinn. Yndisleg ferð í alla staði og veðrið fullkomið!
Á heimleiðinni ákváðum við að kíkja aðeins á falinn útivistarstað í skógarlundi í Undirhlíðum Helgafells. Hægt er að ganga þangað frá Kaldárseli sem og að keyra línuveginn. Vegurinn er reyndar mjög grófur. Staðurinn er flottur, nokkur borð og bekkir og nóg leiksvæði í skóginum. Þarna væri hægt að grilla einhvern tímann einhvern eftirmiðdaginn og hafa það huggulegt. Kæmi samt aldrei í staðinn fyrir flotta grill veislu staði okkar að Knarrarnesi /Árbliki.
Sumarkveðja
Hjerastubbur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.