26. júlí 2009
Ýmislegt er gert sér til dundurs þegar Austurlandið er heimsótt á ári hverju. Á seinni árum hefur færst í vöxt að ganga um svæðið sér til gleði og gamans og í ár var stefnan tekin á þá leið sem afi minn og amma þurftu að ganga til messu áður en brú á Jökulsá var byggð í minni Hrafnkelsdals á móts við bæinn Brú. Þá var riðið á hestum /gengið út Hrafnkelsdalinn og farið yfir Hrafnkelu úti við Teig, við höfða nokkurn sem ég man ekki nafnið á. Svo var Jöklu fylgt út dalinn, farið yfir Hölkná, út í Rana og að kláf sem liggur yfir Jökulsána á móts við kirkjuna á Eiríksstöðum. Rani (Eyvindarárrani) heitir mikið landsvæði ofarlega í Jökuldal austan Jökulsár, á milli Hölknár og Eyvindarár og er í eigu Skriðuklausturs í Fljótsdal. Að morgni sunnudagsins 26. júlí var hringt í Danna frænda og bónda á Vaðbrekku og fengin nákvæm leiðarlýsing. Við Bjarni pökkuðum nesti í bakpoka og brúsa fyrir lækjarvatnið og ákvaðum að við værum svo klár að stikla steina að við gætum skilið vaðskó eftir. Alli bóndi í Klausturseli og frú Ólavía skutluðu okkur upp í Hrafnkelsdal og gerðu enn betur að keyra okkur yfir Hrafnkelu!
Þar byrjaði gangan, úti í Teig og Hnefillinn blasti við norðan ár. Veðrið var milt, 11-12 stiga hiti og hækkaði þegar sólin náði í gegnum skýin. Smá gola strauk sólbrúna kinn. Hundurinn Sámur hoppaði um af gleði yfir frelsinu og öllum rollunum sem hann gat snuddast í kringum við litla gleði þeirra síðarnefndu.Ekki vorum við með messugötuna á hreinu þarna í Teignum en ákvaðum bara að taka strikið á neðsta fossinn í Hölknánni sem okkur var bent á að væri kennileiti til að fara yfir þá á.
Gengið var fyrir ofan Arnarbæli og við Hölkná var gatan mjög skýr þar sem hún lá niður að ánni. Hölknáin var hinsvegar önnur og aðeins meiri en hún sýndist í fjarska þegar vegurinn var keyrður norðan Jökulsár. Því var ekki um neitt annað að ræða en að taka á honum stóra sínum og vaða. Frúin óð í sokkum og mælir með þeirri aðferð. Ferðin yfir gekk vel þó vaða þyrfti hnédjúpt vatnið, þurfti þó að létta hundinum aðeins sundið og var honum kippt yfir mestu flúðina áður en honum skolaði niður í Jöklu..... J Áfram var arkað eftir þurrkun fóta og á móts við innri túnin á Eiríksstöðum gengum við fram á fyrstu tóftirnar. Þær tilheyrðu bænum Þorskagerði.
Þorskagerði var einn þriggja bæja í Rana. Hinir eru Eiríkshús og Brattagerði. Síðasti ábúandi flutti frá Þorskagerði vegna öskufallsins 1875 (Búkolla Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 1974).
Skammt frá kláfnum á Eiríksstöðum gengum við fram á aðrar tóftir þar sem bærinn Eiríkshús stóðu. Lítið er fjallað um búskap að Eiríkshúsum í Búkollu nema á árunum 1801-1810. Báðir þessir bæir stóðu á grasbölum skammt frá Jökulsánni, tvö, þrjú bæjarhús á hvorum stað. Við kláfinn var sest niður til að borða nesti og ímynda sér aðstæður fyrripart síðustu aldar þegar farið var yfir á kláfnum jafnvel með börn og gamalmenni og undir beljandi illúðleg jökulsáin. Í dag eru aðstæður gjörólíkar enda Jökulsá á Dal orðin að bergvatnsá en jökulvatninu er beint ofan í Fljótsdal í gegnum virkjunarframkvæmdir við Kárahjúka. Víða má vaða Jöklu núna og var það haft í flimtingum í ferðinni að ef við gæfumst upp og nenntum ekki að ganga alla leið út í Klaustursel væri auðvelt að koma sér norður yfir á og láta sækja sig á bíl!
Frá kláf og út í Hótel Brattagerði er undirlendi lítið, umhverfið einsleitt og fremur leiðinlegt göngufæri. Við reyndum að fylgja sem mest fjárgötum sem voru á bökkum árinnar þar sem þýft var og þreytandi að ganga í mjúkum fjalldrapanum. Fjárgöturnar voru ansi mjóar víða og sumsstaðar alldjúpar svo ómögulegt var að nýta sé þær alltaf. Það er furðulegt að jafn stórar skepnur og kindur skuli mynda svona örmjóar götur, maður gekk eins og ballerína eftir þessu og þar að auki var leiðin ómalbikuð.... J Sauðá er á leiðinni, lítill lækur að sumri til en þó vatn í henni. Þó að ég bölvi göngufærinu þá segir Búkolla frá því að Raninn sé mjög grösugur og kjarngott beitiland. Sérstaklega í kringum Brattagerði. Sagt er að horgemlingur borinn á örmum upp í Húsahvamm (upp með Eyvindará) á vordag yrði mannfrár eftir viku. Síðustu ábúendur á Brattagerði fluttu þaðan 1878. Við Brattagerði fór að bera á fallegum bergmyndunum í gili Jökulsár, mikil stuðlaberg er að sjá undir bökkum Grundarjarðarinnar. Alls kyns rósir, sveigjur og beygjur í stuðlunum. Ótrúlega flott sem mjög fáir sjá því að þetta liggur norðan ár. Hótel Brattagerði er gangnakofi Fljótsdælinga sem á árum áður var notaður í leitum. Nú skilst mér að menn séu hættir að gista, séu keyrðir í Fjallaskarð, féð rekið niður í dal og ekið til síns heima. Kofinn er í þokkalegu ástandi og fullt af dýnum hanga þar samanrúllaðar í loftunum svo mýsnar geti ekki nýtt sér þær. Hálftómur vodka peli stóð á borði, sennilega verið það timbraður leitarmaðurinn sem skildi hann eftir að hann hafi ekki haft lyst á meiri brjóstbirtu.
Leiðin frá Brattagerði og út í Klaustursel er auðgengin, tún og frá göngubrú á Eyvindará tekur við vegarslóði.
Við brúna var Bjarni að verða ganglaus vegna eymsla í hné og þegar komið var á innstu tún Klausturselsbænda voru lúin bein og löskuð hvíld á hvítum heyrúllum. Síðustu fjórir kílómetrar voru gengnir mjög hægt en allt hefur sinn enda og náðum við Klausturseli eftir rúma fimm tíma og höfðum þá lagt að baki 18.2 km. Yndisleg ganga og gaman að hafa farið þessa leið.
Hjerastubbur
Flokkur: Ferðalög | Miðvikudagur, 5. ágúst 2009 (breytt kl. 21:48) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.