24. júlí 2009
Í einstöku kuldakasti seinnipartinn í júli var farið í göngutúr út í Selsker í Skálmarfirði á Barðarströnd. Ástæða þess að Selsker var valið sem áfangastaður fremur en eitthvert annað sker er sú að ættfaðir Richtera á Íslandi, Samúel Richter, beykir, bjó þar ásamt fyrri konu sinni og fjórum sonum fyrir margt löngu eða fyrir tæpum 200 árum síðan (1816).Ekki var langt að keyra frá næturstað okkar í Firði í Skálmarnesmúla og austur að Illugastöðum innst í Skálmarfirði þar sem gangan hófst. Frúin var bjartsýn og áætlaði göngu upp á 2-3 tíma enda virtist góður vegur liggja langleiðina úteftir. Þeir sem fóru þessa langþráðu og margplönuðu göngu voru Bjarni Richter og Rósa Jónsdóttir ásamt sonum þeirra Sigurði Ými (16 ára) og Jóni Hákoni (12 ára) og eðalhundinum Sámi.
Mjög fljótlega urðu vonir um akstur á þessum fjarska fallega vegi að engu. Heimildarmaður í Firði sagði okkur að lokinni göngu að þessi vegur hefði verið lagður í lok sjöunda áratugarins til að auðvelda leitir en strax fyrsta haustið hafi fallið stór skriða sem aldrei var hreinsuð af veginum og því var vegurinn aldrei til neins gagns nema auðvelda göngumönnum ferðina. Gangan hófst eftir að allir höfðu klætt sig í vetrarklæðnað enda kalt og gjóla. Vegurinn var mjög vel gróin og farin að nálgast mjög uppruna sinn, bleyta og dýjamosi, kjarr og jafnvel runnar allt að meter að hæð á veginum miðjum. Vegurinn liggur að miklum hluta undir háum björgum og höfðu margar skriður bæst við frá sjöunda áratugnum.
Þar var dálítið klungur en ferðin gekk að öðruleiti vel út að Selskersseli (ca 4 km) þar sem slóðin endaði. Nestispása var tekin í húsatóftunum á Selskersseli og svæðið skoðað. Bæjarstæðið stendur á lágu nesi og sést vel móta fyrir tóftunum. Frá Selskerseli og að Selskeri eru tæpir 4 km í meira aflíðandi landslagi en frekar þungu færi. Slóð (fjárgata?) hefur legið á milli bæjanna og út að verslunarstaðnum Svínanesi yst í firðinum en sú slóð var víða að engu orðin vegna notkunarleysis sem og vegna vaxandi gróðurs á svæðinu en hlíðarnar voru viði vaxnar á milli fjalls og fjöru . Því var ekki um annað að ræða en að þræða stórgrýtta fjöruna meiri hluta þessarar leiðar.
Ekki urðum við vör við mikið dýralíf á leiðinni en haförn einn mikill með gríðarlegt vænghaf sveif þó yfir okkur enda forvitinn um þessar flökkukindur.
Að lokinni tveggja tíma göngu náðum við loks markmiðinu að stíga fæti á ættjörðina. Mikil gleði braust út enda ekki til sagnir af Richterum á þessum slóðum í heil 200 ár. Bæjarstæðið að Selskeri er fagurt og stendur hátt á nesi og rennur bæjarlækurinn úr bröttu gili innan við bæinn. Fyrir utan nesið liggja nokkur sker, selsker, þó ekki sæist selurinn þar í þessum brunakulda. Rústir fjölmargra húsa mátti sjá þarna á nesinu og var spýtnabrak í einu þeirra, gamlar pípulagnir og rúmgafl.
Selsker var í byggð fram á miðjan sjötta áratug síðustu aldar, en í kjölfar þess að húsfrúin og önnur heimasætan fórust á Breiðafirði í júní 1954 lagðist búskapur af. Einu ábúendur á svæðinu sem sýndu sig voru geitungar sem höfðu töluverðan áhuga á ferðalöngunum. Við nutum þess að hvíla lúin bein í mjúkri og skjólgóðri lautu sunnan undir bæjarveggnum, nutum útsýnisins og önduðum að okkur anda framliðinna Richtera.
Leiðin til baka gekk vel þó norðangarrinn væri í fangið. Alls tók þess túr tæpa 5 tíma og gengnir voru 16 km. Þrátt fyrir að gangan hafi haldið vel að okkur hita þá leið ekki á löngu, eftir að í bílinn var komið að kuldi læddist í beinin. Það voru því helkaldir og klink-litlir ferðalangar sem grátbáðu sundlaugarmey að Birkimel um að fá að hita kroppinn í lauginni. Var það auðsótt mál og á hún miklar þakkir skilið.
Hjerastubbur
Þessi pistill ásamt fleiri myndum verður settur á www.richter.is við tækifæri.
Flokkur: Ferðalög | Fimmtudagur, 6. ágúst 2009 (breytt kl. 23:14) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.