Chile ferð
Dagur 1 og 2
23. janúar: Þá sest ég loks niður til að tína niður á blað það sem á daga okkur hefur drifið.
Við sitjum hér í biðsal A3 á JFK flugvellinum í New York og eru 3 tímar í að flugið til Santiago hefjist frá New York. Við vorum í fyrrafallinu út á völl og erum búin að fara í gegnum ýmislegt öryggistékk. Meir að segja náði ég því að láta gera bagage check á mér..... eitthvað grunsamleg að þeirra mati. Þegar eplalyktin gaus upp og tölvusnúrur og gsm hleðslu tæki blöstu við, var mér sleppt í gegn.
Ferðalagið hófst ekki hér....
Kannski má segja að undirbúningur ferðalagsins hafi hafist á haustdögum þegar pössun fékkst fyrir hundinn ef af Chile ferð yrði. Eftir það gengu hlutirnir hratt. Ákvörðun um 10 vikna vinnuferð, flugmiðar keyptir og ferðin út og heim skipulögð. Gengið frá bólusetningum, skólaplönum og öðrum praktískum málum. Reynt að koma sem mestu í verk í vinnunni áður en skellt var í lás....
Á föstudagseftirmiðdegi var allri hersingunni ekið út á Keflavíkurflugvöll. Hundurinn var búinn að fylgjast með vaxandi spennu dagana á undan og ef farið var eitthvað veik hann ekki frá okkur. Hann var ekki hamingjusamur þegar við kvöddum hann og lá hann lúpulegur í sætinu.
Vopnaleitin í Keflavík stóð undir sínu, fara úr skónum, fjarlægja belti ofl. Ekkert pípti þó þar.
Ferðin út var tíðindalítil, mjög gott flugveður og bjart mest alla leiðina. Grænlandsjökull skartaði sínu fegursta og vötnin í Norður ameríku voru örugglega óteljandi. Okkur tókst að elta sólina nánast alla leið, þó vann hún á loka mínútunum meðan við hringsóluðum yfir New York til að fá lendingarleyfi.
Móttökurnar á JFK voru barasta ljúfar, mynd og fingraför tekin af öllum 14 ára og eldri. Jóni Hákoni finnst sér mismunað í ýmsu vegna aldurs og var það ekkert öðruvísi í þetta skiptið. Landamæravörðurinn lofaði honum að þetta yrði gert næst þegar hann kæmi (verður reyndar ekki orðinn fjórtán þegar við fjúgum aftur heim).
Við fengum að kynnast airtrain og hótel rútum og um kvöldmatarleyti vorum við komin í hús. Frekar shabby flugvallarhótel (reyklaus herbergi sem eru mjög mjög mjög nýlega orðin reyklaus). Hins vegar má hæla þessu lúna hóteli fyrir fín rúm og algjört næði. Ég var gjörsamlega úrvinda kl. 9 og svaf eins og engill í nótt.
Áður en bælið var bælt var matar leitað. Hótelið bauð ekki upp á veitingar nema morgunmat og fengum við að vita að fyrir utan heimsendingu mætti finna Burger King ekki langt frá. Eftir mikla setu var ákveðið að fara í göngutúr. Hverfið reyndist frekar dasað og hefði getað verið í hlutverki í einhverri krimmamynd..... Burger King hefði líka sómt sér vel í sömu mynd. Við borguðum morð fé fyrir ótrúlega lélegt fæði og gosið var klórað. Þrátt fyrir mikið hungur kláruðum við ekki matinn.... og ekki vegna þess að allir væru orðnir saddir, ónei.
Nýr dagur reis bjartur og kaldur. Við vöknuðum fyrir allar aldir enda tímamunurinn að stríða okkur og svo hafði verið farið mjög snemma í háttinn. Eftir morgunmat var farið niður á Manhattan með Long Island lestinni og gaman að fylgjast með útsýninu. Á Manhattan komumst við að því að við vorum mjög snemma á ferðinni, fáir á ferð en margt að sjá. Golan blés á milli háhýsanna og minnti óneitanlega á ískaldan íslenskan gust. Við kíktum aðeins á nokkra merkilega staði en fórum hvergi inn. Allt slíkt á að bíða þar til við verðum í NY á bakaleiðinni. Einhver flottræfilsháttur greip okkur þegar gengið var fram á Hard Rock Cafe og kostaði hádegismáltíðin lungað úr okkur...... meir en helmingi dýrara en á Ameríkan Style á Íslandi sem okkur finnst þó frekar dýr. Maturinn góður á báðum stöðum, en umgjörðin kostar sitt á Hard Rock NY.
Eftir að Sigurður Ýmir var skóaður lagðist þreyta á hópinn og lestin var tekin til baka. Lestarstöðin okkar var Jamica station og bar hverfið mjög suðrænan brag með sér. Og óþolandi ágenga leigubílsstjóra. Það endaði með því að í stað þess að reyna að finna trúverðugan leigubílsstjóra tókum við Airtrain út á JFK og hótel rútuna upp á hótel! Þeim var nær bölvuðum, enda keyrði einn á eftir okkur kallandi, óþolandi ágengt fólk.
Á hótelinu hittum við bandarísk kennarahjón sem voru að fara til Egyptalands og Jórdaníu í 3 vikna frí. Sögðust vera dugleg að ferðast um heiminn og skoða sem mest. Okkur finnst langt til Egyptalands en þeirra flug var jafnlangt og okkar sem framundan var til Chile. Þau sögðust alltaf vera á leiðinni til Íslands og voru að velta fyrir sér besta árstímanum til ferðar. Vorum samferða þeim út á völl.
Og þá erum við komin á upphafsstað.
Sitjum hér á JFK í huggulegheitum. LAN flugvélin var að renna upp að stæðinu og aðeins er farið að fjölga hér í sætum. Drengirnir árangurslaust búnir að suða um rándýra nettengingu meðan beðið er. Farnir að horfa á einhverja þætti í tölvunni og ró að færast yfir þá.
Framundan er tæplega 11 tíma beint næturflug til Santiago. Förum í loftið kl 20 að staðartíma og lendum 8.50 að staðartíma í Chile (3 tíma munur á Chile og Íslandi).
Flokkur: Ferðalög | Miðvikudagur, 27. janúar 2010 | Facebook
Athugasemdir
Hæ hæ Gaman að lesa færsluna þina Rósa mín. úff fékk bara gæsahúð við tilhugsunina að vera 10 klst straight í flugvél, hef prófað það og gott betur en það. Mér fannst það EKKI gaman :-). Annars allt gott að frétta af okkur. Við Sigga flytjum búferlum um helgina og verðum þá allt í einu orðnar Reyðfirðingar, áttum það alveg eftir sko. hehe. Reyndar mikið um að vera hjá okkur mæðgum, er soldið minn stíll að hafa mikið að gera, ja sko eins og sumir. Spurning hvort ég haf eitthvað meira en útlitið frá þér Rósa mín. :-) Bið að heilsa í bili og ég fylgist pottþétt vel með hérna.
Bestu kveðjur til allra strákana
Fjóla
Fjóla (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 13:01
Sæl elsku þið öll :) Var að kíkja á ykkur - skemmtileg ferðasaga Rósa mín - það verður gaman að fylgjast með ykkur í suðrinu.
Knús og kram Heiða
Heiða Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.