35 gráður og sól

Dagur 6    27. janúar

Nú er sumar, gleðjist gumar.....

Hér var heitt í dag. Hitinn fór í 35° á opinberum hitamælum þannig að það var verulega volgt, svo vægt sé til orða tekið. Ég dreif mig út í morgun með Bjarna en var ansi dösuð og þreytt og þungir fætur sem skokkuðu með mig heim á leið aftur. Lagði mig í eftirmiðdaginn.

Við völdum þennan dag vel volga dag til að fara í 3.5 tíma langan göngutúr! Drengirnir eru vissir um að þeir hafi dáið í þessari ferð, allavega bráðnað niður í malbikið. Heitt heittHarpa fór með okkur í kynnisferð í næsta hverfi (Providencia) Providenciaog upp í stærsta útivistarsvæði borgarinnar (Parque metropolitano de Santiago).

Við gengum í gegnum hverfið okkar og yfir í Providencia og síðan yfir úfna Mapocho jökulána (ójá hér rennur brún jökulá í gegnum borgina) sem kemur alla leið úr Andesfjöllunum. Mapocho jökulsáinSitt hvoru megin við ána eru útivistarsvæði, m.a. flottur skúlpúragarður. Svæðin þarna eru stútfull af ungmennum í mjög nánum faðmlögum, mér skilst að fólk gangi stundum nánast alla leið! SkúlptúrasalurKelirófur i skúlptúragarði

Þegar gengið er aðeins lengra frá ánni komum við að stóra garðinum, Parque metropolitano de Santiago. Þetta er rúmlega 700 hektara stórt hæðótt svæði sem byrjað var að rækta upp í upphafi 20. aldarinnar. Áður var þetta svæði mjög þurrt að mestu án gróðurs, klettar og grjót. Þeim hefur tekist á þessum 100 árum að gera svæðið að mjög fallegri útivistarparadís með allskyns görðum, sundlaug og skemmtisvæðum. Svæðið er mjög vinsælt reiðhjólasvæði og mættum við ótrúlegum fjölda fólks á blússandi ferð niður brekkurnar, á flottum hjólum, í flottu outfiti og með hjálma... merkilegt nokk.

LjósmyndarinnVið náðum bara að klifra aðeins upp í hæðina og skoða þar, m.a. önnum kafna mauraMauraskoðun. Þá var þreytan og hitinn, þorstinn, hungrið og hælsærin farin að segja til sín. Það var farið að kvölda þegar við gengum í gegnum Providencia aftur og mannlífið að breyta um svip. Veitingastaðir farnir að satsa á kvöldgestina, mikill fólksfjöldi og fékk maður á tilfinninguna að nú væri gott að týna drengunum ekki og gæta verðmæta. Heimferðin gekk glimrandi vel, og eftir snæðing á TGI Fridays lögðust lúnir ferðalangar í öll laus stæði í íbúðinni og reyndu að kæla sig niður. Hitinn var ennþá hár, tæpar 30 gráður á veðurathugunarstöð þó klukkan væri að verða tíu að kvöldi. Að bráðna niðurOg meðan ég man, hér er ekki loftkæling.....

Sigurður Ýmir er að spá í að láta senda sig heim...... telur að það sé betra að vera í Flensborg heldur en að hanga hér í hita og aðgerðarleysi! Ég er stolt af honum að vera svona jákvæður gagnvart skólanum sínum, að hann velji hann umfram mjúkan sófann og facebook....:)

 Kær kveðja

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að heyra hvernig lífið er hjá ykkur. Vona að þið hafið það sem allra best og að hitinn fari ekki alveg með ykkur. Ég er alla vega þræl-abbó, hiti hljómar mjög vel í mínum eyrum. Kristín

Kristín Skúladóttir (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband