Þar sem bíllinn var leigður alla helgina var hann notaður í botn. Á sunnudeginum ókum við niður að sjó, að hinu eina sanna Kyrrahafi. Santiago liggur í dölum í 543 metrum yfir sjávarmáli og er eina 100 km. frá sjó. Strákunum þótti þetta ferðalag bara ljúft enda eftir hraðbrautum ekið og lítið sem gat valdið þeim velgju. Þar sem við ókum í gegnum mið chiliskar sveitir kom upp í hugann líkindin við suður Evrópu s.s. Ítalíu. Vínræktarhéruð, ávalar hæðir og gróðursæld.
Valparaíso og Viña del Mar tvíburabæirnir tóku á móti okkur með mikilli mannmergð. Eftir á fréttum við að þetta væri einskonar verslunarmannahelgi og enginn sem varaði okkur við! Umferðarteppur og skortur á bílastæðum. Við misstum af ýmsum merkum stöðum í Valparaíso og þurfum því að fara þangað aftur á rólegri degi. Hins vegar sáum við líka margt flott, ekki síst einstaka jarðfræði í Viña del Mar. Bjarni sýndi okkur flott innskot, eyðimörk og smart kletta þar sem pelikanar sveimuðu yfir. Fórum á ströndina og nutum þess að horfa út yfir endalaust Kyrrahafið og reyna að ímynda okkur að við sæum yfir til Ástralíu.
Þessir tvíburabæir eru byggðir upp í brattar hlíðar og víða eru toglyftur utanhúss sem fólk notar til að komast upp á sína hæð. Ótrúlegt fyrirbæri. Sumar toglyftanna eru frá því snemma á síðustu öld og litu út fyrir að vera það. Aðrar voru nýtískulegar og hvíldu inn á milli háhýsanna.
Þetta svæði varð fyrir miklu tjóni í einhverjum öflugasta jarðskjálfta sem nokkurn tímann hefur mælst í heiminum árið 1906 og því þótti okkur furðuleg háhýsin sem héngu á sjávarbakkanum.
Flokkur: Ferðalög | Miðvikudagur, 10. febrúar 2010 | Facebook
Athugasemdir
Váá... hvað þetta er fallegt - ævintýralegt!!
Heiða (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.