Óbærilegt vein risaskrímslis í jarðskjálfta

Í gegnum tíðina hef ég stundum dvalið í timburhúsum sem mikið hefur heyrst í þegar vindur hefur blásið hraustlega, jafnvel svo að manni hafi fundist þakið ætla að fjúka af. Steypt hús eru hins vegar þögul sem gröfin.

Annað er að ég er ekki aðdáandi hamfara eða skrímslamynda.

Aðfaranótt síðasta laugardags var ég hins vegar stödd í hvoru tveggja, hamfara- og skrímsla hryllingsmynd.

Við vöknuðum upp við að rúmið fór að hreyfast með hratt vaxandi bylgjum og Bjarni ýtti við mér og kallaði að þessi væri stór og við niður á gólf við hliðina á rúminu. Kölluðum líka til strákana að leggjast á gólfið en þeir svöruðu ekki þannig að Bjarni hljóp til þeirra eða réttara sagt hentist eftir bylgjuhreyfingunum.

Á meðan lá ég á gólfinu og endurtók guð minn góður, guð minn góður í óratíma. Við búum í mjög traustvekjandi 13 hæða steypuklumpi, á 7 hæð með 6 hæðir fyrir ofan okkur.

Ég byrjaði pistilinn á því að ég hefði aldrei heyrt steypt hús gefa frá sér hljóð fyrr en nú í jarðskjálftanum. Eftir að bylgjurnar mögnuðust byrjaði húsið að sveigjast og beygja og varð skyndilega eins og risastórt skrímsli sem að engdist til og frá og veinaði og öskraði eins og verið væri að murka úr því líftóruna. Þetta skrímsli var djúpraddað og stundum holróma. Við máttum hlusta á þessi skelfingaróhljóð samfara því að búkurinn á skrímslinu hreyfist stöðugt til og frá. Við veltumst um stjórnlaust eins og Jónas gerði örugglega í hvalnum þarna um árið.

Þegar hægist um eftir mjög langan tíma minnkuðu hljóðin og að lokum hætti að heyrast nokkuð úr barka skrímslisins sem aftur breyttist í steypt hús.

Ég veit núna hvað leynist þarna og það veldur því að ég treysti mér ekki til að sofa í húsinu. Hver eftirskjálfti minnir mig á það.

Vil ekki vera á staðnum ef það lifnar aftur við.

 Skjálftakveðjur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband