Jarðskjálftinn í Chile 27.febrúar kl. 3:34 - Styrkleiki upp á 8.8!

Bjarni setti saman pistil sem ég set hér inn. Ég get bætt því við að sálartetur mitt er ósköp lítilfjörlegt eftir öll þessi ósköp og bíð bara eftir því að komast í burtu. Ég dvaldi sem mest úti í sólinni í gær, treysti mér ekki til að vera inni. Nú er gott að eiga góða sólarvörn..... svo líkamlegur skaði bætist ekki á þann sálarlega....:). En látum Bjarna fá orðið (Harpa og Carlos eru samstarfsfólk Bjarna): Síðastliðnir 30 klukkustundir hafa verið afskaplega einkennilegir. Að vera vakinn upp um miðja nótt þar sem allt leikur á reiðiskjálfi, miklar drunur, brak og brestir í öllu húsinu, sírenuvél og þjófavarnir á fullu. Ekki stætt og hentumst við fram úr rúminu og lögðumst á gólfið við hliðina á rúminu. Skápar falla fram, hreinsast af öllum borðum. Heyrðist ekkert í drengjunum í næsta herbergi þannig að maður reynir að hlaupa inn til þeirra til að kanna hvort að þeir hafi komið sér í skjól við hliðina á rúminu. Liggjum síðan næstu hálfu mínútuna eða svo og fylgist með loftinu, sannfærður um að það muni detta hvað úr hverju. Rafmagnið fór af en blikkandi neyðarljós í næstu byggingu lýsti upp hluta af íbúðinni hjá okkur. Þetta var eins og í ekta stórslysamynd. Loksins gekk þetta yfir. Hentumst í fötin og reyndum að komast út. Útidyrahurðin hafði skekst þannig að við komumst ekki út. Heyrðum í hinum íbúunum á leiðinni niður og hlustuðum á köll og hróp á spænsku. Eftir nokkra stund komu húsverðirnir aftur þar sem ljóst var að ekki væru allir búnir að skila sér. Aðstoðuðu þeir okkur við að rífa hurðina af hjörunum. Ég náði að losa hjarirnar innan frá og spörkuðu húsverðirnir síðan hurðinni inn. Ég fór svo að hjálpa þeim við að ná konu út úr íbúð á sömu hæð sem svipað var ástatt með. Það sem kom okkur mest á óvart var hvað við vorum tiltölulega róleg og hugsuðum skýrt meðan á öllu stóð. Það var ekki fyrr en um 2 tímum síðar, eftir að við vorum búin að laga það helsta, tjasla hurðinni í (sem er reyndar skökk þannig að læsingar virka ekki og opnast hún nú aðeins til hálfs) sem stressið fór að setjast í mann. Reyndum að halla okkur en náðum lítið að hvíla okkur. Fórum síðan á fætur um átta leitið enda lítill friður fyrir eftirskjálftum og frekar óþægiegt að liggja við slíkar aðstæður. Reyndum að ná sambandi heim, en ekkert gsm samband. Tókst þó að ná merki í smá stund og láta vita með tölvupósti úr símanum að við værum á lífi. Við vorum ekki með útvarp og allt rafmagnslaust þannig að við höfðum enga hugmynd um hversu alvarlegt ástandið væri. Við gerðum okkur ekki grein fyrir hversu stór skjálftinn væri en í hverfinu hjá okkur var ekki að sjá í fyrstu mikið um tjón. Síðar um daginn fengum við síðan að heyra að töluvert varð um tjón í Santiago og Valparaíso og Conception og nærliggjandi bæir í rúst. Höfðum samband við Hörpu Elínu og kom í ljós að allt var í lagi hjá henni. Carlos var fyrir norðan þannig að hann varð ekki var við neitt, en kærasta hans var einnig óhult. Fórum út að ganga og reyna að róa okkur niður, enda óþægilegt að vera inni á sjöundu hæð meðan stöðugir eftirskjálftar ganga yfir. Vont að sitja þarna, finna skjálftann byrja og velta því fyrir sér hve stór hann verður þessi. Vorum síðan að mestu úti í gær. Gengum um og sáum að svolítið af gleri hafði fallið úr háhýsunum í kring og sem betur fór er líklegt að enginn hafi verið úti um nóttina og orðið fyrir fallandi glerbrotum. Púsning hrundi af veggjunum og eitthvað af veggjum hafði skemmst. Fréttum síðar að miðborg Santíagó hafði stórskemmst enda ekki byggð eins vel og nýrri úthverfin. Dagurinn fór einnig í það að láta vita af okkur og kanna það hvort hægt væri að komast burt. Flugvöllurinn er hér lokaður í 72 tíma enda urðu skemmdir þar. Við sáum að smásaman kom rafmagnið á í borginni, en undir kvöld var rafmagnið ekki enn komið á hjá okkur. Einnig var vatnið farið. Við fórum á nokkur hótel og spurðum hvort við gætum gist um nóttina, en allt var fullt, m.a. vegna þess að efstu hæðir hótelana höfðu skemmst og voru óíbúðarhæfar. þurfti að flytja þá sem þar voru neðar. Ekki tókst að fá þar húsaskjól þannig að við leituðum á náðir Hörpu, sem býr í öðru hverfi og var komin með rafmagn. Á leið í næturstað í flóttamannabúðir HörpuÍ flóttamannabúðum HörpuSváfum þar í nótt, en ennþá ríða eftirskjálftar yfir, bara til að minna okkur á aftur og aftur á stóra skjálftann og hve lítill maður er í raun þegar náttúran verður duttlunagfull. Þó er lengra á milli þeirra núna. Fólkið hér í Santíagó er í sjokki. Það var skrítin tilfinning á götunum hér. Allt hér í hægagangi og fólk gangandi um að skoða skemmdir. Ókunnugt fólk kom upp að okkur að spjalla og maður sá að mörgum var greinilega brugðið. Allar búðir voru lokaðar og flestir matsölustaðir einnig. Ekki var hægt að nota vísakort og við með lítið af lausafé. Lítið var um mat í ískápnum okkar, en okkur tókst þó að skrapa í eina vafasama skyndimáltíð. Jæja, nú ætlum við að fara að kanna hvort rafmagn og vatn sé komið á hjá okkur og fara síðan í göngutúr, þar sem manni líður skást utandyra. Kær kveðja

 

... eins og hauslaus hæna?  - bætt við annan dag páska 2010

Þið hafið eflaust velt því fyrir ykkur hvernig við, sérstaklega ég, hafi hegðað mér í skjálftanum og eftir hann í ljósi þess að það er ættingjum, vinum og vinnufélögum ljóst að ég var/er með klár einkenni áfallastreituröskunar vegna skjálftans. Lét ég eins og hauslaus hæna í skjálftanum?

Mig langar til að fara aðeins ofan í saumana á því hvernig tíminn frá 3:34 aðfaranótt 27. febrúar og næstu 4-5 tímanna var. Ég skrifa það hér sem eftirskrift pistils Bjarna sem birtist daginn eftir skjálftann. Í skjálftanum sem stóð yfir í 2 mínútur í Santiago vegna fjarlægðar frá upphafsstað og sem vísindamenn áætla að hafi verið á stærðargráðunni í kringum 7.2 í Santiago (8.8 á upphafsstað) lágum við grafkyrr við hliðina á rúmum okkar (Bjarni hafði hlaupið inn til strákanna og lá þar). Ég grúfði mig saman og tautaði lágt guðsorð fyrir munni mér. Bjarni segist hins vegar hafa horft upp í loftið sem var lýst daufri birtu frá neyðarljósum næstu byggingar. Hann hafi hugsað með sér að það væri ekki séns að byggingin þyldi þetta álag og hvað úr hverju myndi sprunga myndast og húsið hrynja.

Þegar hægðist um sagði hann að þetta væri örugglega búið og eftir að hafa spurt hvort allir væru í lagi sagði ég þeim að klæða sig í snarhasti og Bjarni sagði öllum að fara í skó því hann hafði heyrt brothljóð frammi. Skjálftaskemmdir skoðaðar með ljósi úr gsm símaVarúð glerbrot - Allir í skóVið vorum vönkuð eftir þessa skuggalegu lífsreynslu en héldum andlitinu gagnvart strákunum og hvorki hækkuðum róminn, grétum né gáfum á nokkurn hátt í skyn að þetta væri lífshættulegt ástand sem hefði skapast hjá okkur. Við fórum strax að velta fyrir okkur hvar við ættum ljós og ég mundi eftir vasaljósi í gsm símanum hans Jóns Hákonar og hvar hann væri. Eins mundum við eftir litlu leikfangavasaljósi sem líka fannst. Allt á hreyfinguVið fórum að skoða skemmdir og komumst að því að ýmislegt hafði færst úr stað sérstaklega í stofunni og eitthvað brotnað. Það var ekki fyrr en við skipulagða yfirferð að við uppgötvuðum að útidyrahurðin hafði skekkst og ekki var hægt að opna hana. Lokuð inni á 7. hæðSem sé, okkar fyrsta verk var ekki að æða út úr húsinu. Við héldum ró okkar þó við værum læst inni og vorum mjög samhent í að finna einhver nothæf áhöld til að opna hurðina. Meðan Bjarni og Sigurður Ýmir böksuðu við hurðina fann ég myndavélina og tók myndir af öllu ef eigandinn myndi vilja einhvern vitnisburð um skaðann (látið ekki blekkjast af birtunni sem flassið gefur, það var allt rafmagnslaus, bara dauf neyðarljósabirta úr næsta húsi). Möndulhalli tunglsins breyttist og borgin almyrkvuðVið fórum út á svalir og sáum fólk með börn vafin í sæng, úti á götunum í myrkrinu sem skyndilega grúfði yfir 6 milljón manna borg.

Frelsinu feginnStutt í galsannMeð hjálp húsvarðarins náðist hurðin af hjörum og voru menn frelsinu fegnir og göntuðust með þetta. Þegar ég skoða myndirnar betur sem ég tók þessa nótt kemur í ljós að við vorum innilokuð í 50 mínútur! Allann tímann vaggaði húsið, í missterkum eftirskjálftum. Húsvörðurinn bograr við næstu hurð, fleiri sem lokuðust inniÞegar búið var að ná hurðinni af hjörum fór Bjarni að aðstoða við að ná nágrannanum út sem var í svipaðri aðstöðu en við hin fórum í að laga til í íbúðinni og sópa upp glerbrotum. Við fórum ekki niður og út. Trúðum því sennilega að það kæmi ekki annar stór. Íbúðin var ótrúlega lítið skemmd og gaf það manni ákveðna öryggistilfinningu þó vaggið væri óhugnarlegt. Þegar leið frá sögðum við strákunum að reyna að sofna aftur. Stöðugir eftirskjálftar, best að vera bara á gólfinuJón Hákon gafst mjög fljótlega upp á því að liggja í rúminu því honum fannst hann alltaf þurfa að rúlla sér framúr vegna sterkra eftirskjálfta og kom hann sér bara fyrir á gólfinu ofan á sænginni sinni og horfði á Simpson.

Við reyndum að hringja í Hörpu þarna um nóttina en náðum ekki í hana enda lá allt fjarskiptasamband niðri og rafmagnslaust. Eins og komið hefur fram leið okkur pínulítið eins og geimverum í þessu ástandi, rafmagnslaus, ekkert útvarp/sjónvarp, höfðum engar upplýsingar um stærð skjálftans né skaða, skildum ekki spænsku o.fl. Ég hafði á orði við Bjarna að við þyrftum nú að reyna einhvern vegin að láta vita heim að við værum í lagi en hann efaðist um að þetta hefði ratað í fréttir heima! Það var svo um níuleitið að hann náði örstutta stund netsambandi heim í gegnum símann og gat látið vita. Hann kom til mín furðulostinn á svipinn og sagði: Rósa, þetta var sá stóri. Ég hálfskilningslaus spurði hann hvað hann meinti með sá stóri? Já sá stóri sem kemur á 50 ára fresti. Þessi skjálfti var upp á 8.8 sagði hann! Skyndilega fékk ég staðfestingu á því að ég hefði verið að upplifa eitthvað hræðilegt þarna um nóttina. Enda breytti skjálftinn möndulhalla jarðar...:)

Fyrr um morguninn í kringum sjö reis ég upp úr rúminu (enda vonlaust að sofna og slaka á í gengdarlausu vagginu) og sagði við Bjarna að ég væri farin út úr þessu landi með fyrsta flugi um kvöldið. Hann var nú sennilega hálf vankaður ennþá því orð mín voru algjörlega úr takt við allt hans ímyndunarafl. Mér var ekki haggað og náði ég í töskur og pakkaði niður því helsta. Töskurnar fengu svo að vera á gólfinu með dótinu í fram að brottför .... kannski til að vera í startholunum ef kraftaverk ætti sér stað hvað varðaði brottfarartíma. Mesta kraftaverkið var þó það sem ég hugleiddi eflaust ekki nægilega oft en það var að enginn slasaðist, hvað þá meira.

Þegar Harpa kom svo uppúr tíu um morguninn sagði hún okkur eftir leigubílsstjóranum að flugvöllurinn hefði skemmst mikið og ekkert yrði nú flogið þaðan um kvöldið. Eins sagði hún okkur að jarðskjálftinn hefði verið mannskæður og tala látinna væri komin yfir 70 manns. Þarna skall sá sorglegi raunveruleiki á okkur að í þessum ólgusjó okkar hefði látist fólk, líka í borginni okkar.

Allann tímann eftir skjálftann fékk ég bara einu sinni eitthvað sem líkja mætti við panik og var það eftir heimsóknina á LAN ferðaskrifstofuna sem lýst er annar staðar (Því má líkja við panik því þar helltist sorgin og vanmáttarkendin yfir mig af fullum þunga og hafði mikil líkamleg og andleg áhrif í einhverja klukkutíma á eftir).

Hins vegar þegar bráðaástandið var yfirstaðið um nóttina (allir heilir, búið að opna hurðina, búið að kanna hugsanlegar skemmdir) og við ætluðum að reyna að ná smá ró, þá byrjaði einhver innri skjálfti og lúmskur ótti fór að hreiðra um sig í mér. Viðkvæmni, eirðarleysi, sjóriðutilfinning, óþolinmæði voru einkennandi fyrir líf mitt næstu tvær vikurnar en aldrei gargandi, hávaði eða rífandi í hár mér né annað sem hugsanlega brýst fram hjá fólki við svipaðar aðstæður.

Nú held ég að ég sé búin að svara spurningunni um hvort ég hafi hlaupið um eins og hauslaus hæna. Nei, ég hljóp aldrei um eins og hauslaus hæna, rífandi í hár mér, hljóðandi eða vitskert af ótta. Nei það gerði ég ekki (turn hlaupin voru langt frá því að vera raunverulegt panik, enda gat ég hlegið af því nokkrum mínútum síðar). Þrátt fyrir það er hinn lúmski ótti afskapleg vondur, sérstaklega þegar maður er fastur í aðstæðum, fyrst lokuð inni í 50 mínútur og svo lokuð inni í landinu í 12 daga. Og allan tímann gerði ég mitt besta til að halda andlitinu gagnvart drengjunum. Einhver spurði hvort þetta hefði ekki verið kjörið tækifæri til að detta í það. Ónei, þá fyrst missir maður stjórn á aðstæðum og óttanum og væru drengirnir einhverju bættari að hafa rallhálfa og óttaslegna móður? Svari hver fyrir sig.

Hluti af úrvinnslunni er jóga. Ég fór fyrir páska í phoenix rising jóga í einkatíma hjá Rut Rebekku. Ótrúleg upplifun. Þar komu fram tilfinningarnar sem ekki fengu að koma fram skjálftanóttina, óttinn við skjálftann og skelfingin yfir því að vera lokuð inni. Magnað fyrirbæri sem svona jóga er og öll orkan sem ég fékk eftir tímann!

Hjerastubbur 

Skjálftaskemmdir í okkar hverfiTurninn á niðurleiðVíða brotið glerÓtímabær lokun sýningar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að frétta að þið séuð öll heil.  Hafið það sem best. kveðja. Gísli og fjölsk.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband