Erfiður dagur að baki sem kemur aldrei aftur

Gærdagurinn var þungur í sál minni. Ég var einhvern vegin örmagna, með stöðugan höfuðverk, blóðþrýstingurinn niður úr öllu og langaði mest til að sofna og vakna aftur 6 dögum seinna þegar við færum í flug. Ég upplifði einhverja uppgjöf og vanmáttarkend að geta ekki haft frekari áhrif á brottfarardaginn. Bjarni heyrði í starfsmönnum danska sendiráðsins og sögðu þau Hörpu algjöra kraftaverkakonu að hafa þó fengið far fyrir okkur þann 10. mars. Þau hefðu fengið flug 15. mars fyrir sitt fólk. Ég er þakklát fyrir það sem er í hendi.

Ég fór snemma út og gekk í átt til fjalls .... (lokkuðu álfarnir fólk ekki inn í fjallið?). Gekk fram á grænmetismarkað í lágreistu einbýlishúsa hverfi og litir og lyktin þar inni hafði mikil áhrif á mig. Litirnir voru svo skærir og bjartir og lyktin sem fersk og ný. Skilningarvitin voru á einhverjum yfirsnúningi, þetta var alveg magnað. Grænt og vænt

Ég taldi mig alltaf vera nokkuð vissa í hvaða átt ég átti að ganga heim, en hringdi einu sinni í Bjarna og bað hann um að leita mig uppi á google earth og staðfesta áttirnar hjá mér. Hann fann strax götuna en sagði mér endurtekið að ganga í öfuga átt við það sem ég vildi fara. Skyndilega upplifði ég að nú væri ég loksins og endanlega  orðin vitlaus, vissi ekki lengur hvar Andesfjöllin sem blöstu við mér væru!!! Þá kom alltí einu frá honum.... úps ég meinti hægri en ekki vinstri.....:). Heim kom ég eftir þriggja tíma sólargöngu, til þess eins og fara fljótlega út aftur. Nú prófaði ég að hafa ipodinn hans Jóns Hákonar með mér  og gat ég gleymt mér yfir aulahættinum í Simpson næstu 1-2 tíma. Sat á bekk við hliðina á leikvelli þar sem hlátrasköllin í börnunum höfðu róandi áhrif. Í gærkvöldi gat ég meir að segja fest mig við morðþætti CSI og reynt að leysa gátuna fyrir þá. Hingað til hef ég ekki horft á sjónvarp eða lesið annað en á tölvuskjá. Forðast áfram að horfa á fréttatíma.

Ég var með stöðugan skjálfta í mér, mér finnst þetta svo furðulegt, eins og að ég sé alltaf með sjóriðu, að jörðin sé alltaf á hreyfingu. Sérfræðingar vita eflaust betur hvað er að gerast innra með manni.

En nú er sjötti dagur í bið á enda og í dag eru fimm dagar í flug út úr landinu!

Kær kveðja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband