New York er búin að vera ótrúlega blaut. Já við vorum í stanslausri sól í sjö vikur til að fá sjö vikna rigningarskammtinn á tveim sólarhringum hér í borg.
Gærdagurinn var eins og íslensk þjóðhátíð í öllu sínu veldi, úrhellis rigning og rok, ekta regnhlífabanaveður. Enda lágu regnhlífar hér út um allt, fólk henti þeim bara frá sér þegar þær eyðilögðust, voru ekkert að hafa fyrir því að leita að ruslafötu. Frekar sóðalegt finnst mér.
Við keyptum okkur skoðunarferðir hér um Manhattan og Brooklin bæði að degi til og kvöldi, í þurru veðri en reyndar miklu meira í rigningu. Það olli því að oft sást ekkert út um gluggana á rútunni og maður varð að nota ímyndunaraflið.
Það var ótrúlegur vatnsagi í "uptown" ferðinni sem við fórum í gær en þá flæddi vatnið fram og aftur eftir gólfinu eftir aksturslagi bílstjórans. Í þeim túr fórum við og skoðuðum American Museum of Natural History. Gríðarlega stórt safn og gríðarlega margir sem fengu einmitt sömu hugmynd og við að nota húsaskjólið þar undan rigningunni.
Fyrir mitt leiti voru alltof margir þarna inni og ég fékk algjört overload af upplýsingum, því þarna inni er mikið magn sýningargripa. Fundum Dum Dum og Dexter en ekki var húsið nú alveg eins og í myndinni "Night at the Museum". Það mátti heyra á tali margra að Dum Dum var aðdráttarafl. Enda geymdu þeir hann lengst inni í horni þannig að fólk yrði örugglega að skoða margt fleira í leiðinni.
Einhver sem veit ekki hver Dum Dum er? Jú það er páskaeyjastyttan í fyrrnefndri mynd. Hún var meinfyndin í myndinni en frekar líflítil í gær.
Við erum búin að koma við á 9/11 tvíburaturnasvæðinu. Fórum þar inn í St. Pauls kirkjuna sem stendur við hliðina og gegndi miklu hlutverki í umönnun eftirlifanda. Eins er í næsta húsi sýning um árásina og fólkið. Ég var djúpt snortin og skal viðurkenna að ég sökkti mér full djúpt í ástandið og barasta grét yfir þessu. Sá fyrir mér örvæntingarfulla ættingja leita stöðugt að sínum nánustu sem aldrei fundust, ekki bara í þessu slysi heldur í fleiri slysum eins og 2006 hörmungum í Asíu, og nú síðast við strendur Chile þar sem töluvert af fólki hvarf í skjálftaflóðbylgjum.
Strákarnir fóru í dag út í Liberty Island og skoðuðu Frelsisstyttuna. Ekki var hægt að fara upp í hana þar sem næsti lausi dagur upp var 27. apríl! Eins gott að panta í tíma. Þeim fannst þetta samt mjög skemmtilegt og gáfu mömmunni kærkomið mömmufrí sem eytt var í búðarölt. Gaman að skoða og máta föt sem passa manni..... get sagt ykkur að í henni Santiago var varla flík sem passaði á norrænan risa..... En núna..... dásamlegt! Ég var eitthvað að velta fyrir mér nærfatastærðum og þegar konan sem afgreiddi mig sagðist sjálf nota medium, var ég hin kátasta með mig því hún var með huggulegasta hamborgararass! Kaninn blekkir sig nefnilega svolítið með því að stækka bara flíkina en halda númerinu.
Kær kveðja
p.s. ég sakna þess svolítið að þurfa ekkert að nota sólgleraugun!
R.
Flokkur: Ferðalög | Mánudagur, 15. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 21:41) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.