Góðan og blessaðan daginn.
Við vorum búin að ræða ferð í Hvalfjörðinn eða á Þingvöll til að ganga á fjall/hól/hæð og skoða eyðibýli. "Fjalla"ferðirnar eru farnar að tengjast allmjög áhugamáli eldri sonarins, að skoða eyðibýli. Þegar litið var út um gluggann í morgun kom í ljós að veðurspá gærdagsins reyndist ekki rétt því úti fyrir snjóaði og snjóaði þessum fallega engla- jólasnjó. Þar sem Econoline drossía heimilisins er nú ekki of vel skóuð í mikla hálku var gripið í plan B.
Plan B leiddi okkur suður á bóginn, enn á ný. Byrjað var á að skoða yfirgefin hús suður við Grindavíkurafleggjara. Annað mun vera fyrrum kúabú, stæðilegasta hús en langt síðan nokkur kýr hefði treyst sér til að halda á sér hita þar. Skammt þarna frá má sjá ummerki mótorhjólabrautar og jafnvel paintball braut.
Við stoppuðum í sælureit skógræktarfélags Suðurnesjamanna, Sólbrekkuskógi. Gengur hringinn sem samkvæmt korti er einir 850 metrar. Það mætti að ósekju hreinsa betur göngustíginn til að auðvelda fólki að komast um.
Á leiðinni til baka upp á þjóðveg kíktum við á aðrar rústir sem eru alveg niðri við Seltjörnina. Þar hefur á skemmtilegan hátt verið útbúin aðstaða fyrir þá sem eru að veiða í vatninu. Virðast ekki gamlar framkvæmdir. Frumleg útfærsla á rústunum. Hins vegar er mjög sorglegt að sjá hvað eymd og aumingjaháttur getur birst víða því búið er að rústa öllu þar. Og spreða mannaskít. Eins og nokkur hafi áhuga á að sjá hvað legið hefur í görn slíkra drullusokka!
Þá var komið að fjallgöngu dagsins. Keyrðum sem leið lá framhjá Bláa lóninu og beygðum fljótlega til hægri útaf vegi og inná afleggjara upp á Þorbjarnarfell. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við göngum á hann en mörg ár eru liðin síðan síðast, sá eldri þá enn í burðarpoka. Gengum upp mjóan og illafarinn bílveg. Hann er lokaður allri umferð en uppi á Þorbirninum eru hin ýmsu möstur sem sennilega þurfa stundum viðhald.
Leiðin upp var brött en átakalaus. Bara sett í lága og þjösnast áfram. Norðanáttin var svolítið köld á móti okkur en bjart til suðurs. Þegar upp var komið kom þokumistur yfir og kólnaði frekar. Komum okkur í skjól og fengum okkur heitt og gott nesti. Merkilegt hvað brattar brekkur verða lítilfjörlegar þegar kakóið er komið í kroppinn.
Ákváðum að þræða lítið dalverpi vestan í fellinu niður á jafnsléttu. Þar má sjá ýmsar myndanir í hrauni og klettum. Hundurinn var í miklu stuði og hljóp 3 metra fyrir hvern einn sem við gengum.
Sólin tók á móti okkur þegar niður kom. Veðurspáin að rætast enda bjart allaleið heim og Esjan í vetrarskrúða.
Kveð að sinni
Rósa hérastubbur
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Bloggar | Sunnudagur, 4. febrúar 2007 (breytt 7.2.2007 kl. 20:10) | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju og velkomin í blogghóp þjóðarinnar. Hin fínasta síða og góð færsla hjá þér - hljóma ég ekki reynd?
Hlakka til að fylgjast með svo nú er að standa sig. Spurning hvort ég ætti að fara að sundblogga!
Inga Hanna
Inga Hanna og fjölskylda (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 19:00
Hjerastubburinn þakkar hlý orð frá gestum.
Síða þessi verður helguð útivist og áheitum um bætt heilsufar.
Sundblogg? Toppurinn!!!!
Rósa Jónsdóttir, 7.2.2007 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.