Loks er fóturinn ferðafær og því ekki til setunar boðið og lagt í hann. Til fylgilags fengum við með okkur fjölskylduna í Kríuásnum. Tvær flugur skyldu slegnar í einu höggi, fjallganga og eyðibýlaskoðun.
Keyrt var austur yfir Hellisheiði í skítaveðri, hríðarhraglanda og hvassviðri. Ekki beint veður til útivistar. Þar sem búið var að spá í öll möguleg og ómöguleg forrit veðurstofunnar var treyst á betra veður austur við Þingvallavatn. Sú speki rættist og þegar komið var framhjá veðravíti Hengilsins birti til og suðurlandsundirlendið blasti við. Í dag átti að ganga á Arnarfell við Þingvallavatn. Í bókinni góðu var fellinu lýst sem auðgengnu og lágu (110 m. hækkun). Enda eins gott því með í ferð voru stuttir fætur.
Við keyrðum sem leið lá í átt að Þingvöllum austan við vatnið og sáum hið dæilegasta fell rísa upp framundan. Samkvæmt lauslegum útreikningum var ákveðið að hér væri komið Arnarfellið sem um skamma hríð var heimkynni hreindýra (einhvern tímann á síðustu öld). Eitthvað fannst mér fellið öðruvísi en á kortinu hvað varðaði hæðalínur en kort eru nú ekki alltaf fullkomin! Afleggarinn fannst, bílum var lagt og gönguferðin hófst. Ákveðið var að svindla aðeins og gengið upp í lægðina á milli fellstoppanna í stað þess að fylgja því endilöngu. Upp á fjallið lá slóði og merkilegt að farartæki hafi komist þar upp, svo brött var brekkan á tímabili og mikið lausagrjót.
Þegar upp var komið blasti Þingvallavatn við og viti menn, Arnarfellið! Eftir miklar pælingar og kortaskoðanir komumst við að því að við höfðum sigrað mun hærra fell, Miðfellið....
Uppi á fellinu var hið hroðalegasta rok og skítkalt, kaldinn stóð stífur af vatninu. Við fórum aðra leið niður eða beint niður skriðurnar og þar komumst við í rjómalogn. Sá hluti gönguferðarinnar fór ekki eins mjúklega með skurðinn en það slapp til.
Eftir þessar villur keyrðum við sem leið lá að Gjábakka því þar átti að skoða og mynda eyðibýli. Þar stóð hins vegar ekki steinn yfir steini, búið að rífa allt nema snúrustaurana. Kuldinn og hungrið var farinn að segja til sín og því voru allir fegnir að setjast í skjól úti fyrir þjónustumiðstöðinni og fá sér heitt kakó og nesti. Hundurinn hljóp fleiri hringi í kringum húsið, glaður að vera laus þar sem ekki nokkur sála sá til hans í friðlandinu...
Heim keyrðum við eftir leiðsögukerfi sem Jón hafði verið með í sínum bíl. Það fór að langflestu leiti með rétt mál en endaði með okkur inni í botni götunnar. Eina skiptið sem það skeikaði. Mjög sniðugt fyrirbæri en mikið svakalega er konan þreytandi sem alltaf er að leiðbeina í gegnum öll hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu!
Ég kveð að sinni
Hjerastubbur
Flokkur: Ferðalög | Sunnudagur, 4. mars 2007 (breytt kl. 21:37) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.