Skarðsmýrarfjall

Hringur um Skarðsmýrarfjallið í Henglinum virkar nokkuð álitlegur göngutúr og var ég ákveðin í því að tæla Bjarna með mér í þann gjörning. Fagran júnídag tókst mér enn betur til og lokkaði synina líka með þeim orðum að þetta væri hinn þægilegasti göngutúr. Sem hann reyndar var, en hroðalega langur. Eftir klukkustund var þolinmæði Jóns Hákonar á þrotum og þá vorum við rétt búin að nesta okkur í Innstadal í rjómablíðu og fjallakyrrð. Síðan var gengið og gengið og gengið. Skoðaðir nokkrir eyðiskálar, mis mikið að hruni komnir, kíkt á rollur og fólk í fjallshlíðum Hengilsins. Þegar vestar dróg tóku við mikil mannvirki Orkuveitunnar og sennilega höfum við á einhverjum stöðum verið pinkupons  innan vinnusvæðis en við erum bara svo illa læs..... allavega til þess að komast hjá hræðilega löngum krók. Þegar skíðaskáli ÍR var skammt undan tók sá stutti skyndilega við sér, sá að hann var að lifa af 4 tíma gönguferð og hóf upp söngrödd sína sem ekki þagnaði það sem eftir lifði kvölds.

Hjerastubbur


Ratleikur Hafnarfjarðar

Gönguferðir eru allra meina bót og hef ég eins og undanfarin sumur lagst í Ratleik Hafnarfjarðarbæjar http://ratleikur.blog.is/blog/ratleikur/. Glettilega skemmtilegt fyrirbæri sem fær mann til að arka um ólíklegustu stíga og vegleysur í umdæmi Hafnarfjarðar. Það eru mörg ár síðan fjölskyldan tók ástfóstri við þennan leik en aldrei höfum við verið eins dugleg og í ár. Enda setti ég mér það markmið að ná öllum merkjunum. Góð aðferð til að hrista af sér mesta doðann og ná tökum á tilfinningunum.

Hjerastubbur


Minning um bróður

Haddi varð að lúta í lægra haldi þrátt fyrir mikinn baráttuvilja og lést 29. maí.

Sorg og mikil eftirsjá er einkennandi fyrir lífið dags daglega.

 Kaffi í Klausturselsheiði

Löngunin til að festa á blað gönguferðaafrek hvarf þar til nú.


Landið og miðin

Fjöll hafa verið gengin í sumar og er helsta afrekið í þeim efnum Þríhyrningsfjall sem staðsett er á norðaustur hluta landsins.  Á því fjalli hef ég komist hvað næst guðiHalo, knúin eigin vélarafli (tel flugferðir ekki með).  Herðubreið brosti í vestri, sjá mátti speglunina af fjölþjóðamannvirkinu við Kárahnjúka í suðri og skúr á leiðinni yfir Jökuldalsheiðina úr norðri.  Ég og hundurinn ein í heiminum fyrir utan að sjá mátti í fjarlægð einn og einn túrhest á hraðferð um öræfin.

Í þessari hringferð um landið sem endaði fyrir austan eins og æfinlega (þrátt fyrir plön um vestfjarðaferð), voru m.a. stórfjölskyldugönguferðir á Stóra-Dímon og upp að Systravatni við Klaustur. Staðir sem yfirleitt er keyrt hratt framhjá en eru stórmerkilegir þegar betur er að gáð. Útsýnið af Stóra-Dímon er mikið yfir héruð og þar hefur verið gott að fylgjast með mannaferðum á dögum Gunnars á Hlíðarenda. Í þeirri gönguferð komst ég loks að því hversvegna guð gaf okkur tærnar. Ég ákvað að ganga berfætt upp, enda mjúkt grasið undir. Brattinn er hins vegar allmikinn og til þess að renna ekki á rassinum niður brá ég á það neyðarráð að beita fyrir mig apalátum og gróf tærnar niður í svörðinn til að hægja á ferðinni. Merkilegt nokk, þetta virkar.

Í hringferðinni voru fjölmörg eyðibýli skoðuð, vítt og breitt um landið. Seyðisfjörður toppaði eyðibýlaáhugann en þá fékk drengurinn leiðsögn aldraðs heimamanns. Emil Emilsson pabbi Dags mágs sýndi þeim uppeldisslóðir sínar út með Seyðisfirði og sagði þeim fjölmargar sögur af lífinu sem lýsti upp eyðibýli og rústir dagsins í dag. Drengurinn var með stjörnur í augunum eftir þá ferð.Joyful

Norðausturströndin var þrædd, enda orðin fjölmörg ár síðan ég hef komið þar. Við komumst meir að segja fyrir Melrakkasléttuna í bongublíðu og fórum á nyrsta stað fastalandsins, á Hraunhafnartanga. Komumst að því að hann nær ekki heimsskautsbaugnum, hnitin staðfestu það. Enduðum það kvöld í Ásbyrgi. Þar hefur ýmislegt breyst á þeim árum sem hafa liðið síðan ég var þar síðast. Þá var enn hægt að tjalda inni í botni og tjaldstæðið yst var þá frekar óspennandi. En skógurinn hefur vaxið mikið, og tjaldstæðið er yndislegt. Verð að koma fljótlega aftur og eyða viku á svæðinu í gönguferðir.

Hjerastubbur


Lambafell (546 m.)

Ég þjáist af valkvíða.

Þegar ég ætla að fara í mína vikulegu fjallgöngu blasa við mér hólar og hæðir allt í kring og ég veit ekki hvað ég á að velja. Ég geri mitt besta til að fækka óklifnum fjöllum úr fjallabókinni og er lag til þess þegar vorar og sumrar. Ég held mínum gamla takti að fylgjast grant með veðurspám og eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum læt ég þær ráða miklu um tíma og stað. Gærdagurinn var með mun betri veðurspá en dagurinn í dag (mun heppilegra að skoða eyðiþorpið á Keflavíkurflugvelli í roki og rigningu). Ég fann mig knúna til að finna verðugt fjall til uppgöngu. Þá kom valkvíðinn klárlega í ljós. Meðan ég velti fyrir mér möguleikum fórum við og skoðuðum nýjasta vegahýsi Hrísrimabúa. Hið glæsilegasta hjólhýsi og óska ég þeim til hamingju með það. Um leið er ljóst að þau munu litla samleið eiga með okkur um vegi hálendisins og meir að segja held ég að úti séu þeir dagar sem “tjaldað” yrði með þeim á fremsthústúninu í Klausturseli. Það er hins vegar allt önnur saga.Lambafell

Þegar ljóst var að ekki fengist neinn með mér í gönguna nema hundurinn, ákvað ég að fara upp í Þrengsli og ganga á Lambafellið. Umfjöllun um það er í Bókinni. Lambafellið er eitt þeirra íslensku fjalla sem óðum minnka í þeim tilgangi að efla lífsgæði þjóðarinnar, þvílíkt er malarnámið úr fjallinu. Ég mæli með því að þeir sem ætla sér yfirleitt að ganga þarna upp að drífa sig, hóllinn minnkar daglega!

Í Bókinni tala höfundar um að ferðin upp sé hæg. Þeir eru hinar mestu fjallageitur og því furða að láta slíkt út úr sér, hélt ég. Hins vegar þegar á reyndi skildi ég þá mjög vel. Brattinn upp mosavaxna hlíðina var þvílíkur að ég stóð reglulega á öndinni.

Í fjallgöngum mínum eru fáar hugsanir sem sækja á mig fyrr en upp á topp er komið. Þær hugsanir sem komast að snúa eingöngu að mæðinni, þreytunni, hröðum hjartslætti og verkjum í fótum. Langleiðina upp skil ég ekkert í mér að vera að standa í þessari vitleysu, væri mun gæfulegra að bæla sófann heima hjá sér og horfa á heiladrepandi sápuóperur…… nei reyndar hafa hugsanir mínar ekki lagst alveg svona lágt!  

Sólin bakaði mig á leiðinni upp og gerði okkur Sám enn þyrstari en ella og svo þegar upp á brúnina náði tók við fj…. rokið af norðri.  Mér finnst ég alltaf vera í roki í þessum ferðum, reyndar veit ég að það er stórlega ýkt hjá mér, en samt – sennilega rok í hugarfarinu. Við stöldruðum við undir stórum steini og fengum okkur að drekka. Þvínæst sögðum við “Kára” stríð á hendur og héldum norður hrygginn og upp á topp.

Um leið og upp brekkurnar er komið er eins og ég hafi aldrei þurft að hafa fyrir neinu og þá komast aðrar hugsanir að. Eins og hugsanir um pabba og veikindi hans. Hann var búinn að vera lungnaveikur á annan áratug og hafði oft lent í andnauð í veikindum sínum. Ég man alltaf óttann sem greip hann við þær aðstæður og engin furða. Þessi tilfinning er hræðileg. Þegar lyfin dugðu ekki til að lina þetta ástand var hringt á lækni og á meðan beðið var var eingöngu hægt að halda utan um hann. Daginn sem hann lést vorum við í heimsókn hjá honum á hjartadeildinni. Hann lá þar inni til rannsókna og til að láta stilla af lyfin en hann var kominn með hjartabilunareinkenni út frá lungnasjúkdómnum.  Þegar við mamma vorum að fara frá honum í lok heimsóknatíma veiktist hann skyndilega alvarlega og missti fljótlega meðvitund. Það sem var öðruvísi í þetta skiptið var að hann var ekki lengur hræddur heldur vildi bara návistina. Þar sem ég hélt utan um hann gat ég ekki fengið af mér þá eigingirni að biðja hann um að hætta við þessa för sína því ég vissi að hann var búinn að líða nóg. Það var ró yfir honum þegar hann kvaddi saddur lífdaga.  Lítil jurt í urð og grjóti

Og Lambafellið, hið glæsilegasta útsýni af toppnum! 

Hjerastubburinn   


Helgafell Hafnfirðinga (340 m.)

Áfram er gengið – þó ég sé latari við að festa það niður á blað.

Föstudagurinn 10. maí var hreinræktaður dekurdagur/langþráður frídagur og sem slíkur nýttur til hins ýtrasta. Í hlýrri morgunsólinni var byrjað að haka við á listanum yfir það sem skyldi gert þann daginn – hélt einhver að ég ætlaði að slappa af????

Fyrst var Bjarni keyrður í morgunflug til Akureyrar en hann var á leið í viku útlegð í Kröflu. Að leita að meiri orku.

Að því loknu fór ég og kaus þar sem ég ætlaði mér ekki að vera í Firðinum á kosningadag. Morgunstund er góð því þá hefur ekki náðst að myndast röð á kjörstað. Atkvæðið mitt dugði til að hreyfa aðeins við steinrunnum tröllum sem of lengi hafa fengið að dingja sér í stjórnarráðinu, áðan kom langþráð tilkynning í fjölmiðlum um það.HelgafellWink

Þegar x-ið var komið á réttan stað var stormað af stað og í þetta sinn gengið á Helgafell Hafnfirðinga. Ekki í fyrsta sinn í áheitagöngu minni og örugglega ekki í það síðasta. Við Sámur vorum alein á öllu svæðinu og hef ég aldrei upplifað það áður, enda yfirleitt verið á ferð um helgar þegar fleiri nota sér fjallið til útivistar.

Helgafell er þægilegt uppgöngu nema kannski neðst í skriðunum. Svo þegar upp úr þeim er komið gengur maður á fínasta “malbiki” allaleið upp á topp. Á toppnum blasa við öll helstu fjöll suðvesturhornsins og gaman að staldra þar við og njóta í veðurblíðunni. Gestabókin er alltaf á sínum stað og skráð í hana. Ég hringdi austur og komst að því að Haddi var búinn að kjósa íhaldinu til sigurs á Austurlandi. Til hamingju með það Haddi minn.

RisessanEftir gönguna var haldið til höfuðborgarinnar með bílinn fullan af börnum en skvísan Arndís Embla kom með okkur að gera Risessunni skil. Við ókum og gengum um bæinn og skoðuðum ógnarverk risans föður hennar og enduðum svo uppi við Hallgrímskirkju til að fylgjast með þegar Risessan vaknaði af hádegisblundi sínum. Þessi sýning er mögnuð og ég verð að viðurkenna að ég fékk gæsahúð þegar hún reis upp og gekk af stað. Ótrúlegt listaverk, áhrifamikið og fallegt í góða veðrinu.  Hundurinn var hinsvegar ekki par hrifinn af  því að  mega ekki óáreittur nusa af henni og öllu fólkinu sem var á svæðinu.Fylgst með Risessunni

Listinn var hvergi nærri fullhakaður, og næst var ekið í loftinu inni í Hafnarfjörð til að sækja vin minn hann Tuma Thorberg af leikskólanum. Tók hann fagnandi á móti mér og tilkynnti leikskólakennurunum að ég ætti flottasta hund í heimi, ýmislegt sem hægt er að fá börnin til að segjaHalo. Hann fékk líka að passa Sám á meðan Jón Hákon spilaði á hornið sitt á tónleikum tónlistaskólans.Hornleikarinn

Morguninn eftir fyrir allar aldir var lagt í ferð á Snæfellsnes þar sem ég hafði ætlað mér að ganga á ein tvö fjöll. Óheyrileg leti greip mig hins vegar þegar á staðinn kom sem og kuldi því hvasst og kalt var í Hólminum. Í staðinn settist ég að í heita pottinum, með bókina Viltu vinna milljarð í hendi og fékkst ekki upp úr honum fyrr en komið var að því að halda heim á sunnudagskvöld. Fjöllin bíða betri tíma. Gluggaði aðeins á kosningaúrslit í Finnlandi og á Íslandi. Sofnaði glöð en fékk gallbragð í munninn þegar ég sá viðsnúninginn sem átt hafði sér stað meðan ég svaf.Crying

HraunsfjörðurÞó letin hefði yfirhöndina hvað varðaði fjallgöngur tók Könnuðurinn ekki annað í mál en að skoða eyðibýli. Við brugðum okkur því í smá eyðibýlaskoðanir á nesinu, þ.á.m. var Hraunfjörður heimsóttur. Takið eftir steypta baðinu í fjárhúsunum, fremst á myndinni. Samskonar baðker mátti lengi finna á fjárbúum en ofan í illalyktandi kaldan baðlög var fé dýft til að sporna við fjárkláða. Þess má geta að lyktin af Laphroig viskíinu sem honum Bjarna mínum þykir svo ósköp gott er ekki ósvipuðSick.

Magnað umhverfi í Hraunsfirðinum, hraun, há fjöll og vatn, sjá myndir hjá ljósmyndara fjölskyldunnar-tenging hérna hægra megin. 

Kveð að sinni

Hjerastubbur


Hraunin við Straumsvík

Fimmtudagskvöldið 3. maí tilkynnti unglingurinn mér það að kvöldganga á eyðibýlaslóðum virkaði mjög hvetjandi á heilasellur sem þyrftu að takast á við samræmt dönskupróf daginn eftir.

Ég steinlá fyrir þessum rökum og saman ókum við á mót lækkandi sól og lögðum við bílastæðið við Straum. Gengum um hraunin í guðdómlegu veðri og skoðuðum misgamlar minjar á svæðinu. Hann æddi út og suður með myndavélina meðan hundurinn æddi út og suður eftir eftir þefnæmu nefinu á sér. Ég kíkti á glugga Halo Á gægjum

Þetta svæði er gersemi sem ég er ekki viss um að margir viti af. Við náðum bara hluta af svæðinu þessa kvöldstund og munum svo sannarlega koma aftur.

Dönskuprófið gekk vel hjá níundabekkingnum.

Hjerastubburinn

  

Valaból

Annir hafa einkennt líf mitt undanfarið og toppnum náði tilveran um helgina þegar Ragna mágkona og hennar ofurheitt elskaði Halldór giftu sig í Hafnarfjarðarkirkju. BrúðkaupAthöfnin var mjög falleg og veislan á eftir geðveikt skemmtileg. Enda eins gott að allt tókst svona vel til, undirbúningurinn búinn að taka meira en ár! Það var lúið lið á öllum aldri sem lagðist seint til svefns að gleði lokinni.

Engar áætlanir um göngusvæði voru fyrir hendi "the day after" þannig að eftir huggulegheit á Markarflötinni lungann úr deginum fórum við Sigurður Ýmir í létta göngu inn í Valaból og umhverfis Valahnjúkana. Á meðan tefldi Jón Hákon skák á kjördæmamóti skólanna. Þeir félagar úr yngri deild Hauka riðu ekki feitum hesti frá þeirri atlögu enda hvaða orku hefur tíu ára í að stunda gleðskap frameftir nóttu og sitja svo í marga klukkutíma við skákborð daginn eftir? Allavega hafði Sigurður Ýmir ekki löngun til þess þó honum stæði það til boða.

Valahnjúkar

Við göngugarparnir hófum gönguna vestan við hnjúkana. Ekki var þar kjaft að sjá en þeim mun fleiri sáum við sniglast upp og niður Helgafellið. Gjóla var á svæðinu en sól. Gjólan sú hafði næstum því haft af tengdapabba golfið, en hann gaf sig ekki. Þeir feðgar fóru níu holur meðan við vorum í gönguferðinni.

Valaból er, fyrir þá sem ekki vita, gróðurvin norðan í Valahnjúkunum. Farfuglar hafa ræktað þetta svæði umhverfis Músarhelli. Valaból

Í hellinum á að vera gestabók en við fundum hana ekki í dag.

Hérastubbur


'Steininn' í hlíðum Þverfellshorns (695 m.)

1.maí var dagur verkalýðsins á þeim árum sem ég var að alast upp á Héraði, í ylnum af byltingarbáli Litlu Moskvu (Neskaupsstað). Síðan þá hefur fjarað undan verkalýðsbaráttu enda held ég að hér á landi sé gríðarlega öflug neðanjarðarstarfsemi sem hefur þann starfa að grafa undan bættum kjörum verkafólks til að hægt sé að byggja og bæta hjá þeim sem ríkari eru, fyrir sem minnstan pening. Allavega eru þeir hallærislegir sem mæla láglaunafólki of mikla bót og önnur lög þjóðfélagsins með frasa á takteinum s.s. að þeim sé nær að spara bara pínkulítið við sig, úr því að löngunin hneigist til þaks yfir höfuðið. Svo er annað vopn sem áróðursmeistarar gegn verkalýðsbaráttu hafa aflað sér en það er stórtækur innflutningur á erlendu farandverkafólki. Skyldu ræðurnar á 1. maí hafa verið túlkaðar yfir á mál útlendinganna til að þeir vissu hvaða rétt þeir ættu hér? Ég spyr, því ekki hef ég svarið, fullfirrt að mati einhverra og fór bara í fjallgöngu á Esjuna í stað þess að mæta í kröfugöngu.  Þusaði þó um verkalýðs(ó)mál hálfa leiðina upp hvort sem það hefur nú hjálpað einhverjum að fá fyrir salti í grautinn.Undecided

Inga Hanna átti heiðurinn að því að Esjan varð fyrir valinu og dagurinn var tekinn þokkalega snemma í ljósi þessarar sívinsælu veðurspá sem lofaði bara góðu fram að kröfugöngutímasetningu.  Hlaðin nesti til viku var strikið tekið upp á við. Mjög, mjög fljótlega varð kraftmikið strikið að tipli, þrjú skref og anda svo, þrjú skref og anda...... Sick  Mín ekki í góðu formi til gangs uppí móti, þrátt fyrir áhugann og gleðina af því að vera í útivistinni. Gríðarlegur fjöldi fólks á öllum aldri var á fjallinu. Sumir ofboðslega stuttfættir æddu fram úr mér!

Ég gaf mig ekki enda geri ég þetta fyrir mig og mín áheit og áskil mér þann rétt að fara á þeim hraða sem eykur líkurnar á því að ég komist það sem ég ætla mér. Bjarni hefði komist tvo hringi á þeim tíma sem tók mig að fara einn en hann er svo kurteis að segja það bara svo aðrir heyri ekki..... Honum fannst alveg agalegt að ég skyldi bera bakpokann og hvatti ég hann bara til að halda sig ögn frá þannig að ekki mætti telja svo að við þekktumst.... hann tók ekki því boði.

Við urðum viðskilja við Háteigsgengið við skilti 3 enda hásinin á frúnni ekki til þess gerð að fara lengra, það þarf nefnilega að komast niður aftur stórslysalaust.

Við héldum upp „réttu“ megin, þ.e. hinn eiginlega göngustíg sunnan við læk. Hin leiðin er mun brattari en trúi hver sem trúa skal að frekar tek ég á mig brattann en að klungrast þetta grjót sem einkennir göngustíginn áður en lagt er á fellið sjálft.

Móð og másandi náðum við Steini og héldum til baka vestan lækjar. 15 mínútum seinna var skollin þoka á Þverfellshornið og um tveim tímum seinna fauk hjólhýsi útaf á Kjalarnesinu! Merkilegt fyrir þær sakir að gönguferð okkar var í hinu huggulegasta veðri.

Svakalegar harðsperrur þjökuðu mig í þrjá daga eftir ferðina sem sýnir að ég hef reynt á mig í alvörunni.

 Esjan

Grænadyngja (402 m.)

Skólaskákmeistari Hafnarfjarðar yngri flokka 2007Skin og skúrir hafa einkennt vikuna.

Jón Hákon byrjaði á að toppa tilveruna með fullu húsi stiga á skólaskákmóti Hafnarfjarðar síðasta þriðjudag og landaði þar með bikar og fékk titilinn Hafnarfjarðarmeistari í skólaskák yngri flokka http://haukar.is/skak/index.php?frettid=1050. Brosti með öllu andlitinu, drengurinn sá. Stóri bróðir stoltur, hann tók líka á á þessu móti.

Á fimmtudagsmorguninn  lést Jóhanna móðursystir mín 82 ára að aldri. Lengst af ævinni átti hún heima á Húsavík ásamt honum Helga sínum. Það var alltaf ákaflega gott að sækja þau heim í Grafarbakka og sumarið okkar Bjarna á Húsavík vorum við þar eins og gráir kettir. Ég á eftir að sakna hennar mikið. Það var aldrei logn í kringum hana og ef ég var farin að fyllast firringu hversdagsins var nóg að heyra í henni eða heimsækja til að afruglast. Hún var ekki vön að skafa utan af skoðunum sínum, mikill mannvinur og réttlætismanneskja. Jóhanna og strákarnir sumarið 2005Kæra frænka, takk fyrir mig. Og ég sem ætlaði að koma til þín í jarðtengingu í sumar!

Veikindi Hadda setja mark sitt á hann og  tekur það mig sárt. Vegna alls þessa er ég búin að vera meyr í skapi og keyrði um þverbak í dag. Ég varð skyndilega viðþolslaus og varð að losa um spennu, enda tárin skammt undan. Hringdi neyðarhringingu í hann Bjarna minn og bað um lausn frá óheyrilega langri bið á Ármannsmóti í sundi sem fram fer í Laugardalslauginni þessa helgi. Jón Hákon keppir þar og sýndi hann þrautseigju í biðstöðunni, gemsar eru til margs nýtir. Bið eftir rástíma

Ég yfirgaf þá feðga og samdi við Sigurð Ými um að fylgja okkur Sámi í göngu á Grænudyngju. Ég var búin að miða hana út í gær og þrátt fyrir hífandi rok ákvað ég í óþökk við bóndann að halda mínu striki. Hann reiknaði allt eins með því að ég slasaði mig.

Sól skein glatt og vindar blésu þegar við keyrðum suðurúr. Rykmökkur lá yfir henni Reykjavík.

Grænadyngja er á Reykjanesskaganum eins og svo margt annað sem ég er búin að kanna í vetur. Liggur við hlið Trölladyngju, austan Keilis.  Þessar tvær dyngjur eru gjörálíkar á að sjá, og bera nöfn sín með rentu. Við lögðum á fjallið vestan megin, við veginn út að jarðhitasvæðinu. Hlýtt var í veðri en verulega sviptivindasamt. Mér fannst veðrið vera svolítið lýsandi fyrir tilfinningar mínar og ekkert við því að gera en að setja undir sig hausinn og takast á við Kára. Gangan upp mosann gekk vel en á þeim stöðum sem vindurinn náði sér virkilega á strik, mátti ég hafa mig alla við að halda hinum fjölmörgu kílóum á jörðinni. Á Grænudyngju

Upp á toppinn náðum við, bara rétt til að kíkja austur yfir öxlina því ekki var stætt þar uppi. Fukum niður hlíðina á mettíma, heilmiklu afslappaðri en fyrir uppgöngu.

Góðar stundir

Hjerastubbur

Veður: Skv. veðurkortum slógu kviðurnar á svæðinu í 20-25 metra/sek. af suðaustri. 10 stiga hiti.

  

Stóra-Reykjafell (540 m.)

Sumardagurinn fyrsti 2007 reis bjartur og fagur. Sem alþjóð veit var nóttin köld og veit það á gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman.

Eftir tilraunir til helstu skyldumætinga s.s. eins og að mæta í skrúðgöngu (við Jón Hákon misstum reyndar af henni vegna algjörs slóðaskapar en unglingurinn lék með lúðrasveitinni)  og á skemmtun á Thorsplani var smalað í fjallgöngu.

Nú skyldi ekkert gefið eftir með Stóra-Reykjafellið, jafnvel þó þar rynni eldur og brennisteinn.  Sem stundum áður urðu einhver afföll en synirnir og hundurinn létu til leiðast enda veður guðdómlegt. Já merkilegt nokk þá var sól og nánast logn á Hengilsvæðinu, svæði sem oftar en ekki má flokka undir veðravíti.

Við keyrðum austur að skíðaskála í Hveradölum og lögðum bílnum aðeins austan við skálann þar sem sjá má glytta í gamlan veg áleiðis upp fjallið. Gengum slóðina svo lengi sem hún entist en síðan tók við grjót og mosi upp á nokkra toppa. Smá snjór var í sköflum tvist og bast. Útsýni af Stóra-Reykjafellinu er mikið og fagurt í allar áttir. Á Stóra-ReykjafelliMeir að segja virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar eyðilagði það ekki, enda Bjarni minn stórtækur í þeim aðgerðumWhistling.

Gengum austur fjallshrygginn. Sáum þar skemmtilega tröllsmynd í klettabelti og fundum þar húsarústir. Umhverfis þær var hlaðinn grjótgarður, kannski 30x30m. Óljóst hver hefur búið þar upp á hjallanum, en ólýginn jarðfræðingur heldur því fram að þar hafi danskurinn átt heima fyrir meir en hálfri öld. Leiðrétting 22.apríl: betri heimildir kveða á um að í þessu húsi hafi aðrir búið en fyrrnefndur dani.

Ég er ekki vel að mér í nafngiftum lauta og dalverpa á þessu svæði, en eftir kortagrúsk á pappír og á netinu held ég að rústirnar standi efst í svokallaðri Flengingarbrekku. Skammt þar frá fundum við fornan skíðastökkpall hlaðinn úr grjóti! Skíðastökkpallur í HveradölumÞað voru miklar pælingar hvaða tilgangi þessar hleðslur hefðu gegnt en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að þar hafi átt að gera stökkpall. Virkar eins og því verki hafi aldrei verið lokið, en heimildir sem ég hef verið að skoða segja frá skíðastökkpalli á svæðinu hvort sem það var þessi eða einhver annar. Sumardagurinn fyrsti í HveradölumNiðri á jafnsléttu var sólbaðsveður, drengirnir og hundurinn dunduðu sér við að fella snjóloft á lækjarsprænum meðan ég naut andlegrar íhugunar. 

Þreytt og sæl enduðum við i í gómsætri kvöldmáltíð hjá Ingu og Degi þar sem belgurinn var troðinn út af jökuldælsku lambakjöti.

Á leiðinni heim úr borg óttans var kíkt á sögufrægar brunarústir í miðborg Reykjavíkur og sögufrægt strandskip við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.

Með sumarkveðju

Hjerastubbur


Undirhlíðahnjúkar (160 m.)

Suma daga stjórna veðurspár lífi mínu meir en aðra daga. Það er þá daga sem ég ætla að nota í útivist utan byggðar. Þegar helgarspáin þessa helgi var ígrunduð sá ég að skynsamlegast væri að ganga á fjall í dag, þá væri alla vega þokkalega lágt rakastig í loftinu.

Því hristi ég liðið snemma fram úr rúmi og eftir staðgóða næringu var nánast öllu testósteróni komið fyrir í tómstundum, þ.e. unglingurinn fór á bigband æfingu, barnið á sundæfingu og bóndinn í stórframkvæmdir í bílskúrnum.  Hundurinn fylgdi mér, nema hvað.

Þó ég sé búin að ganga oftar en einu sinni á Helgafell Hafnfirðinga fannst mér ekkert annað koma til greina í dag. Búið var að spá smá rigningu og roki og þó mig langi að reyna aftur við Stóra-Reykjafell þá þorði ég ekki á það svæði vegna mikillar ársmeðalúrkomu á svæðinu.

Semsé, Helgafellið skildi það vera. Keyrt var uppfyrir Kaldársel og lagt við stífluna, enda ekki lengra hægt að komast þó farartækið væri magnað. Búið að raða einni tylft af stórgrýti á gamla vegslóðann við Kaldána.  Upphafi göngu var seinkað um 15 mínútur (meðal seinkun á öllu flugi Flugleiða) vegna veðurútlits en í suðvestri reis hið hrikalegasta óveðursský sem æddi yfir okkur á stuttum tíma. Úrkoman var ekki mæld en hún var mikil, það má bóka hér og nú. Sámur skyldi ekki þessa töf á því að komast út og æddi ýlfrandi um bílinn, meðan ég lét fara vel um mig og hlustaði á upphaf hádegisfrétta. Skyndilega leyst mér miklu betur á að heilsa upp á Undirhlíðarnar og Undirhlíðahnjúkana (Kaldárselshnjúkar syðri). UndirhlíðarÞað var hvasst á svæðinu og hafði ég ekki geð í mér að vindþurrkast á Helgafellinu. Undirhlíðarnar liggja sunnan Helgafellsins og hæsti hnjúkurinn er um 160 metrar. Klifum við hann áfallalaust. Við gengum á móti storminum í suðvestur eftir endilöngum móbergshryggnum og til stóð að ganga í bakaleiðinni eftir skógræktarsvæðinu. Fyrir um þrem aldarfjórðungum hófst skógrækt á svæðinu er fyrstu barrtrjánum var plantað sumarið 1930*. Svæðið er mjög skemmtilegt til útivistar og tilvalið að fara þangað í lautartúr.

Gígaröð UndirhlíðarÍ austurhluta Undirhlíða bar nú við augu úfið hraun og gígar. Ég ákvað að skoða það betur og staulaðist niður hlíðina þeim megin. Mikill mosi er á svæðinu og sveið mig undan skemmdunum sem hvert skref mitt skildi eftir. Ýmsar myndir má sjá í hrauninu, en ekki er það nú létt yfirferðar. Mér þótti merkilegast að finna þetta fallega svæði sem sennilega kallast Bakhlíðar, svæði svo gjörólíkt því sem blasir við frá Kaldárseli.  Við gengum til baka leiðina á milli Undirhlíða og Helgafells, ein í heiminum.

Veðrið hékk þurrt það sem eftir lifði dags, en dagurinn var svo sannanlega ekki liðinn. Farið var niður í Ráðhús Reykjavíkur og hlustað á Stórsveitir landsins spila dásamlega tónlist. Básúnuleikari að loknu spiliUnglingurinn spilaði þar afro blue og smoke gets in your eyes á sína básúnu. Ef undanskildar eru endurnærandi gönguferðir þá verð ég að viðurkenna að góð músík er gulli betri og leið mér óskaplega vel í öllu þessu nótnaflæði.

Dagurinn lifði enn og eftir snarpar samningaviðræður var bíllinn fylltur atlandsolíubensíni og brunað í eyðibýlaskoðun á Vatnsleysuströndina. Krúsað var um helstu eyðibýli á svæðinu s.s. Flekkuvík  og Flekkuvík II, Sjónarhól, Ásláksstaði og Móakot. FlekkuvíkFlekkuvíkurbæirEitt býlið var brunnið yfir móðuna miklu, þ.e. Grænaborg. Við staðfestingu á þeirri heimild var farið í dýrindiskaffi á Minna-Knarrarnes.

Á leiðinni til baka var kíkt með öðru auganu á hrörleg hús í Hvassahrauninu en vígalegar girðingar og of mörg vitni drógu máttinn úr eyðibýlakönnuðum.

Get með góðri samvisku sofið út á morgun!

Góðar stundir.

Hérastubbur

Veðrið: 13-18 metrar/sek, 2-3 gráður (vedur.is)

*Heimildir um Undirhlíðar: Ratleikjakort Hafnarfjarðarbæjar 2006.

 

Heimasel - Heimaselshvammur Jökuldal - Síðbúin færsla

Helgina 31. mars -2 apríl var dvalið á Fljótsdalshéraði. Stórfrænka mín hún Guðrún Sól Guðrún Sólvar fermd og tókst vel til með þann gjörning. Fékk hún ritningarorð sem voru eitthvað á þá leið að hún ætti að vera fullkomin eins og jarðneskur faðir hennar eða var það kannski himneskur faðir?  WounderingW00tVeislan var haldin á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, http://www.ahreindyraslodum.is/ þar sem saman söfnuðust ættingjar og vinir fermingarbarnsins. Haddi bróðir þráði að mæta en þróttleysið og veikindin öftruðu honum frá því.

Að kvöldi fermingardags héldum við í heimsókn upp í Klaustursel og dvöldum þar yfir nótt. Vöknuðum snemma enda ýmislegt sem koma þurfti í verk þann daginn. Byrjuðum á búskapnum. Ljúft að komast aðeins í fjárhúsin og nusa af fénu og nýfæddum lömbum. Þar eru nú þegar fæddar tvær hvítar gimbrar.  

Ákváðum að því loknu að uppfylla þarfir unglingsins fyrir eyðibýli og keyrðum norður fyrir á og bönkuðum upp hjá Sillu á Hákonarstöðum. Okkur var meir en velkomið að labba niður í Heimasel sem  var nærtækasta eyðibýlið.

Á Heimaseli (Breiðalæk) átti heima hann Jónas Sigurgeirsson. Ljúfur karl sem bjó þar einn (utan 2 ár sem faðir hans var hjá honum) án útvarps, sjónvarps, síma, véla og konu frá 1937. Heimasel liggur norðan við Jöklu á móti Stuðlafossi en á Stuðlafossi voru beitarhús frá Klausturseli seinni ár. Ég man eftir því að sjá Jónas á vappi í kringum bæ sinn hinu megin ár, þegar við áttum leið í Stuðlafoss en ég kynntist honum ekki fyrr en hann kom til dvalar á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum þar sem ég starfaði í sumarafleysingum. Hann lést þar árið 1984. Í stað þess að fylgja vegslóðanum að Heimaseli, lögðum við bílnum á þjóðveginum nokkru ofar. Gönguleið okkar lá um hjalla sem þennan dag voru auðir af snjó og að mestu þurrir. Bærinn stendur á sléttri grund, ekki langt frá Jöklu sem heyra mátti belja fyrir neðan. Talandi um það, þá kom það mér verulega á óvart hversu lítið minni Jökla var frá síðasta sumri, miðað við eitt stykki Kárahnjúkavirkjun. Reyndar leysingar í gangi og hitinn fór vel yfir 10 gráðurnar. Heimasel JökuldalÁ Heimaseli standa hús ennþá en þó er íbúðarhúsið nokkuð hrörlegt. Má greina þar ýmsar minjar frá tíð Jónasar, s.s. eins og gamlar nótur frá KHB honum merktar. Lengi lifi kaupfélagið! 

Þegar búið var að skoða allt í þaula ákváðum við að skipta liði. Þeir piltar fóru aftur upp hjallana að bíl og ætluðu að mynda nokkra eyðibíla sem finna má á Hákonarstaðahólnum. Mig langaði meira til að ganga svolítið og rifja upp fáeinar minningar tengdar svæðinu. Ég gekk því gamla þjóðveginn í átt að Grund en hann liggur mun nær Jöklu en núverandi vegastæði. Gekk ég frá Heimaseli niður í Heimaselshvamm að Kringilsá. Stuðlafoss séður út um gluggann á HeimaseliHinum megin við Jöklu er Fossáin með sinn glæsilega Stuðlafoss, einnig má sjá túnin á Stuðlafossi (hét einnig Fossgerði), og innan við þau er Víðidalsáin. Það er einkennilegt að sjá þetta landslag "öfugu" megin ár. Þegar ég var krakki að flækjast um öll tún og grundir í Klausturseli og á Stuðlafossi, gangandi eða á traktor / bíl þá hafði ég ákveðin beyg af Jöklu. Ég var alin upp við það að Jökla tæki það sem hún næði tökum á og skilaði engu. Því bar ég ómælda virðingu fyrir henni og geri enn. Martraðir uppvaxtaráranna voru flestar á einn veg, þ.e. ég væri stödd á neðstu hjöllum við Jöklu og rynni af stað niður í ár. Vaknaði þá við að það vera að hrapa í ána. Nú eru mörg ár síðan mig hefur dreymt þetta en þegar ég gekk þarna í sólskininu rifjuðust upp þessar draumfarir enda blöstu neðstu hjallarnir við mér hinu megin við ána. Niðri í Heimaselshvamminum var dýrindisveður og lækir spruttu upp um allar koppagrundir. Ég komst ekki lengra en að Kringilsánni þar sem hún var í miklum vexti. Hún var reyndar ágætlega væð en mér fannst það of mikið mál og gekk frekar upp meðfram henni, upp að þjóðvegi. Þar komu að á svipuðum tíma mínir piltar og Alli bróðir að koma af beitarhúsum á Vaðbrekku.

Eftir velútilátna máltíð í Klausturseli var haldið í Egilsstaði og Haddi og fjölskylda heimsótt. ilmur af lambi

Síðan var flogið um loftin blá til Reykjavíkur.

Kveðjur

Hjerastubbur


Drottningarfell (507 m.) og Eldborg

Frábært páskafrí er að renna sitt skeið á enda. Þetta frí hefur fremur einkennst af mikilli samveru við vini og ættingja, mikilli hreyfingu og góðu veðri (allavega fyrrihluta frísins).

Mér fannst samt í morgun eins og ég ætti ennþá eftir að GANGA (ekki bara á gönguskíðum) á eitt fjall/fell/hól um þessa helgi. Við vorum þó búin að rölta upp að Gunnhildi (varðan ofan við Vífilsstaði) í gær í skítaveðri. Þar uppi er búið að setja útsýnisspjald með helstu kennileitum sem við sáum ekki vegna lélegs skyggnis. Það kom þó ekki að sök þar sem þessi leið hefur verið gengin oftar en tölu er á komandi og ekkert sem kom manni á óvart.

Skíðadagana frábæru á skírdag og föstudaginn langa uppgötvaði ég mér til gleði að álitlegt fell úr Bókinni var skammt frá Bláfjallaafleggjaranum þ.e. Stóra- Kóngsfell. Ég reyndi að lokka fjölskylduna með mér í fjallgönguna en nú var algjör sundrung ríkjandi hér á bæ. Einn ætlaði með afa sínum í golf til Þorlákshafnar (já golf um miðjan vetur!!!!), annar taldi sig þurfa að gera við bíl, klippa hekkið og annað smálegt í almennu viðhaldi, meðan sjá þriðji var með skotheldustu afsökunina. Jú hann langaði bara ekki.

Hundurinn hafði ekki val og keyrðum við í slabbi Hafnarfjarðarleiðina inn í Bláfjöll. Skammt frá skíðaskálunum má sjá bílastæði við merki sem á stendur ELDBORG. Þar hófum við gönguna. Eldborg við Bláfjöll

Eldborgin reyndist hin glæsilegasta og þess virði að skoða, eða eins og stendur í Bókinni "...afar glæsileg eldborg með djúpri hrauntröð.... frá sögulegum tíma".  Á milli Eldborgar og Stóra-Kóngsfells stendur minna fell sem heitir Drottningarfell eða bara Drottning. Þegar Eldborginni sleppti gengum við vestur fyrir Drottninguna í snjó. Hundurinn gjörsamlega missti sig í lausamjöllinni sem hefur fallið þarna síðustu dagana. Hljóp út og suður og kútveltist í snjónum af gleði. Snjórinn og drullan dró úr mér löngunina til að takast á við kónginn í þetta sinn en þess í stað gengum við hringinn í kringum drottninguna og enduðum á að klífa hana, þó þessi litli hóll væri ekki árennilegur. Það er ekkert launungarmál að ég er lofthrædd kona. Hef einnig ískyggilega ríkt ímyndunarafl og hef séð alltof mikið að stórslysamyndum til að geta gengið um íslenska náttúru án þess að velta fyrir mér hvað gæti nú gerst ef.....  Allavega, hvert skref upp sendi mig þrjú niður, svo laust var í hlíðinni. Þetta hafðist þó að lokum. Eftir útsýnisskoðun renndum við okkur fótskriðu niður (það leit allavega þannig út). Eldborg og Drottningarfell

Fyrstu en ekki síðustu él dagsins skullu á okkur um það leiti sem við náðum bílnum aftur.

Kveðja

Hjerastubbur 


Heiðartoppar (613 m.)

Ég heilsa að kvöldi lengsta föstudags ársins, freknótt og fótafúin!

Páskahátíðin er yfirleitt boðberi afslöppunar, enda frídagarnir nokkuð fastir í sessi og litlar kröfur gerðar á pakkaflóð eins og á hinni stórhátíð ársins.

Ýmsar pælingar voru um hvaða fjall skyldi sigrað í þessari atlögu. Helgafell Hafnfirðinga kom sterklega til greina sem og Esjan. Eftir mikilvægt símtal við Hrísrimann gleymdist allt um gönguskó en þess í stað var ákveðið að skella sér á skíði í Bláfjöll með vinum og vandamönnum. Jú í Bláfjöllum er nægur snjór og á meðan karlpeningurinn brá sér í brekkurnar liðkaði ég gönguskíðin.

Veðrið var stórkostlegt, logn og sólin sá svo sannanlega til þess að andlit skíðafólksins skipti alveg um lit. Ekki dugði einn dagur í þetta heldur var vaknað fyrir allar aldir í morgun til að endurtaka leik gærdagsins.

Ég bauð Sámi upp í dans og þáði hann að ganga með mér stóra hringinn tvo daga í röð en leiðin lá m.a. upp á Heiðartoppa og inn í Kerlingardal  (sjá kort af gönguskíðaleiðum inni á heimasíðu skíðasvæðanna www.skidasvaedi.is ).  Útsýnið var stórkostlegt og set ég hér inn mynd af Sámi hvíla lúin bein á toppnum.Sámur á Heiðartoppum

Harðfenni var og auðveldari það mjög gönguna, yfirleitt. Á leiðinni upp langar brekkur fékk ég nefnilega kvíðahnút í magann við tilhugsunina um það hvernig ég kæmist lifandi niður! Svo skelkuð  Frown var ég í gær yfir hraðanum að ég skellti mér barasta á rassinn..... og stoppaði að sjálfsögðu.Blush Í dag mátti enn sjá djúpt far í snjónum....

Í dag tókst mér að fljúga á hausinn í einni lítilli og sætri brekku og var því nokkuð strekkt yfir því sem koma skyldi á bakaleiðinni, þegar að löngu brekkunni kæmi. Á brekkubrún staldraði ég við, til að telja í mig kjark og ekki síður til að virða fyrir mér hvernig reyndara fólk komst niður án þess að fórna bæði lífi og limum. Ég ákvað að tileinka mér það sem ég sá og merkilegt nokk, nýja aðferðin svínvirkar en veldur reyndar gríðarlegu álagi á innan og utanlærisvöðva sem ekki hafa þurft að gera neitt síðan í púlinu hjá JSB þarna um árið.Sideways

Í skíðabrekkunum beið mín bóndinn með gleðisvip á andlitinu, hrikalega klár á skíðunum.W00tBjarniSigurður ÝmirJón Hákon

Það var örþreytt og hamingjusamt fólk sem skreið í hús eftir ógleymanlegan dag með yndislegu fólki.

Hjerastubbur kveður 


Níu holur - á pari!

Ég verð að taka aftur orð mín um heilsuleysi bóndans eftir skíðagönguna í gær. Stórlega ýktar fréttir.

Til að sanna það bauð hann mér að fara níu holur á golfvellinum í dag - hvað er dásamlegra en að renna eftir snæviþöktum brautum, í rjómablíðu og njóta friðar fjarri skarkala og mengun borgarinnar!

Með skíðakveðju

Hjerastubbur


Vífilsstaðahlíð (lítil og lág!)

Eitthvað gengur nú treglega að standa við stóru orðin með fjallgöngur um hverja helgi. Þegar stund gefst á milli stríða er ekki alltaf það veður sem ég óska mér til gönguferða.

Í dag höfðum við ætlað okkur að ganga á Stóra-Reykjafell á Hellisheiði og jafnvel ef allt færi að óskum að hafa gönguskíði með og ganga á þeim á Skálafell sem er sunnan vegar á Hellisheiði.

Eins og alþjóð veit, var ekki ferðaveður á fyrrnefnt svæði vegna hvassviðris, kulda og skafrennings.

Þá voru góð ráð dýr.  Ég fann fyrir vaxandi pirringi að geta ekki hreyft mig og var ekki sátt við þá uppástungu góðhjartaðs að njóta bara gluggaveðursins.

Snjóbretti og gönguskíði voru dregin fram, farið í ein fimmtán lög af flíkum og keyrt upp í Heiðmörk. Heiðmörkin hefur oft bjargað þegar veður eru válynd.

Við fórum á afleggjarann sem liggur upp í Grunnuvötn. Vegurinn var genginn upp (ca. 30 sinnum) og svo renndu drengirnir sér niður við mikinn fögnuð og læti hunds.

Ég ákvað hins vegar að fara í gönguferð ofan skógar og þvílíkt illviðri sem ég lenti í. Bálhvasst og ógeðslega kalt. Það rann stanslaust úr augum og nefi.

Til að toppa daginn skelltum við hjónin okkur á gönguskíði. Sú ferð varði ekki lengi, en nú var það ekki kuldinn sem dróg úr manni þrekið heldur erfiðið að halda sér uppréttum á þessum flekum. Bóndinn lagðist í rúmið eftir þær hremmingar.

Að lokum vona ég að þjóðin komist heilu og höldnu úr hinu íslenska vetrarveðri.

Hjerastubburinn


Miðfell við Þingvallavatn (322 m.)

Loks er fóturinn ferðafær og því ekki til setunar boðið og lagt í hann. Til fylgilags fengum við með okkur fjölskylduna í Kríuásnum. Tvær flugur skyldu slegnar í einu höggi, fjallganga og eyðibýlaskoðun.

Keyrt var austur yfir Hellisheiði í skítaveðri, hríðarhraglanda og hvassviðri. Ekki beint veður til útivistar. Þar sem búið var að spá í öll möguleg og ómöguleg forrit veðurstofunnar var treyst á betra veður austur við Þingvallavatn. Sú speki rættist og þegar komið var framhjá veðravíti Hengilsins birti til og suðurlandsundirlendið blasti við. Í dag átti að ganga á Arnarfell við Þingvallavatn. Í bókinni góðu var fellinu lýst sem auðgengnu og lágu (110 m. hækkun). Enda eins gott því með í ferð voru stuttir fætur.

Við keyrðum sem leið lá í átt að Þingvöllum austan við vatnið og sáum hið dæilegasta fell rísa upp framundan. Samkvæmt lauslegum útreikningum var ákveðið að hér væri komið Arnarfellið sem um skamma hríð var heimkynni hreindýra (einhvern tímann á síðustu öld). Eitthvað fannst mér fellið öðruvísi en á kortinu hvað varðaði hæðalínur en kort eru nú ekki alltaf fullkomin! Errm Afleggarinn fannst, bílum var lagt og gönguferðin hófst.  Ákveðið var að svindla aðeins og gengið upp í lægðina á milli fellstoppanna í stað þess að fylgja því endilöngu. Upp á fjallið lá slóði og merkilegt að farartæki hafi komist þar upp, svo brött var brekkan á tímabili og mikið lausagrjót.

Þegar upp var komið blasti Þingvallavatn við og viti menn, Arnarfellið! W00t  Eftir miklar pælingar og kortaskoðanir komumst við að því að við höfðum sigrað mun hærra fell, Miðfellið.... GrinLoL

Uppi á fellinu var hið hroðalegasta rok og skítkalt, kaldinn stóð stífur af vatninu. Við fórum aðra leið niður eða beint niður skriðurnar og þar komumst við í rjómalogn. Sá hluti gönguferðarinnar fór ekki eins mjúklega með skurðinn en það slapp til.

Eftir þessar „villur“ keyrðum við sem leið lá að Gjábakka því þar átti að skoða og mynda eyðibýli.  Þar stóð hins vegar ekki steinn yfir steini, búið að rífa allt nema snúrustaurana. Kuldinn og hungrið var farinn að segja til sín og því voru allir fegnir að setjast í skjól úti fyrir þjónustumiðstöðinni og fá sér heitt kakó og nesti. Hundurinn hljóp fleiri hringi í kringum húsið, glaður að vera laus þar sem ekki nokkur sála sá til hans í friðlandinu...Happy

Heim keyrðum við eftir leiðsögukerfi sem Jón hafði verið með í sínum bíl. Það fór að langflestu leiti með rétt mál en endaði með okkur inni í botni götunnar. Eina skiptið sem það skeikaði. Mjög sniðugt fyrirbæri en mikið svakalega er konan þreytandi sem alltaf er að leiðbeina í gegnum öll hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu!Sick

Ég kveð að sinni

Hjerastubbur


Haukadalsskógur

Góða kvöldið!

Stund er liðin síðan síðast. "Fjallgangan" sem gengin var síðast var um Haukadalsskóg. 9-12. febrúar dvöldum við í vellystingum í sumarbústað Íslenskra orkurannsókna, hinum rómaða og fyrnagóða Ossabæ. Milli pottferða og matarveisla var rölt í endurnærandi gönguferðir í frábæru vetrarveðri, kulda og sól.

Ein gönguferðanna var í lengra lagi, en þá var Haukadalsskógurinn lagður að velli. Á týpískum mánudagi þegar allir aðrir voru í vinnu eða skóla, tókum við til nesti og nýja skó, og keyrðum austur á bóginn. Framhjá noprandi útlendingum við Geysi og inn á skógræktarsvæði Haukdæla.

Lítill snjór hefur verið á Suðurlandi undanfarið, en eitthvað hafði nú safnast fyrir í skóginum. Það mikið að hópurinn þurfti aðeins að hafa fyrir göngunni. Rauði hringurinn (sá erfiðasti) var að sjálfsögðu tekinn. Fyrsti spölurinn upp meðfram gilinu reyndi á þolið og getuna, og skóbúnaðinn en Bjarni reyndist hafa farið af stað á sínum blankskóm og kvartaði sáran. Jón Hákon hinsvegar var hinn frískasti og taldi að við færum ekki nógu stóran hring, þetta hlyti að vera litli hringurinn fyrir þollausa og lata fólkið....  Móðirin neitaði að ganga á topp fjallsins fyrir ofan - Sandfellið, þar sem þar væri bara meiri hálka og snjór. Drengurinn sættist á þetta og setti hraðamet á rauða hringnum.

Skógurinn er mjög fallegur og skjólgóður. Enda kannski eins gott því þrátt fyrir sól beit kuldaboli hraustlega í kinnarnar. Merkingar í skóginum eru mjög góðar og ýmsan fróðleik þar að finna. Læt fylgja tvær slóðir inn á þetta svæði. http://www.geysircenter.com/islenska/haukadal.html og kort af svæðinu .... http://www.geysircenter.com/islenska/vicinity_map.html

Einhver bið verður á næstu fjallgöngu (og bloggfærslu) þar sem ég borgaði húðlækninum mínum henni Rögnu fyrir að gera mig ganglausa. Hún hreinsaði af mér fæðingarblett neðan á il og saumaði gatið aftur með 4 sporum!Sideways 

Hlakka til að komast í göngugírinn á ný.Cool

Góða nótt.

Hjerastubburinn

 

 


Þorbjarnarfell (243 m.)

Góðan og blessaðan daginn.

Við vorum búin að ræða ferð í Hvalfjörðinn eða á Þingvöll til að ganga á fjall/hól/hæð og skoða eyðibýli. "Fjalla"ferðirnar eru farnar að tengjast allmjög áhugamáli eldri sonarins, að skoða eyðibýli. Þegar litið var út um gluggann í morgun kom í ljós að veðurspá gærdagsins reyndist ekki rétt því úti fyrir snjóaði og snjóaði þessum fallega engla- jólasnjó. Þar sem Econoline drossía heimilisins er nú ekki of vel skóuð í mikla hálku var gripið í plan B.
Plan B leiddi okkur suður á bóginn, enn á ný. Byrjað var á að skoða yfirgefin hús suður við Grindavíkurafleggjara. Annað mun vera fyrrum kúabú, stæðilegasta hús en langt síðan nokkur kýr hefði treyst sér til að halda á sér hita þar. Skammt þarna frá má sjá ummerki mótorhjólabrautar og jafnvel paintball braut.

Við stoppuðum í sælureit skógræktarfélags Suðurnesjamanna, Sólbrekkuskógi. Gengur hringinn sem samkvæmt korti er einir 850 metrar. Það mætti að ósekju hreinsa betur göngustíginn til að auðvelda fólki að komast um.

Á leiðinni til baka upp á þjóðveg kíktum við á aðrar rústir sem eru alveg niðri við Seltjörnina. Þar hefur á skemmtilegan hátt verið útbúin aðstaða fyrir þá sem eru að veiða í vatninu. Virðast ekki gamlar framkvæmdir. Frumleg útfærsla á rústunum. Hins vegar er mjög sorglegt að sjá hvað eymd og aumingjaháttur getur birst víða því búið er að rústa öllu þar. Og spreða mannaskít. Eins og nokkur hafi áhuga á að sjá hvað legið hefur í görn slíkra drullusokka!

Þá var komið að fjallgöngu dagsins. Keyrðum sem leið lá framhjá Bláa lóninu og beygðum fljótlega til hægri útaf vegi og inná afleggjara upp á Þorbjarnarfell. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við göngum á hann en mörg ár eru liðin síðan síðast, sá eldri þá enn í burðarpoka. Gengum upp mjóan og illafarinn bílveg. Hann er lokaður allri umferð en uppi á Þorbirninum eru hin ýmsu möstur sem sennilega þurfa stundum viðhald.
Leiðin upp var brött en átakalaus. Bara sett í lága og þjösnast áfram. Norðanáttin var svolítið köld á móti okkur en bjart til suðurs. Þegar upp var komið kom þokumistur yfir og kólnaði frekar. Komum okkur í skjól og fengum okkur heitt og gott nesti. Merkilegt hvað brattar brekkur verða lítilfjörlegar þegar kakóið er komið í kroppinn.
Ákváðum að þræða lítið dalverpi vestan í fellinu niður á jafnsléttu. Þar má sjá ýmsar myndanir í hrauni og klettum. Hundurinn var í miklu stuði og hljóp 3 metra fyrir hvern einn sem við gengum.
Sólin tók á móti okkur þegar niður kom. Veðurspáin að rætast enda bjart allaleið heim og Esjan í vetrarskrúða.
Kveð að sinni
Rósa hérastubbur
 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband