Færsluflokkur: Ferðalög
Haddi varð að lúta í lægra haldi þrátt fyrir mikinn baráttuvilja og lést 29. maí.
Sorg og mikil eftirsjá er einkennandi fyrir lífið dags daglega.
Löngunin til að festa á blað gönguferðaafrek hvarf þar til nú.
Ferðalög | Mánudagur, 6. ágúst 2007 (breytt 9.8.2007 kl. 20:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjöll hafa verið gengin í sumar og er helsta afrekið í þeim efnum Þríhyrningsfjall sem staðsett er á norðaustur hluta landsins. Á því fjalli hef ég komist hvað næst guði, knúin eigin vélarafli (tel flugferðir ekki með). Herðubreið brosti í vestri, sjá mátti speglunina af fjölþjóðamannvirkinu við Kárahnjúka í suðri og skúr á leiðinni yfir Jökuldalsheiðina úr norðri. Ég og hundurinn ein í heiminum fyrir utan að sjá mátti í fjarlægð einn og einn túrhest á hraðferð um öræfin.
Í þessari hringferð um landið sem endaði fyrir austan eins og æfinlega (þrátt fyrir plön um vestfjarðaferð), voru m.a. stórfjölskyldugönguferðir á Stóra-Dímon og upp að Systravatni við Klaustur. Staðir sem yfirleitt er keyrt hratt framhjá en eru stórmerkilegir þegar betur er að gáð. Útsýnið af Stóra-Dímon er mikið yfir héruð og þar hefur verið gott að fylgjast með mannaferðum á dögum Gunnars á Hlíðarenda. Í þeirri gönguferð komst ég loks að því hversvegna guð gaf okkur tærnar. Ég ákvað að ganga berfætt upp, enda mjúkt grasið undir. Brattinn er hins vegar allmikinn og til þess að renna ekki á rassinum niður brá ég á það neyðarráð að beita fyrir mig apalátum og gróf tærnar niður í svörðinn til að hægja á ferðinni. Merkilegt nokk, þetta virkar.
Í hringferðinni voru fjölmörg eyðibýli skoðuð, vítt og breitt um landið. Seyðisfjörður toppaði eyðibýlaáhugann en þá fékk drengurinn leiðsögn aldraðs heimamanns. Emil Emilsson pabbi Dags mágs sýndi þeim uppeldisslóðir sínar út með Seyðisfirði og sagði þeim fjölmargar sögur af lífinu sem lýsti upp eyðibýli og rústir dagsins í dag. Drengurinn var með stjörnur í augunum eftir þá ferð.
Norðausturströndin var þrædd, enda orðin fjölmörg ár síðan ég hef komið þar. Við komumst meir að segja fyrir Melrakkasléttuna í bongublíðu og fórum á nyrsta stað fastalandsins, á Hraunhafnartanga. Komumst að því að hann nær ekki heimsskautsbaugnum, hnitin staðfestu það. Enduðum það kvöld í Ásbyrgi. Þar hefur ýmislegt breyst á þeim árum sem hafa liðið síðan ég var þar síðast. Þá var enn hægt að tjalda inni í botni og tjaldstæðið yst var þá frekar óspennandi. En skógurinn hefur vaxið mikið, og tjaldstæðið er yndislegt. Verð að koma fljótlega aftur og eyða viku á svæðinu í gönguferðir.
Hjerastubbur
Ferðalög | Mánudagur, 6. ágúst 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég þjáist af valkvíða.
Þegar ég ætla að fara í mína vikulegu fjallgöngu blasa við mér hólar og hæðir allt í kring og ég veit ekki hvað ég á að velja. Ég geri mitt besta til að fækka óklifnum fjöllum úr fjallabókinni og er lag til þess þegar vorar og sumrar. Ég held mínum gamla takti að fylgjast grant með veðurspám og eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum læt ég þær ráða miklu um tíma og stað. Gærdagurinn var með mun betri veðurspá en dagurinn í dag (mun heppilegra að skoða eyðiþorpið á Keflavíkurflugvelli í roki og rigningu). Ég fann mig knúna til að finna verðugt fjall til uppgöngu. Þá kom valkvíðinn klárlega í ljós. Meðan ég velti fyrir mér möguleikum fórum við og skoðuðum nýjasta vegahýsi Hrísrimabúa. Hið glæsilegasta hjólhýsi og óska ég þeim til hamingju með það. Um leið er ljóst að þau munu litla samleið eiga með okkur um vegi hálendisins og meir að segja held ég að úti séu þeir dagar sem tjaldað yrði með þeim á fremsthústúninu í Klausturseli. Það er hins vegar allt önnur saga.
Þegar ljóst var að ekki fengist neinn með mér í gönguna nema hundurinn, ákvað ég að fara upp í Þrengsli og ganga á Lambafellið. Umfjöllun um það er í Bókinni. Lambafellið er eitt þeirra íslensku fjalla sem óðum minnka í þeim tilgangi að efla lífsgæði þjóðarinnar, þvílíkt er malarnámið úr fjallinu. Ég mæli með því að þeir sem ætla sér yfirleitt að ganga þarna upp að drífa sig, hóllinn minnkar daglega!
Í Bókinni tala höfundar um að ferðin upp sé hæg. Þeir eru hinar mestu fjallageitur og því furða að láta slíkt út úr sér, hélt ég. Hins vegar þegar á reyndi skildi ég þá mjög vel. Brattinn upp mosavaxna hlíðina var þvílíkur að ég stóð reglulega á öndinni.
Í fjallgöngum mínum eru fáar hugsanir sem sækja á mig fyrr en upp á topp er komið. Þær hugsanir sem komast að snúa eingöngu að mæðinni, þreytunni, hröðum hjartslætti og verkjum í fótum. Langleiðina upp skil ég ekkert í mér að vera að standa í þessari vitleysu, væri mun gæfulegra að bæla sófann heima hjá sér og horfa á heiladrepandi sápuóperur nei reyndar hafa hugsanir mínar ekki lagst alveg svona lágt!
Sólin bakaði mig á leiðinni upp og gerði okkur Sám enn þyrstari en ella og svo þegar upp á brúnina náði tók við fj . rokið af norðri. Mér finnst ég alltaf vera í roki í þessum ferðum, reyndar veit ég að það er stórlega ýkt hjá mér, en samt sennilega rok í hugarfarinu. Við stöldruðum við undir stórum steini og fengum okkur að drekka. Þvínæst sögðum við Kára stríð á hendur og héldum norður hrygginn og upp á topp.
Um leið og upp brekkurnar er komið er eins og ég hafi aldrei þurft að hafa fyrir neinu og þá komast aðrar hugsanir að. Eins og hugsanir um pabba og veikindi hans. Hann var búinn að vera lungnaveikur á annan áratug og hafði oft lent í andnauð í veikindum sínum. Ég man alltaf óttann sem greip hann við þær aðstæður og engin furða. Þessi tilfinning er hræðileg. Þegar lyfin dugðu ekki til að lina þetta ástand var hringt á lækni og á meðan beðið var var eingöngu hægt að halda utan um hann. Daginn sem hann lést vorum við í heimsókn hjá honum á hjartadeildinni. Hann lá þar inni til rannsókna og til að láta stilla af lyfin en hann var kominn með hjartabilunareinkenni út frá lungnasjúkdómnum. Þegar við mamma vorum að fara frá honum í lok heimsóknatíma veiktist hann skyndilega alvarlega og missti fljótlega meðvitund. Það sem var öðruvísi í þetta skiptið var að hann var ekki lengur hræddur heldur vildi bara návistina. Þar sem ég hélt utan um hann gat ég ekki fengið af mér þá eigingirni að biðja hann um að hætta við þessa för sína því ég vissi að hann var búinn að líða nóg. Það var ró yfir honum þegar hann kvaddi saddur lífdaga.
Og Lambafellið, hið glæsilegasta útsýni af toppnum!
Hjerastubburinn
Ferðalög | Sunnudagur, 20. maí 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagurinn 10. maí var hreinræktaður dekurdagur/langþráður frídagur og sem slíkur nýttur til hins ýtrasta. Í hlýrri morgunsólinni var byrjað að haka við á listanum yfir það sem skyldi gert þann daginn hélt einhver að ég ætlaði að slappa af????
Fyrst var Bjarni keyrður í morgunflug til Akureyrar en hann var á leið í viku útlegð í Kröflu. Að leita að meiri orku.
Að því loknu fór ég og kaus þar sem ég ætlaði mér ekki að vera í Firðinum á kosningadag. Morgunstund er góð því þá hefur ekki náðst að myndast röð á kjörstað. Atkvæðið mitt dugði til að hreyfa aðeins við steinrunnum tröllum sem of lengi hafa fengið að dingja sér í stjórnarráðinu, áðan kom langþráð tilkynning í fjölmiðlum um það.
Þegar x-ið var komið á réttan stað var stormað af stað og í þetta sinn gengið á Helgafell Hafnfirðinga. Ekki í fyrsta sinn í áheitagöngu minni og örugglega ekki í það síðasta. Við Sámur vorum alein á öllu svæðinu og hef ég aldrei upplifað það áður, enda yfirleitt verið á ferð um helgar þegar fleiri nota sér fjallið til útivistar.
Helgafell er þægilegt uppgöngu nema kannski neðst í skriðunum. Svo þegar upp úr þeim er komið gengur maður á fínasta malbiki allaleið upp á topp. Á toppnum blasa við öll helstu fjöll suðvesturhornsins og gaman að staldra þar við og njóta í veðurblíðunni. Gestabókin er alltaf á sínum stað og skráð í hana. Ég hringdi austur og komst að því að Haddi var búinn að kjósa íhaldinu til sigurs á Austurlandi. Til hamingju með það Haddi minn.
Eftir gönguna var haldið til höfuðborgarinnar með bílinn fullan af börnum en skvísan Arndís Embla kom með okkur að gera Risessunni skil. Við ókum og gengum um bæinn og skoðuðum ógnarverk risans föður hennar og enduðum svo uppi við Hallgrímskirkju til að fylgjast með þegar Risessan vaknaði af hádegisblundi sínum. Þessi sýning er mögnuð og ég verð að viðurkenna að ég fékk gæsahúð þegar hún reis upp og gekk af stað. Ótrúlegt listaverk, áhrifamikið og fallegt í góða veðrinu. Hundurinn var hinsvegar ekki par hrifinn af því að mega ekki óáreittur nusa af henni og öllu fólkinu sem var á svæðinu.
Listinn var hvergi nærri fullhakaður, og næst var ekið í loftinu inni í Hafnarfjörð til að sækja vin minn hann Tuma Thorberg af leikskólanum. Tók hann fagnandi á móti mér og tilkynnti leikskólakennurunum að ég ætti flottasta hund í heimi, ýmislegt sem hægt er að fá börnin til að segja. Hann fékk líka að passa Sám á meðan Jón Hákon spilaði á hornið sitt á tónleikum tónlistaskólans.
Morguninn eftir fyrir allar aldir var lagt í ferð á Snæfellsnes þar sem ég hafði ætlað mér að ganga á ein tvö fjöll. Óheyrileg leti greip mig hins vegar þegar á staðinn kom sem og kuldi því hvasst og kalt var í Hólminum. Í staðinn settist ég að í heita pottinum, með bókina Viltu vinna milljarð í hendi og fékkst ekki upp úr honum fyrr en komið var að því að halda heim á sunnudagskvöld. Fjöllin bíða betri tíma. Gluggaði aðeins á kosningaúrslit í Finnlandi og á Íslandi. Sofnaði glöð en fékk gallbragð í munninn þegar ég sá viðsnúninginn sem átt hafði sér stað meðan ég svaf.
Þó letin hefði yfirhöndina hvað varðaði fjallgöngur tók Könnuðurinn ekki annað í mál en að skoða eyðibýli. Við brugðum okkur því í smá eyðibýlaskoðanir á nesinu, þ.á.m. var Hraunfjörður heimsóttur. Takið eftir steypta baðinu í fjárhúsunum, fremst á myndinni. Samskonar baðker mátti lengi finna á fjárbúum en ofan í illalyktandi kaldan baðlög var fé dýft til að sporna við fjárkláða. Þess má geta að lyktin af Laphroig viskíinu sem honum Bjarna mínum þykir svo ósköp gott er ekki ósvipuð.
Magnað umhverfi í Hraunsfirðinum, hraun, há fjöll og vatn, sjá myndir hjá ljósmyndara fjölskyldunnar-tenging hérna hægra megin.
Kveð að sinni
Hjerastubbur
Ferðalög | Fimmtudagur, 17. maí 2007 (breytt kl. 17:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagskvöldið 3. maí tilkynnti unglingurinn mér það að kvöldganga á eyðibýlaslóðum virkaði mjög hvetjandi á heilasellur sem þyrftu að takast á við samræmt dönskupróf daginn eftir.
Ég steinlá fyrir þessum rökum og saman ókum við á mót lækkandi sól og lögðum við bílastæðið við Straum. Gengum um hraunin í guðdómlegu veðri og skoðuðum misgamlar minjar á svæðinu. Hann æddi út og suður með myndavélina meðan hundurinn æddi út og suður eftir eftir þefnæmu nefinu á sér. Ég kíkti á glugga
Þetta svæði er gersemi sem ég er ekki viss um að margir viti af. Við náðum bara hluta af svæðinu þessa kvöldstund og munum svo sannarlega koma aftur.
Dönskuprófið gekk vel hjá níundabekkingnum.
Hjerastubburinn
Ferðalög | Þriðjudagur, 8. maí 2007 (breytt 17.5.2007 kl. 17:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annir hafa einkennt líf mitt undanfarið og toppnum náði tilveran um helgina þegar Ragna mágkona og hennar ofurheitt elskaði Halldór giftu sig í Hafnarfjarðarkirkju. Athöfnin var mjög falleg og veislan á eftir geðveikt skemmtileg. Enda eins gott að allt tókst svona vel til, undirbúningurinn búinn að taka meira en ár! Það var lúið lið á öllum aldri sem lagðist seint til svefns að gleði lokinni.
Engar áætlanir um göngusvæði voru fyrir hendi "the day after" þannig að eftir huggulegheit á Markarflötinni lungann úr deginum fórum við Sigurður Ýmir í létta göngu inn í Valaból og umhverfis Valahnjúkana. Á meðan tefldi Jón Hákon skák á kjördæmamóti skólanna. Þeir félagar úr yngri deild Hauka riðu ekki feitum hesti frá þeirri atlögu enda hvaða orku hefur tíu ára í að stunda gleðskap frameftir nóttu og sitja svo í marga klukkutíma við skákborð daginn eftir? Allavega hafði Sigurður Ýmir ekki löngun til þess þó honum stæði það til boða.
Við göngugarparnir hófum gönguna vestan við hnjúkana. Ekki var þar kjaft að sjá en þeim mun fleiri sáum við sniglast upp og niður Helgafellið. Gjóla var á svæðinu en sól. Gjólan sú hafði næstum því haft af tengdapabba golfið, en hann gaf sig ekki. Þeir feðgar fóru níu holur meðan við vorum í gönguferðinni.
Valaból er, fyrir þá sem ekki vita, gróðurvin norðan í Valahnjúkunum. Farfuglar hafa ræktað þetta svæði umhverfis Músarhelli.
Í hellinum á að vera gestabók en við fundum hana ekki í dag.
Hérastubbur
Ferðalög | Þriðjudagur, 8. maí 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.maí var dagur verkalýðsins á þeim árum sem ég var að alast upp á Héraði, í ylnum af byltingarbáli Litlu Moskvu (Neskaupsstað). Síðan þá hefur fjarað undan verkalýðsbaráttu enda held ég að hér á landi sé gríðarlega öflug neðanjarðarstarfsemi sem hefur þann starfa að grafa undan bættum kjörum verkafólks til að hægt sé að byggja og bæta hjá þeim sem ríkari eru, fyrir sem minnstan pening. Allavega eru þeir hallærislegir sem mæla láglaunafólki of mikla bót og önnur lög þjóðfélagsins með frasa á takteinum s.s. að þeim sé nær að spara bara pínkulítið við sig, úr því að löngunin hneigist til þaks yfir höfuðið. Svo er annað vopn sem áróðursmeistarar gegn verkalýðsbaráttu hafa aflað sér en það er stórtækur innflutningur á erlendu farandverkafólki. Skyldu ræðurnar á 1. maí hafa verið túlkaðar yfir á mál útlendinganna til að þeir vissu hvaða rétt þeir ættu hér? Ég spyr, því ekki hef ég svarið, fullfirrt að mati einhverra og fór bara í fjallgöngu á Esjuna í stað þess að mæta í kröfugöngu. Þusaði þó um verkalýðs(ó)mál hálfa leiðina upp hvort sem það hefur nú hjálpað einhverjum að fá fyrir salti í grautinn.
Inga Hanna átti heiðurinn að því að Esjan varð fyrir valinu og dagurinn var tekinn þokkalega snemma í ljósi þessarar sívinsælu veðurspá sem lofaði bara góðu fram að kröfugöngutímasetningu. Hlaðin nesti til viku var strikið tekið upp á við. Mjög, mjög fljótlega varð kraftmikið strikið að tipli, þrjú skref og anda svo, þrjú skref og anda...... Mín ekki í góðu formi til gangs uppí móti, þrátt fyrir áhugann og gleðina af því að vera í útivistinni. Gríðarlegur fjöldi fólks á öllum aldri var á fjallinu. Sumir ofboðslega stuttfættir æddu fram úr mér!
Ég gaf mig ekki enda geri ég þetta fyrir mig og mín áheit og áskil mér þann rétt að fara á þeim hraða sem eykur líkurnar á því að ég komist það sem ég ætla mér. Bjarni hefði komist tvo hringi á þeim tíma sem tók mig að fara einn en hann er svo kurteis að segja það bara svo aðrir heyri ekki..... Honum fannst alveg agalegt að ég skyldi bera bakpokann og hvatti ég hann bara til að halda sig ögn frá þannig að ekki mætti telja svo að við þekktumst.... hann tók ekki því boði.
Við urðum viðskilja við Háteigsgengið við skilti 3 enda hásinin á frúnni ekki til þess gerð að fara lengra, það þarf nefnilega að komast niður aftur stórslysalaust.
Við héldum upp réttu megin, þ.e. hinn eiginlega göngustíg sunnan við læk. Hin leiðin er mun brattari en trúi hver sem trúa skal að frekar tek ég á mig brattann en að klungrast þetta grjót sem einkennir göngustíginn áður en lagt er á fellið sjálft.
Móð og másandi náðum við Steini og héldum til baka vestan lækjar. 15 mínútum seinna var skollin þoka á Þverfellshornið og um tveim tímum seinna fauk hjólhýsi útaf á Kjalarnesinu! Merkilegt fyrir þær sakir að gönguferð okkar var í hinu huggulegasta veðri.
Svakalegar harðsperrur þjökuðu mig í þrjá daga eftir ferðina sem sýnir að ég hef reynt á mig í alvörunni.
Ferðalög | Sunnudagur, 6. maí 2007 (breytt kl. 22:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skin og skúrir hafa einkennt vikuna.
Jón Hákon byrjaði á að toppa tilveruna með fullu húsi stiga á skólaskákmóti Hafnarfjarðar síðasta þriðjudag og landaði þar með bikar og fékk titilinn Hafnarfjarðarmeistari í skólaskák yngri flokka http://haukar.is/skak/index.php?frettid=1050. Brosti með öllu andlitinu, drengurinn sá. Stóri bróðir stoltur, hann tók líka á á þessu móti.
Á fimmtudagsmorguninn lést Jóhanna móðursystir mín 82 ára að aldri. Lengst af ævinni átti hún heima á Húsavík ásamt honum Helga sínum. Það var alltaf ákaflega gott að sækja þau heim í Grafarbakka og sumarið okkar Bjarna á Húsavík vorum við þar eins og gráir kettir. Ég á eftir að sakna hennar mikið. Það var aldrei logn í kringum hana og ef ég var farin að fyllast firringu hversdagsins var nóg að heyra í henni eða heimsækja til að afruglast. Hún var ekki vön að skafa utan af skoðunum sínum, mikill mannvinur og réttlætismanneskja. Kæra frænka, takk fyrir mig. Og ég sem ætlaði að koma til þín í jarðtengingu í sumar!
Veikindi Hadda setja mark sitt á hann og tekur það mig sárt. Vegna alls þessa er ég búin að vera meyr í skapi og keyrði um þverbak í dag. Ég varð skyndilega viðþolslaus og varð að losa um spennu, enda tárin skammt undan. Hringdi neyðarhringingu í hann Bjarna minn og bað um lausn frá óheyrilega langri bið á Ármannsmóti í sundi sem fram fer í Laugardalslauginni þessa helgi. Jón Hákon keppir þar og sýndi hann þrautseigju í biðstöðunni, gemsar eru til margs nýtir.
Ég yfirgaf þá feðga og samdi við Sigurð Ými um að fylgja okkur Sámi í göngu á Grænudyngju. Ég var búin að miða hana út í gær og þrátt fyrir hífandi rok ákvað ég í óþökk við bóndann að halda mínu striki. Hann reiknaði allt eins með því að ég slasaði mig.
Sól skein glatt og vindar blésu þegar við keyrðum suðurúr. Rykmökkur lá yfir henni Reykjavík.
Grænadyngja er á Reykjanesskaganum eins og svo margt annað sem ég er búin að kanna í vetur. Liggur við hlið Trölladyngju, austan Keilis. Þessar tvær dyngjur eru gjörálíkar á að sjá, og bera nöfn sín með rentu. Við lögðum á fjallið vestan megin, við veginn út að jarðhitasvæðinu. Hlýtt var í veðri en verulega sviptivindasamt. Mér fannst veðrið vera svolítið lýsandi fyrir tilfinningar mínar og ekkert við því að gera en að setja undir sig hausinn og takast á við Kára. Gangan upp mosann gekk vel en á þeim stöðum sem vindurinn náði sér virkilega á strik, mátti ég hafa mig alla við að halda hinum fjölmörgu kílóum á jörðinni.
Upp á toppinn náðum við, bara rétt til að kíkja austur yfir öxlina því ekki var stætt þar uppi. Fukum niður hlíðina á mettíma, heilmiklu afslappaðri en fyrir uppgöngu.
Góðar stundir
Hjerastubbur
Veður: Skv. veðurkortum slógu kviðurnar á svæðinu í 20-25 metra/sek. af suðaustri. 10 stiga hiti.
Ferðalög | Laugardagur, 28. apríl 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sumardagurinn fyrsti 2007 reis bjartur og fagur. Sem alþjóð veit var nóttin köld og veit það á gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman.
Eftir tilraunir til helstu skyldumætinga s.s. eins og að mæta í skrúðgöngu (við Jón Hákon misstum reyndar af henni vegna algjörs slóðaskapar en unglingurinn lék með lúðrasveitinni) og á skemmtun á Thorsplani var smalað í fjallgöngu.
Nú skyldi ekkert gefið eftir með Stóra-Reykjafellið, jafnvel þó þar rynni eldur og brennisteinn. Sem stundum áður urðu einhver afföll en synirnir og hundurinn létu til leiðast enda veður guðdómlegt. Já merkilegt nokk þá var sól og nánast logn á Hengilsvæðinu, svæði sem oftar en ekki má flokka undir veðravíti.
Við keyrðum austur að skíðaskála í Hveradölum og lögðum bílnum aðeins austan við skálann þar sem sjá má glytta í gamlan veg áleiðis upp fjallið. Gengum slóðina svo lengi sem hún entist en síðan tók við grjót og mosi upp á nokkra toppa. Smá snjór var í sköflum tvist og bast. Útsýni af Stóra-Reykjafellinu er mikið og fagurt í allar áttir. Meir að segja virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar eyðilagði það ekki, enda Bjarni minn stórtækur í þeim aðgerðum.
Gengum austur fjallshrygginn. Sáum þar skemmtilega tröllsmynd í klettabelti og fundum þar húsarústir. Umhverfis þær var hlaðinn grjótgarður, kannski 30x30m. Óljóst hver hefur búið þar upp á hjallanum, en ólýginn jarðfræðingur heldur því fram að þar hafi danskurinn átt heima fyrir meir en hálfri öld. Leiðrétting 22.apríl: betri heimildir kveða á um að í þessu húsi hafi aðrir búið en fyrrnefndur dani.
Ég er ekki vel að mér í nafngiftum lauta og dalverpa á þessu svæði, en eftir kortagrúsk á pappír og á netinu held ég að rústirnar standi efst í svokallaðri Flengingarbrekku. Skammt þar frá fundum við fornan skíðastökkpall hlaðinn úr grjóti! Það voru miklar pælingar hvaða tilgangi þessar hleðslur hefðu gegnt en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að þar hafi átt að gera stökkpall. Virkar eins og því verki hafi aldrei verið lokið, en heimildir sem ég hef verið að skoða segja frá skíðastökkpalli á svæðinu hvort sem það var þessi eða einhver annar. Niðri á jafnsléttu var sólbaðsveður, drengirnir og hundurinn dunduðu sér við að fella snjóloft á lækjarsprænum meðan ég naut andlegrar íhugunar.
Þreytt og sæl enduðum við i í gómsætri kvöldmáltíð hjá Ingu og Degi þar sem belgurinn var troðinn út af jökuldælsku lambakjöti.
Á leiðinni heim úr borg óttans var kíkt á sögufrægar brunarústir í miðborg Reykjavíkur og sögufrægt strandskip við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.
Með sumarkveðju
Hjerastubbur
Ferðalög | Laugardagur, 21. apríl 2007 (breytt 22.4.2007 kl. 20:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Suma daga stjórna veðurspár lífi mínu meir en aðra daga. Það er þá daga sem ég ætla að nota í útivist utan byggðar. Þegar helgarspáin þessa helgi var ígrunduð sá ég að skynsamlegast væri að ganga á fjall í dag, þá væri alla vega þokkalega lágt rakastig í loftinu.
Því hristi ég liðið snemma fram úr rúmi og eftir staðgóða næringu var nánast öllu testósteróni komið fyrir í tómstundum, þ.e. unglingurinn fór á bigband æfingu, barnið á sundæfingu og bóndinn í stórframkvæmdir í bílskúrnum. Hundurinn fylgdi mér, nema hvað.
Þó ég sé búin að ganga oftar en einu sinni á Helgafell Hafnfirðinga fannst mér ekkert annað koma til greina í dag. Búið var að spá smá rigningu og roki og þó mig langi að reyna aftur við Stóra-Reykjafell þá þorði ég ekki á það svæði vegna mikillar ársmeðalúrkomu á svæðinu.
Semsé, Helgafellið skildi það vera. Keyrt var uppfyrir Kaldársel og lagt við stífluna, enda ekki lengra hægt að komast þó farartækið væri magnað. Búið að raða einni tylft af stórgrýti á gamla vegslóðann við Kaldána. Upphafi göngu var seinkað um 15 mínútur (meðal seinkun á öllu flugi Flugleiða) vegna veðurútlits en í suðvestri reis hið hrikalegasta óveðursský sem æddi yfir okkur á stuttum tíma. Úrkoman var ekki mæld en hún var mikil, það má bóka hér og nú. Sámur skyldi ekki þessa töf á því að komast út og æddi ýlfrandi um bílinn, meðan ég lét fara vel um mig og hlustaði á upphaf hádegisfrétta. Skyndilega leyst mér miklu betur á að heilsa upp á Undirhlíðarnar og Undirhlíðahnjúkana (Kaldárselshnjúkar syðri). Það var hvasst á svæðinu og hafði ég ekki geð í mér að vindþurrkast á Helgafellinu. Undirhlíðarnar liggja sunnan Helgafellsins og hæsti hnjúkurinn er um 160 metrar. Klifum við hann áfallalaust. Við gengum á móti storminum í suðvestur eftir endilöngum móbergshryggnum og til stóð að ganga í bakaleiðinni eftir skógræktarsvæðinu. Fyrir um þrem aldarfjórðungum hófst skógrækt á svæðinu er fyrstu barrtrjánum var plantað sumarið 1930*. Svæðið er mjög skemmtilegt til útivistar og tilvalið að fara þangað í lautartúr.
Í austurhluta Undirhlíða bar nú við augu úfið hraun og gígar. Ég ákvað að skoða það betur og staulaðist niður hlíðina þeim megin. Mikill mosi er á svæðinu og sveið mig undan skemmdunum sem hvert skref mitt skildi eftir. Ýmsar myndir má sjá í hrauninu, en ekki er það nú létt yfirferðar. Mér þótti merkilegast að finna þetta fallega svæði sem sennilega kallast Bakhlíðar, svæði svo gjörólíkt því sem blasir við frá Kaldárseli. Við gengum til baka leiðina á milli Undirhlíða og Helgafells, ein í heiminum.
Veðrið hékk þurrt það sem eftir lifði dags, en dagurinn var svo sannanlega ekki liðinn. Farið var niður í Ráðhús Reykjavíkur og hlustað á Stórsveitir landsins spila dásamlega tónlist. Unglingurinn spilaði þar afro blue og smoke gets in your eyes á sína básúnu. Ef undanskildar eru endurnærandi gönguferðir þá verð ég að viðurkenna að góð músík er gulli betri og leið mér óskaplega vel í öllu þessu nótnaflæði.
Dagurinn lifði enn og eftir snarpar samningaviðræður var bíllinn fylltur atlandsolíubensíni og brunað í eyðibýlaskoðun á Vatnsleysuströndina. Krúsað var um helstu eyðibýli á svæðinu s.s. Flekkuvík og Flekkuvík II, Sjónarhól, Ásláksstaði og Móakot. Eitt býlið var brunnið yfir móðuna miklu, þ.e. Grænaborg. Við staðfestingu á þeirri heimild var farið í dýrindiskaffi á Minna-Knarrarnes.
Á leiðinni til baka var kíkt með öðru auganu á hrörleg hús í Hvassahrauninu en vígalegar girðingar og of mörg vitni drógu máttinn úr eyðibýlakönnuðum.
Get með góðri samvisku sofið út á morgun!
Góðar stundir.
Hérastubbur
Veðrið: 13-18 metrar/sek, 2-3 gráður (vedur.is)
*Heimildir um Undirhlíðar: Ratleikjakort Hafnarfjarðarbæjar 2006.
Ferðalög | Laugardagur, 14. apríl 2007 (breytt 15.4.2007 kl. 20:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)