Færsluflokkur: Ferðalög

Heimasel - Heimaselshvammur Jökuldal - Síðbúin færsla

Helgina 31. mars -2 apríl var dvalið á Fljótsdalshéraði. Stórfrænka mín hún Guðrún Sól Guðrún Sólvar fermd og tókst vel til með þann gjörning. Fékk hún ritningarorð sem voru eitthvað á þá leið að hún ætti að vera fullkomin eins og jarðneskur faðir hennar eða var það kannski himneskur faðir?  WounderingW00tVeislan var haldin á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, http://www.ahreindyraslodum.is/ þar sem saman söfnuðust ættingjar og vinir fermingarbarnsins. Haddi bróðir þráði að mæta en þróttleysið og veikindin öftruðu honum frá því.

Að kvöldi fermingardags héldum við í heimsókn upp í Klaustursel og dvöldum þar yfir nótt. Vöknuðum snemma enda ýmislegt sem koma þurfti í verk þann daginn. Byrjuðum á búskapnum. Ljúft að komast aðeins í fjárhúsin og nusa af fénu og nýfæddum lömbum. Þar eru nú þegar fæddar tvær hvítar gimbrar.  

Ákváðum að því loknu að uppfylla þarfir unglingsins fyrir eyðibýli og keyrðum norður fyrir á og bönkuðum upp hjá Sillu á Hákonarstöðum. Okkur var meir en velkomið að labba niður í Heimasel sem  var nærtækasta eyðibýlið.

Á Heimaseli (Breiðalæk) átti heima hann Jónas Sigurgeirsson. Ljúfur karl sem bjó þar einn (utan 2 ár sem faðir hans var hjá honum) án útvarps, sjónvarps, síma, véla og konu frá 1937. Heimasel liggur norðan við Jöklu á móti Stuðlafossi en á Stuðlafossi voru beitarhús frá Klausturseli seinni ár. Ég man eftir því að sjá Jónas á vappi í kringum bæ sinn hinu megin ár, þegar við áttum leið í Stuðlafoss en ég kynntist honum ekki fyrr en hann kom til dvalar á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum þar sem ég starfaði í sumarafleysingum. Hann lést þar árið 1984. Í stað þess að fylgja vegslóðanum að Heimaseli, lögðum við bílnum á þjóðveginum nokkru ofar. Gönguleið okkar lá um hjalla sem þennan dag voru auðir af snjó og að mestu þurrir. Bærinn stendur á sléttri grund, ekki langt frá Jöklu sem heyra mátti belja fyrir neðan. Talandi um það, þá kom það mér verulega á óvart hversu lítið minni Jökla var frá síðasta sumri, miðað við eitt stykki Kárahnjúkavirkjun. Reyndar leysingar í gangi og hitinn fór vel yfir 10 gráðurnar. Heimasel JökuldalÁ Heimaseli standa hús ennþá en þó er íbúðarhúsið nokkuð hrörlegt. Má greina þar ýmsar minjar frá tíð Jónasar, s.s. eins og gamlar nótur frá KHB honum merktar. Lengi lifi kaupfélagið! 

Þegar búið var að skoða allt í þaula ákváðum við að skipta liði. Þeir piltar fóru aftur upp hjallana að bíl og ætluðu að mynda nokkra eyðibíla sem finna má á Hákonarstaðahólnum. Mig langaði meira til að ganga svolítið og rifja upp fáeinar minningar tengdar svæðinu. Ég gekk því gamla þjóðveginn í átt að Grund en hann liggur mun nær Jöklu en núverandi vegastæði. Gekk ég frá Heimaseli niður í Heimaselshvamm að Kringilsá. Stuðlafoss séður út um gluggann á HeimaseliHinum megin við Jöklu er Fossáin með sinn glæsilega Stuðlafoss, einnig má sjá túnin á Stuðlafossi (hét einnig Fossgerði), og innan við þau er Víðidalsáin. Það er einkennilegt að sjá þetta landslag "öfugu" megin ár. Þegar ég var krakki að flækjast um öll tún og grundir í Klausturseli og á Stuðlafossi, gangandi eða á traktor / bíl þá hafði ég ákveðin beyg af Jöklu. Ég var alin upp við það að Jökla tæki það sem hún næði tökum á og skilaði engu. Því bar ég ómælda virðingu fyrir henni og geri enn. Martraðir uppvaxtaráranna voru flestar á einn veg, þ.e. ég væri stödd á neðstu hjöllum við Jöklu og rynni af stað niður í ár. Vaknaði þá við að það vera að hrapa í ána. Nú eru mörg ár síðan mig hefur dreymt þetta en þegar ég gekk þarna í sólskininu rifjuðust upp þessar draumfarir enda blöstu neðstu hjallarnir við mér hinu megin við ána. Niðri í Heimaselshvamminum var dýrindisveður og lækir spruttu upp um allar koppagrundir. Ég komst ekki lengra en að Kringilsánni þar sem hún var í miklum vexti. Hún var reyndar ágætlega væð en mér fannst það of mikið mál og gekk frekar upp meðfram henni, upp að þjóðvegi. Þar komu að á svipuðum tíma mínir piltar og Alli bróðir að koma af beitarhúsum á Vaðbrekku.

Eftir velútilátna máltíð í Klausturseli var haldið í Egilsstaði og Haddi og fjölskylda heimsótt. ilmur af lambi

Síðan var flogið um loftin blá til Reykjavíkur.

Kveðjur

Hjerastubbur


Drottningarfell (507 m.) og Eldborg

Frábært páskafrí er að renna sitt skeið á enda. Þetta frí hefur fremur einkennst af mikilli samveru við vini og ættingja, mikilli hreyfingu og góðu veðri (allavega fyrrihluta frísins).

Mér fannst samt í morgun eins og ég ætti ennþá eftir að GANGA (ekki bara á gönguskíðum) á eitt fjall/fell/hól um þessa helgi. Við vorum þó búin að rölta upp að Gunnhildi (varðan ofan við Vífilsstaði) í gær í skítaveðri. Þar uppi er búið að setja útsýnisspjald með helstu kennileitum sem við sáum ekki vegna lélegs skyggnis. Það kom þó ekki að sök þar sem þessi leið hefur verið gengin oftar en tölu er á komandi og ekkert sem kom manni á óvart.

Skíðadagana frábæru á skírdag og föstudaginn langa uppgötvaði ég mér til gleði að álitlegt fell úr Bókinni var skammt frá Bláfjallaafleggjaranum þ.e. Stóra- Kóngsfell. Ég reyndi að lokka fjölskylduna með mér í fjallgönguna en nú var algjör sundrung ríkjandi hér á bæ. Einn ætlaði með afa sínum í golf til Þorlákshafnar (já golf um miðjan vetur!!!!), annar taldi sig þurfa að gera við bíl, klippa hekkið og annað smálegt í almennu viðhaldi, meðan sjá þriðji var með skotheldustu afsökunina. Jú hann langaði bara ekki.

Hundurinn hafði ekki val og keyrðum við í slabbi Hafnarfjarðarleiðina inn í Bláfjöll. Skammt frá skíðaskálunum má sjá bílastæði við merki sem á stendur ELDBORG. Þar hófum við gönguna. Eldborg við Bláfjöll

Eldborgin reyndist hin glæsilegasta og þess virði að skoða, eða eins og stendur í Bókinni "...afar glæsileg eldborg með djúpri hrauntröð.... frá sögulegum tíma".  Á milli Eldborgar og Stóra-Kóngsfells stendur minna fell sem heitir Drottningarfell eða bara Drottning. Þegar Eldborginni sleppti gengum við vestur fyrir Drottninguna í snjó. Hundurinn gjörsamlega missti sig í lausamjöllinni sem hefur fallið þarna síðustu dagana. Hljóp út og suður og kútveltist í snjónum af gleði. Snjórinn og drullan dró úr mér löngunina til að takast á við kónginn í þetta sinn en þess í stað gengum við hringinn í kringum drottninguna og enduðum á að klífa hana, þó þessi litli hóll væri ekki árennilegur. Það er ekkert launungarmál að ég er lofthrædd kona. Hef einnig ískyggilega ríkt ímyndunarafl og hef séð alltof mikið að stórslysamyndum til að geta gengið um íslenska náttúru án þess að velta fyrir mér hvað gæti nú gerst ef.....  Allavega, hvert skref upp sendi mig þrjú niður, svo laust var í hlíðinni. Þetta hafðist þó að lokum. Eftir útsýnisskoðun renndum við okkur fótskriðu niður (það leit allavega þannig út). Eldborg og Drottningarfell

Fyrstu en ekki síðustu él dagsins skullu á okkur um það leiti sem við náðum bílnum aftur.

Kveðja

Hjerastubbur 


Heiðartoppar (613 m.)

Ég heilsa að kvöldi lengsta föstudags ársins, freknótt og fótafúin!

Páskahátíðin er yfirleitt boðberi afslöppunar, enda frídagarnir nokkuð fastir í sessi og litlar kröfur gerðar á pakkaflóð eins og á hinni stórhátíð ársins.

Ýmsar pælingar voru um hvaða fjall skyldi sigrað í þessari atlögu. Helgafell Hafnfirðinga kom sterklega til greina sem og Esjan. Eftir mikilvægt símtal við Hrísrimann gleymdist allt um gönguskó en þess í stað var ákveðið að skella sér á skíði í Bláfjöll með vinum og vandamönnum. Jú í Bláfjöllum er nægur snjór og á meðan karlpeningurinn brá sér í brekkurnar liðkaði ég gönguskíðin.

Veðrið var stórkostlegt, logn og sólin sá svo sannanlega til þess að andlit skíðafólksins skipti alveg um lit. Ekki dugði einn dagur í þetta heldur var vaknað fyrir allar aldir í morgun til að endurtaka leik gærdagsins.

Ég bauð Sámi upp í dans og þáði hann að ganga með mér stóra hringinn tvo daga í röð en leiðin lá m.a. upp á Heiðartoppa og inn í Kerlingardal  (sjá kort af gönguskíðaleiðum inni á heimasíðu skíðasvæðanna www.skidasvaedi.is ).  Útsýnið var stórkostlegt og set ég hér inn mynd af Sámi hvíla lúin bein á toppnum.Sámur á Heiðartoppum

Harðfenni var og auðveldari það mjög gönguna, yfirleitt. Á leiðinni upp langar brekkur fékk ég nefnilega kvíðahnút í magann við tilhugsunina um það hvernig ég kæmist lifandi niður! Svo skelkuð  Frown var ég í gær yfir hraðanum að ég skellti mér barasta á rassinn..... og stoppaði að sjálfsögðu.Blush Í dag mátti enn sjá djúpt far í snjónum....

Í dag tókst mér að fljúga á hausinn í einni lítilli og sætri brekku og var því nokkuð strekkt yfir því sem koma skyldi á bakaleiðinni, þegar að löngu brekkunni kæmi. Á brekkubrún staldraði ég við, til að telja í mig kjark og ekki síður til að virða fyrir mér hvernig reyndara fólk komst niður án þess að fórna bæði lífi og limum. Ég ákvað að tileinka mér það sem ég sá og merkilegt nokk, nýja aðferðin svínvirkar en veldur reyndar gríðarlegu álagi á innan og utanlærisvöðva sem ekki hafa þurft að gera neitt síðan í púlinu hjá JSB þarna um árið.Sideways

Í skíðabrekkunum beið mín bóndinn með gleðisvip á andlitinu, hrikalega klár á skíðunum.W00tBjarniSigurður ÝmirJón Hákon

Það var örþreytt og hamingjusamt fólk sem skreið í hús eftir ógleymanlegan dag með yndislegu fólki.

Hjerastubbur kveður 


Níu holur - á pari!

Ég verð að taka aftur orð mín um heilsuleysi bóndans eftir skíðagönguna í gær. Stórlega ýktar fréttir.

Til að sanna það bauð hann mér að fara níu holur á golfvellinum í dag - hvað er dásamlegra en að renna eftir snæviþöktum brautum, í rjómablíðu og njóta friðar fjarri skarkala og mengun borgarinnar!

Með skíðakveðju

Hjerastubbur


Vífilsstaðahlíð (lítil og lág!)

Eitthvað gengur nú treglega að standa við stóru orðin með fjallgöngur um hverja helgi. Þegar stund gefst á milli stríða er ekki alltaf það veður sem ég óska mér til gönguferða.

Í dag höfðum við ætlað okkur að ganga á Stóra-Reykjafell á Hellisheiði og jafnvel ef allt færi að óskum að hafa gönguskíði með og ganga á þeim á Skálafell sem er sunnan vegar á Hellisheiði.

Eins og alþjóð veit, var ekki ferðaveður á fyrrnefnt svæði vegna hvassviðris, kulda og skafrennings.

Þá voru góð ráð dýr.  Ég fann fyrir vaxandi pirringi að geta ekki hreyft mig og var ekki sátt við þá uppástungu góðhjartaðs að njóta bara gluggaveðursins.

Snjóbretti og gönguskíði voru dregin fram, farið í ein fimmtán lög af flíkum og keyrt upp í Heiðmörk. Heiðmörkin hefur oft bjargað þegar veður eru válynd.

Við fórum á afleggjarann sem liggur upp í Grunnuvötn. Vegurinn var genginn upp (ca. 30 sinnum) og svo renndu drengirnir sér niður við mikinn fögnuð og læti hunds.

Ég ákvað hins vegar að fara í gönguferð ofan skógar og þvílíkt illviðri sem ég lenti í. Bálhvasst og ógeðslega kalt. Það rann stanslaust úr augum og nefi.

Til að toppa daginn skelltum við hjónin okkur á gönguskíði. Sú ferð varði ekki lengi, en nú var það ekki kuldinn sem dróg úr manni þrekið heldur erfiðið að halda sér uppréttum á þessum flekum. Bóndinn lagðist í rúmið eftir þær hremmingar.

Að lokum vona ég að þjóðin komist heilu og höldnu úr hinu íslenska vetrarveðri.

Hjerastubburinn


Miðfell við Þingvallavatn (322 m.)

Loks er fóturinn ferðafær og því ekki til setunar boðið og lagt í hann. Til fylgilags fengum við með okkur fjölskylduna í Kríuásnum. Tvær flugur skyldu slegnar í einu höggi, fjallganga og eyðibýlaskoðun.

Keyrt var austur yfir Hellisheiði í skítaveðri, hríðarhraglanda og hvassviðri. Ekki beint veður til útivistar. Þar sem búið var að spá í öll möguleg og ómöguleg forrit veðurstofunnar var treyst á betra veður austur við Þingvallavatn. Sú speki rættist og þegar komið var framhjá veðravíti Hengilsins birti til og suðurlandsundirlendið blasti við. Í dag átti að ganga á Arnarfell við Þingvallavatn. Í bókinni góðu var fellinu lýst sem auðgengnu og lágu (110 m. hækkun). Enda eins gott því með í ferð voru stuttir fætur.

Við keyrðum sem leið lá í átt að Þingvöllum austan við vatnið og sáum hið dæilegasta fell rísa upp framundan. Samkvæmt lauslegum útreikningum var ákveðið að hér væri komið Arnarfellið sem um skamma hríð var heimkynni hreindýra (einhvern tímann á síðustu öld). Eitthvað fannst mér fellið öðruvísi en á kortinu hvað varðaði hæðalínur en kort eru nú ekki alltaf fullkomin! Errm Afleggarinn fannst, bílum var lagt og gönguferðin hófst.  Ákveðið var að svindla aðeins og gengið upp í lægðina á milli fellstoppanna í stað þess að fylgja því endilöngu. Upp á fjallið lá slóði og merkilegt að farartæki hafi komist þar upp, svo brött var brekkan á tímabili og mikið lausagrjót.

Þegar upp var komið blasti Þingvallavatn við og viti menn, Arnarfellið! W00t  Eftir miklar pælingar og kortaskoðanir komumst við að því að við höfðum sigrað mun hærra fell, Miðfellið.... GrinLoL

Uppi á fellinu var hið hroðalegasta rok og skítkalt, kaldinn stóð stífur af vatninu. Við fórum aðra leið niður eða beint niður skriðurnar og þar komumst við í rjómalogn. Sá hluti gönguferðarinnar fór ekki eins mjúklega með skurðinn en það slapp til.

Eftir þessar „villur“ keyrðum við sem leið lá að Gjábakka því þar átti að skoða og mynda eyðibýli.  Þar stóð hins vegar ekki steinn yfir steini, búið að rífa allt nema snúrustaurana. Kuldinn og hungrið var farinn að segja til sín og því voru allir fegnir að setjast í skjól úti fyrir þjónustumiðstöðinni og fá sér heitt kakó og nesti. Hundurinn hljóp fleiri hringi í kringum húsið, glaður að vera laus þar sem ekki nokkur sála sá til hans í friðlandinu...Happy

Heim keyrðum við eftir leiðsögukerfi sem Jón hafði verið með í sínum bíl. Það fór að langflestu leiti með rétt mál en endaði með okkur inni í botni götunnar. Eina skiptið sem það skeikaði. Mjög sniðugt fyrirbæri en mikið svakalega er konan þreytandi sem alltaf er að leiðbeina í gegnum öll hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu!Sick

Ég kveð að sinni

Hjerastubbur


Haukadalsskógur

Góða kvöldið!

Stund er liðin síðan síðast. "Fjallgangan" sem gengin var síðast var um Haukadalsskóg. 9-12. febrúar dvöldum við í vellystingum í sumarbústað Íslenskra orkurannsókna, hinum rómaða og fyrnagóða Ossabæ. Milli pottferða og matarveisla var rölt í endurnærandi gönguferðir í frábæru vetrarveðri, kulda og sól.

Ein gönguferðanna var í lengra lagi, en þá var Haukadalsskógurinn lagður að velli. Á týpískum mánudagi þegar allir aðrir voru í vinnu eða skóla, tókum við til nesti og nýja skó, og keyrðum austur á bóginn. Framhjá noprandi útlendingum við Geysi og inn á skógræktarsvæði Haukdæla.

Lítill snjór hefur verið á Suðurlandi undanfarið, en eitthvað hafði nú safnast fyrir í skóginum. Það mikið að hópurinn þurfti aðeins að hafa fyrir göngunni. Rauði hringurinn (sá erfiðasti) var að sjálfsögðu tekinn. Fyrsti spölurinn upp meðfram gilinu reyndi á þolið og getuna, og skóbúnaðinn en Bjarni reyndist hafa farið af stað á sínum blankskóm og kvartaði sáran. Jón Hákon hinsvegar var hinn frískasti og taldi að við færum ekki nógu stóran hring, þetta hlyti að vera litli hringurinn fyrir þollausa og lata fólkið....  Móðirin neitaði að ganga á topp fjallsins fyrir ofan - Sandfellið, þar sem þar væri bara meiri hálka og snjór. Drengurinn sættist á þetta og setti hraðamet á rauða hringnum.

Skógurinn er mjög fallegur og skjólgóður. Enda kannski eins gott því þrátt fyrir sól beit kuldaboli hraustlega í kinnarnar. Merkingar í skóginum eru mjög góðar og ýmsan fróðleik þar að finna. Læt fylgja tvær slóðir inn á þetta svæði. http://www.geysircenter.com/islenska/haukadal.html og kort af svæðinu .... http://www.geysircenter.com/islenska/vicinity_map.html

Einhver bið verður á næstu fjallgöngu (og bloggfærslu) þar sem ég borgaði húðlækninum mínum henni Rögnu fyrir að gera mig ganglausa. Hún hreinsaði af mér fæðingarblett neðan á il og saumaði gatið aftur með 4 sporum!Sideways 

Hlakka til að komast í göngugírinn á ný.Cool

Góða nótt.

Hjerastubburinn

 

 


Þorbjarnarfell (243 m.)

Góðan og blessaðan daginn.

Við vorum búin að ræða ferð í Hvalfjörðinn eða á Þingvöll til að ganga á fjall/hól/hæð og skoða eyðibýli. "Fjalla"ferðirnar eru farnar að tengjast allmjög áhugamáli eldri sonarins, að skoða eyðibýli. Þegar litið var út um gluggann í morgun kom í ljós að veðurspá gærdagsins reyndist ekki rétt því úti fyrir snjóaði og snjóaði þessum fallega engla- jólasnjó. Þar sem Econoline drossía heimilisins er nú ekki of vel skóuð í mikla hálku var gripið í plan B.
Plan B leiddi okkur suður á bóginn, enn á ný. Byrjað var á að skoða yfirgefin hús suður við Grindavíkurafleggjara. Annað mun vera fyrrum kúabú, stæðilegasta hús en langt síðan nokkur kýr hefði treyst sér til að halda á sér hita þar. Skammt þarna frá má sjá ummerki mótorhjólabrautar og jafnvel paintball braut.

Við stoppuðum í sælureit skógræktarfélags Suðurnesjamanna, Sólbrekkuskógi. Gengur hringinn sem samkvæmt korti er einir 850 metrar. Það mætti að ósekju hreinsa betur göngustíginn til að auðvelda fólki að komast um.

Á leiðinni til baka upp á þjóðveg kíktum við á aðrar rústir sem eru alveg niðri við Seltjörnina. Þar hefur á skemmtilegan hátt verið útbúin aðstaða fyrir þá sem eru að veiða í vatninu. Virðast ekki gamlar framkvæmdir. Frumleg útfærsla á rústunum. Hins vegar er mjög sorglegt að sjá hvað eymd og aumingjaháttur getur birst víða því búið er að rústa öllu þar. Og spreða mannaskít. Eins og nokkur hafi áhuga á að sjá hvað legið hefur í görn slíkra drullusokka!

Þá var komið að fjallgöngu dagsins. Keyrðum sem leið lá framhjá Bláa lóninu og beygðum fljótlega til hægri útaf vegi og inná afleggjara upp á Þorbjarnarfell. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við göngum á hann en mörg ár eru liðin síðan síðast, sá eldri þá enn í burðarpoka. Gengum upp mjóan og illafarinn bílveg. Hann er lokaður allri umferð en uppi á Þorbirninum eru hin ýmsu möstur sem sennilega þurfa stundum viðhald.
Leiðin upp var brött en átakalaus. Bara sett í lága og þjösnast áfram. Norðanáttin var svolítið köld á móti okkur en bjart til suðurs. Þegar upp var komið kom þokumistur yfir og kólnaði frekar. Komum okkur í skjól og fengum okkur heitt og gott nesti. Merkilegt hvað brattar brekkur verða lítilfjörlegar þegar kakóið er komið í kroppinn.
Ákváðum að þræða lítið dalverpi vestan í fellinu niður á jafnsléttu. Þar má sjá ýmsar myndanir í hrauni og klettum. Hundurinn var í miklu stuði og hljóp 3 metra fyrir hvern einn sem við gengum.
Sólin tók á móti okkur þegar niður kom. Veðurspáin að rætast enda bjart allaleið heim og Esjan í vetrarskrúða.
Kveð að sinni
Rósa hérastubbur
 

 


Hvers vegna að blogga?

Bloggsíðu þessa helga ég útivist og áheitum um bætta heilsu. Þegar alvarleg veikindi banka á dyr er stundum fátt sem hægt er að gera nema biðja heitt fyrir hinum veika. Ég ákvað einnig að ganga á fjöll - hóla - hæðir til góðs fyrir veikan bróður minn.

Fann þessa fínu bók sem heitir Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind. Það er mikil hjálp í henni fyrir utan hve fróðleg hún er.

Fikra mig áfram eftir því sem færð og veður leyfir. Helstu hólar og fell í nágranni Hafnarfjarðar hafa verið sigruð s.s. Helgafellið, Stórhöfði og Húsfellið - meir að segja Ásfjallið! Helgafellið í Mosó, Trölladyngja, Sýrfellið, Festarfjall o.fl. Gekk á gönguskíðum inn í Kerlingardal í Bláfjöllum.

 Tindarnir bíða betri tíma enda lofthrædd kona með eindæmum (allavega ef börnin eru með í för). Svo er ég líka raunsæ og veit að suma tindana mun ég aldrei klífa.

Hálka, snjór og slabb hefur stundum komið í veg fyrir að brattar brekkur væru klifnar. Þá er bara að reyna að finna mjög hættulitla hæðir eins og Sýrfellið á Reykjanesinu. Á það var gengið í gullfallegu veðri á nýársdag.

Félagsskapurinn er alltaf góður. Ef enginn tvífættur nennir með mér get ég alltaf treyst á fjórfætta heimilisvininn, hann Sám minn. Hann hefur farið með í allar ferðirnar og skemmtir sér konunglega. Tók þessa mynd af Sám á leiðinni upp Þorbjörn við Grindavík

Allar tillögur að gönguferðum eru vel þegnar en reyndar á ég enn eftir um 140 tinda ef farið er eftir bókinni. Þriggja ára áætlun myndi ég ætla.

Kveð að sinni en minni á að ég mun ekki blogga daglega, helst er það eftir góða gönguferð.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband