Ég ætla nú ekki að þykjast vera einhver sérfræðingur um land sem ég er búin að dvelja í tæpan hálfan mánuð..... hins vegar get ég sett eitt og annað niður á blað sem auðvelt er að finna upplýsingar um.
Chile liggur á vesturströnd suður Ameríku, á milli Kyrrahafs og Andesfjallana. Ég hef stundum leyft mér þá ónákvæmni að líkja því saman við Noreg..... það sem er líkt með Noregi og Chile er að bæði löndin eru mjóslegin og með langa strandlengju. Jú og há fjöll.
Á hinn bóginn er Noregur helmingi minni en Chile! Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu fyrr en ég lagðist yfir kortin. Mér hefur alltaf fundist Noregur gríðarlega stórt land, en Chile toppar það og gott betur.
Ég ætla að bera saman nokkrar tölur: Flatarmál Chile er 756 þús ferkm meðan Noregur er 324 þús ferkm. Noregur gengur í gegnum u.þ.b. 15 breiddargráður en Chile nær yfir 38 breiddargráður.
Manni finnst að Chile hljóti að vera algjörlega á hvolfi miðað við allt á Íslandi, bæði staðsetningarlega og tímalega. Jú við stöndum á haus hérna en tímamunurinn er sáralítill. Ef kortið er aftur skoðað má sjá að Chile liggur á 70-75 lengdargráðu, og til samanburðar þá liggur New York á 74 lengdargráðu. Þegar við flugum til New York var klukkan 5 tímum á eftir íslenskum tíma, en þegar við flugum hingað niðureftir færðum við hana 2 tíma til baka. Við erum 3 tímum á eftir íslenskum tíma, það er nú allt og sumt. Þegar við erum að vakna hér kl 7 er klukkan 10 heima.
Hins vegar get ég upplýst fólk um það að til að finna stað þar sem allt er í bókstaflegri merkingu öfugt við Ísland þá er farið til Ástralíu eða Nýja Sjálands. Þegar ég var í Ástralíu þurfti ég að hringja seint á kvöldin eða eldsnemma á morgnana til að gera fólki ekki rúmrust heima á klakanum.
Sný mér aftur að Chile.
Chile er u.þ.b. 4300 km langt en strandlengjan er 6500 km löng enda vogskorið þegar sunnar dregur. Þar sem landið er breiðast er það 430 km.
Ekki má gleyma eyjunum sem tilheyra Chile.... en þær eru m.a. Páskaeyjar, Robinson Cruso eyja og Salas y Gómez eyja í Pólynesíu.
Til viðbótar þá gerir Chile tilkall til hluta suðurskautslandsins Antarcticu.
Mismunandi loftslag bíður upp á mismunandi gróðurfar. Nyrst í landinu má finna þurrustu eyðimörk í heimi, meðan syðst er veðráttan óttalega lík og á Íslandi, m.a. mikil úrkoma.
Meira um Chile síðar.Kær kveðjaFlokkur: Ferðalög | Föstudagur, 5. febrúar 2010 (breytt 10.2.2010 kl. 00:09) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.