Ég dreif mig með strákana í dýragarðinn í morgun enda áttum við það alltaf eftir. Hann átti að vera eitt af síðustu verkunum hér þegar hitinn væri farinn að lækka í Santiago. Svo dýrin myndu nú sýna sig. Hitinn í dag var dæilegur rétt undir 30 gráðum og sól. Sum dýrin hreyfðu sig, önnur nenntu því ekki. T.d. ákvað flóðhesturinn að halda sig að mestu undir vatnsyfirborðinu, smokraði bara nasaholunum upp á yfirborðið.... Jóni Hákoni fannst hann algjör svindlari.
Ég held að einn apinn hafi þjáðst af Eftirskjálfta einkennum því hann gaf frá sér stöðugt væl eins og þjófavörn...... allar þjófavarnir og viðvörunarbjöllur borgarinnar fóru af stað þarna um nóttina. Hann er sennilega að vinna úr þeim ósköpum....:)
Dýragarðurinn hérna er í Cerro San Cristobal hæðinni og liggur allur í bröttum brekkum. Hann er því ekki mjög vinveittur fólki sem á erfitt með að hreyfa sig, hvað þá að reyna að drösla barnavögnum þarna upp. En við erum í svo góðu formi að við nánast skokkuðum þetta. Mér leið það vel að ég ákvað að prófa að sofa heima í nótt, reyndar að skipta um herbergi við strákana. Þeirra herbergi er ekki ósvipað og það sem ég hef gist í undanfarna daga. Ég er líka að breyta hugsuninni frá því að hver skjálfti geti leitt til annars stórs, yfir í að skjálftarnir séu bara merki um að jörðin sé að setlast.
Seinniparturinn í dag var ekki eins huggulegur.
Við þurftum að hitta lækni og þegar kom inn í bygginguna kom í ljós að sá var á 12. hæð og lyftan blasti við. Ég var svo brött að ég var alveg til í að taka hana, nennti engan vegin að ganga upp. Uppi var mikið útsýni og allt svakalega fancy og flott. Við vorum afgreidd og svo settumst við niður til að bíða eftir lækninum. Bjarni ákvað að fara niður á 2. hæðina þar sem LAN flugfélagsskrifstofan var og halda áfram að bíða eftir því að röðin kæmi að honum.
Við Harpa vorum eitthvað að gaspra þegar húsið fór á hreyfingu. Að vera uppi á 12. hæð í sæmilegum eftirskjálfta er ekki góð tilfinning enda fraus ég af skelfingu. Vildi helst fara aftur niður þegar húsið róaðist en það gekk víst ekki að Harpa myndi leika sjúklinginn. Ég fékk þó flýtimeðferð enda með tárin í augunum og á leiðinni inn á stofu læknisins mættum við einni starfsstúlkunni grátandi. Skjálftinn var samt ekki meir en svo að fólk leit í kringum sig og fór að horfa út um gluggann á byggingarkrana sem sveifluðust (nice að vinna þar....:)).
Þegar læknirinn var kominn með á hreint hvaða lyfjaendurnýjun um var að ræða spurði ég hvort ég mætti fara og ég bókstaflega hljóp niður 12 hæðir! Það var ekki fögur sýn sem blasti við mér í stigaganginum, veggirnir voru allir sprungnir á samskeytum og mjög ótraustvekjandi. Á annarri hæðinni fór ég út úr stigaganginum af því að ég hélt að ég væri komin á leiðarenda en þar blöstu við tómir gangar og skyndilega upplifði ég að ég væri ein í heiminum, föst inni í húsi sem hreyfðist! Æddi aftur inn í stigaganginn og hitti þar mann sem vísaði mér rétta leið. Ég hljóp út undir bert loft og ætlaði ekki að ná andanum. Gat brosað að þessu eftir stutta stund þegar Harpa kom niður með lyfseðla á sínu nafni því ég gleymdi að skilja eftir vegabréfið...:).
Þá hringdi Bjarni og var í vandræðum með konu á LAN skrifstofunni sem helst vildi henda honum bara út og talaði ekki ensku. Við hlupum þangað og þar fékk ég alvöru panik kast. Turnhlaupakastið var míni panik kast.
Þegar konan sagði okkur að hún gæti bókað okkur í flug þann 10. mars helltist yfir mig ótrúleg sorg, mér fannst hjarta mitt ætla að springa og það var að líða yfir mig. Konan var sem sé að segja mér að ég ætti að dvelja í landinu í 12 daga frá skjálftinum, og ég hafði ætlað í burtu strax fyrsta daginn! Ég fór út af skrifstofunni, horfði í kringum mig á fyrrum kunnuglega ganga mollsins sem skrifstofan og læknastofurnar voru í og ég bara kannaðist ekki við neitt, missti alveg áttir og gekk bara þangað til ég fann útgöngudyr og beið hinna þar.
Svona er nú lífið skrítið. Þetta eru því síðustu tölur, flug frá Chile 10. mars og mikilvæg batteríshleðsla í NY í nokkra daga og svo heim um miðjan mánuð......hrikalega langt þangað til. Það stendur til að reyna að hnika þessu eitthvað, en þangað til stendur 10. mars.
Kær kveðja
Flokkur: Ferðalög | Fimmtudagur, 4. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 20:31) | Facebook
Athugasemdir
Rósa mín, þú ert að standa þig svoooo vel. 6 dagar eftir..... og átt góðan tíma í stóra eplinu í staðinn á leiðinni heim. Mikið verður gott að fá ykkur heim. Ætlar Bjarni að vera lengi áfram?
kv GP
Guðbjörg Pálsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.