Dagur mágur minn hringdi rétt fyrir klukkan tíu í morgun og spurði mig hvort ég tryði á tilviljanir. Þá var jörð búin að skjálfa á stór Hafnarfjarðarsvæðinu.
Ég vaknaði rúmlega níu við það að rúmið vaggaði létt og það brakaði í hurðakarminum. Ég var ekki viss um hvort mig hefði verið að dreyma þetta fyrr en Bjarni kvað úr um vafann. Skjálftahrina við Krýsuvík er staðreynd.
Í gær var fólk í vöfflukaffi hérna og sagðist ég halda upp á að stóri skjálftinn væri að fara að eiga ársafmæli. Það er skrítið hvað tíminn líður, virðist frekar stutt síðan ég sólbakaði mig dag eftir dag í suðrænni Chile sól.
Í dag 27. febrúar kl 7.34 að íslenskum tíma er nákvæmlega ár frá því að stóri skjálftinn reið af. Einum og hálfum tíma seinna fann ég fyrir íslenskum jarðskjálfta, þeim fyrsta íslenska í nokkur misseri. Ótrúlegar tilviljanir.
Og hvernig varð mér við? Þessi þarna í morgun hreyfði ekki við mér, enda vaknaði ég bara við hann. Næstu skjálfta fann ég ekki, var úti við ofl. Hins vegar þegar skjálftinn kom kl 17.20 sat ég við tölvuna og var mjög upptekin við lestur. Mér brá við höggið sem varði í mjög fá sekúndubrot en ég fékk gæsahúð sem leiddi allaleið inn í heila að mér fannst. Gamall vani frá Chile lét mig líta í kringum mig og sá ég að ljósakrónan hreyfðist varla. Ég ákvað að gera létt líkamsmat á mér sitjandi hér í stólnum og taldi hjartsláttinn. Hann fór ekki upp fyrir 65 slög á mínútu.
Ég upplifi sömu tilfinningu gagnvart íslenskum jarðskjálftum núna og fyrir Chile reynsluna. Þetta er ekki lífsreynsla sem fær mig til að hrópa húrra og jibbý. Ég er heldur ekki hrædd, sé ekki ástæðu til þess því þetta er mjög sakleysisleg hreyfing hér á mínu svæði. Hins vegar fór ég að líta á heimilið og skoða hugsanlegar slysagildrur, ef eitthvað félli úr hillum.
Nú get ég andvarpað feginsamlega og sagt að það sem ég hef velt fyrir mér er liðið. Já ég hef velt því fyrir mér allt frá því að ég kom aftur heim hvernig mér myndi verða við þegar ég fyndi aftur jarðskjálfta. Þau viðbrögð voru mjög ásættanleg, það verð ég nú bara að segja.
Svo er bara að mæta í vinnuna á 8. hæðina á morgun......:)
Hjerastubbur
Ferðalög | Sunnudagur, 27. febrúar 2011 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT NÝTT ÁR!
Ég er ekki með nein háleit markmið um fleiri skrif eða færri á þessu ári miðað við það síðasta.
Er komin hér inn til að færa inn orð um fjöll, hóla og hæðir. Við Inga Birna frænka mín ákváðum að reyna að ganga á að minnsta kosti tvö fjöll í mánuði og nú er að sjá hvernig gengur að standa við þau markmið. Ingu Hönnu leyst svo vel á þetta að hún stakk upp á því að uppi á tindi fjallsins skyldi kasta fram fyrri parti. Þar með er komið nafnið á gönguhóp sem búið er að stofna, Gönguhópurinn Fyrri Parturinn. Ákveðinn kostur að einblína á fyrripartinn þar sem oft er erfitt að botna glataða fyrriparta. Nú og svo er gott að þurfa bara að ganga fyrripartinn, einhver annar sem getur gengið seinnipartinn, enda fólk oft orðið lúið og leitt...:)
Ég prufukeyrði þemað í gær þegar ég gekk ásamt góðu fólki á Stórhöfðann. Nei ekki var það sá vestmanneyski, heldur er þetta meðal hár hóll innan við Hvaleyrarvatn. Þar uppi blés hraustlega og mátti sjá á eftir gamla árinu á fleygiferð langt út á sjó í rokinu. Fyrripartar flugu þarna um loftið en ég læt minn hér inn: Upp i mót, ógnargrjót, augum blasir við.............
Í dag var annars konar veður og þá var fyrsta opinbera fjallgangan á alvöru fjall. Gengið var í súld með frænkum og fjölskyldum á Helgafell hafnfirðinga. Það var dálítið blautt, bæði jörð og himinn en félagsskapurinn ljúfur og móður af tali. Minn fyrripartur hljómar svo: Höskyhundar hlaupa á fjöll, hlýr er þeirra feldur..................
Að hálfum mánuði liðnum verður farið í aðra ferð á fjall en fram að því verður eflaust farnir upphitunar göngutúrar.
Kær kveðja
Hjerastubbur
Ferðalög | Sunnudagur, 2. janúar 2011 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á miðvikudaginn var sannkölluð hátíð á mínu heimili.
Chiliska fánanum flaggað, Chile súpa elduð, haft kveikt á Skynews allan daginn og fylgst með einstæðri björgun 33 námumanna úr San Jose námunni í norðurhluta Chile. Þetta voru mögnuð móment þegar þeir komu upp einn af öðrum. Merkilegt nokk þá snerti björgun hvers og eins mig mikið, ég fékk vægan hroll og tár trilluðu niður kinnar. Ég er stundum svo mikið tilfinningabúnt að ég átti mjög auðvelt að lifa mig inn í aðstæður.
Ég veit ekki hvort íslenskt "hráslagalegt" uppeldi þar sem veðrið og náttúran spilaði stóra rullu hefur haft þessi áhrif á tilfinningar mínar tengdar náttúrunni og náttúruhamförum. Fólk mjög náið manni þurfti stundum að vinna fjarri heimili s.s. við sjómennsku / ferðast langan veg um óbyggðir í leit að fé og fleira. Veður voru oft válynd og svaf maður ekki vært ef fréttist af stormi á miðum, byl á fjöllum og ófærð á vegum þar sem fjölskyldan var á ferð. Ég lærði snemma að bera virðingu fyrir miskunarlausri íslenskri náttúru og geri enn í dag.
Verð þess vegna frekar döpur þegar ég frétti af ferðum hugsunarlausra einstaklinga um landið og miðin klædd og útbúin eins og séu að fara á kaffihús í miðborginni. Taka jafnvel með sér börnin í þessar vafasömu ferðir, en börnin fengju hins vegar ekki að fara með þeim á barinn.
Allavega, piltarnir eru allir komnir upp á yfirborðið og má halda hátíð yfir því. Ég fann grein úr Santiago Times sem eftirlifendur flugslyssins í Andesfjöllum 1972 skrifuðu. Mjög góð samantekt hjá þeim á lífinu eftir björgun. Þeir bjuggu við það að hluti fólks dó og nartað í nokkra, meðan mesta álagið á námumennina er myrkrið og að vera svona langt niðri í jörðinni ..... herre gud eins og daninn myndi segja!
Læt þetta duga í bili.
Hérastubbur
Ferðalög | Föstudagur, 15. október 2010 (breytt 17.10.2010 kl. 12:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Survivor Of Andean Plane Crash Discusses The Rescue In Chile | | Print | |
Written by Pedro Algorta, translated by Kathryn Bibler |
Friday, 15 October 2010 05:39 |
By Pedro Algorta |
Ferðalög | Föstudagur, 15. október 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um síðustu helgi lauk ég fermingarskyldum mínum..... sagði reyndar að héðan í frá myndi ég ferma að vori. Upp á þá ákvörðun mína skortir bara fleiri börn! Hins vegar er morgunljóst að ég er komin úr barneign.... allavega andlega. Í fermingarundirbúningnum var fjöldi manns hér í húsi við vinnu og skemmtan vegna fermingar, Júróvísion og kosninga. Skyndilega heyrði ég barnsgrát og tilfinningin sem kom yfir mig var að einhver þyrfti að hugga þetta barn (lesist:þagga niður í krakkanum), ég væri búin með þann skammt. Gráturinn reyndist koma úr sjónvarpinu og hugsanir mínar bentu klárlega til að ég væri komin úr barneign!
En það var ekki þetta sem ég ætlaði að ræða. Það var ferming yngri sonarins sem fæddist í þennan heim með miklum látum desembermorgunn einn í Kaupmannahöfn. Leigubílsstjórinn sem keyrði okkur hjónin upp á fæðingardeild gerði sér skyndilega grein fyrir því að allt stefndi í óefni í aftursætinu og keyrði á öðru hundraðinu. Barnið fæddist á fæðingardeild Herlev sjúkrahússins 40 mínútum eftir fyrstu hríðir. Ekki dugðu honum þessi læti því sjö dögum síðar fór heilbrigðum og flottum strák að hraka og það kvöld var hann orðinn það veikur að hann fór í öndunarstopp og var settur í öndunarvél. Í framhaldinu fór hann í hjartaaðgerð en hann hafði fæðst með hjartagalla sem ekki uppgötvaðist fyrr en þarna. Hann braggaðist og fékk að halda áramótin heima með fjölskyldunni (myndina hér til hliðar tók starfsfólk gjörgæslunnar á jólanótt).
Ekki hefur þetta háð honum síðar nema að hann var endalaust að fá slæmar lungnabólgur sem barn og gekk á tímabili undir nafninu lungnabólgu‑Jón.
Fermingardagurinn var guðdómlega fallegur, sól og blíða í Hafnarfirði en fermingin fór fram í Hafnarfjarðarkirkju og Guðbjörg sóknarprestur fermdi hópinn. Ég var hálfklökk yfir þessu og einhver tár trilluðu niður kinnar í kirkjunni enda ýmislegt sem við höfum þurft að lifa af. Og horfa á hann þarna svona fallegan og bjartan, flottan strák sem getur allt sem hann ætlar sér og nennir! Upplitsdjarfur kvaddi hann Guðbjörgu prest með orðuðum: 'Lof og dýrð sé með þér'! Hann er pínulítill grallari en hún brosti afskaplega fallega til hans.
Vikurnar fyrir fermingu vorum við að skoða gamlar myndir af strákunum og söfnuðum í myndasýningu og þá virkilega helltust minningarnar yfir mann. Ótrúlegt að þessir stóru og glæsilegu ungu menn hafi verið pínulítlir trítlar, með skærar barnsraddir. Núna rymur úr breiðum börkum. Bjarni er hins vegar í sjokki yfir aldurstengdum breytingum á fullorðna liðinu.
Eftir athöfnina var boðið til veislu í sal RKÍ og var mjög ljúft að taka á móti og hitta allt þetta yndislega fólk. Við fengum ómetanlega hjálp frá frábærum vinum og ættingjum bæði fyrir og í veislunni. Þeirra sem ekki komust var sárt saknað. Jón Hákon er helst á því að halda bara aðra fermingarveislu fyrir austan í sumar! Honum finnst sárt að hafa ekki getað gefið fólki góðar kökur að borða. Hann var gríðarlega ánægður með daginn og er enn með stjörnur í augunum yfir öllum fermingargjöfunum. Stefnir á skátamót Hraunbúa um næstu helgi með nýjan viðlegubúnað!
Kær kveðja
Hjerastubbur
Ferðalög | Sunnudagur, 6. júní 2010 (breytt 7.6.2010 kl. 19:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugsun mín hefur einatt verið sú að ekki sé vinnandi vegur að hjóla á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur nema helst að vera með alvarleg Ironman/woman einkenni.
Ég eignaðist eðalborið fjólublátt Mongoose sycamore fjallahjól vorið 1995 og á það enn þar sem mér tókst ekki að sannfæra minn ektamann um að taka mætti eina fjóra tugi þúsunda af heimilispeningum ársins 2008. Hann tjáði mér að hjólið væri í besta lagi (hann hafði svo mikið rétt fyrir sér) og það þyrfti bara að lappa aðeins upp á það. Þessi niðurstaða stóð og hjólið var pússað og spreyjað og fékk nýja bjöllu og bretti. Næstum því aldrei litið betur út þar sem það montaði sig vorið 2008 við hliðina á splúnkunýja mótorhjóli ektamakans! En það er nú önnur saga því á þeim tíma giltu allt önnur lögmál í hugarheimi Íslendinga.
Í dag stendur hjólið mitt aftur montið úti í garði en fína nýja mótorhjólið er ekki lengur hér enda ekki lengur 2008. Hjólið mitt hefur því miður fengið fullmikla hvíld undanfarin ár enda vinn ég inni í Reykjavík og tel lífi mínu betur borgið annar staðar en í geðveikislegri umferð Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar. Sá enga aðra möguleika á hjólaferðum hér á milli en eftir þessum vegum eða með því að þræða helstu útivistarsvæði bæjarfélaganna sem standa þar á milli.
Þessi hugsun umturnaðist í síðustu viku. Þá hitti ég samstarfskonu mína sem með sinni einstöku ljúfmennsku var allt í einu búin að sannfæra mig um að vera með í hjólað í vinnuna! Ég veit ekki hvaða boðefnaflutningur átti sér stað í heilanum á mér á þessari stundu, en það var ljóst að ég yrði að standa við orð mín. Því var hjólið dregið fram strax sama kvöld og byrjað að prófa mögulegar hjólaleiðir.
Og viti menn, frá kvöldi þess 4. maí er ég búin að vera með óbærilegan verk í rassinum og alla vöðva stífa!
En mikið svakalega er þetta skemmtilegt. Það leystust úr læðingi gamlar og ljúfar minningar frá hjólaferðum fyrri ára, innanlands sem utan. Geggjað líf. Vil helst ekki nota annan ferðamáta.... þar til veðrið versnar. Í gær ætlaði ég að ganga í göngum saman göngunni og fór hún fram í Laugardalnum. Veðrið var svo lokkandi um morguninn að ég dreif mig á hjólið og hjólaði niðureftir. Lét Bjarna sækja mig svo eftir gönguna til að fara í veislu Grafarvoginn. Þaðan hjólaði ég svo heim í Hafnarfjörðinn. Písoffkeik! Og gamli hjólafílingurinn er kominn upp í bóndanum, hann trúir því næstum því að hann sé að hjóla í skólann úti í Köben.
Ég er búin að finna ágætisleið sem ekki kallar á rússneska hraðabrautarúllettu og ekki heldur of mikla króka. Hjóla framhjá Sólvangi inn á hjólastíginn vestan við Reykjanesbrautina, í undirgöngin við Kaplakrika, inn á hraunin í Garðabænum og upp á stígana við Vífilsstaðaveginn. Þaðan eru stígar þræddir í undirgöng við Arnarneslækinn og yfir Arnarnesið og eftir stígnum norðan við Hafnarfjarðarveginn. Framhjá Sunnuhlíð og í undirgöng við Salinn í Kópavogi, niður Ásbrautina og inn á stígana og yfir göngubrúna í Fossvognum. Mætt í vinnu eftir u.þ.b. 40-45 mínútur, þetta er u.þ.b. 10-15 km eftir því hvaða leið ég hjóla heim til að fá einhverja tilbreytingu.
Ég nefndi Ironman/woman í upphafi en sú tilvísun er í ofurhetjur sem hjóla, hlaupa og synda í keppnum. Ég er búin að hjóla yfir 130 km á 5 dögum og synda og skokka smá en þar sem ég fer afskaplega rólega í þetta allt tel ég mig miklu mun nær því að vera trékerling fremur en járnkona. Bjarni segir að ég komist næst því að vera tréhaus....:). Ekki get ég verið álkerling því ég er ekki nógu létt til þess.
Hjerastubbur
Lífstíll | Mánudagur, 10. maí 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Margt flýgur í gegnum huga manns þegar horft er á ógnaröflin í Eyjafjallajökli sem nú djöflast eins og enginn sé morgundagurinn.
Við höfum dvalið í góðu yfirlæti í sumarbústað á Suðurlandi nú um helgina. Gosið blasti við okkur þegar komið var upp á Hellisheiðina og það skal viðurkennast að einhverjir sögðu vá, svakalega er þetta flott. Við fylgdumst með gosinu í fjarlægð í bústað og töldum eldingar fyrsta kvöldið. Það var svo ekki fyrr en á laugardeginum sem haldið var austar enda búið að boða landnema á Langöldu í Rangárþingi til landgræðslufundar í Gunnarsholti. Við keyrðum inn á lóðina okkar á Langöldu og komumst að því að við vorum með gríðarlegt útsýni frá stofuglugganum upp á jökul og gosstöðvarnar. Næst var haldið inn á veg að fjallabaki og að Þríhyrningi. Tæplega tonn af fötum voru dregin fram enda andaði köldu úr norði, mat troðið í hópinn og svo var arkað af stað, upp í móti. Einhverjar kvartanir bárust en þeim var snarlega eytt með þeim orðum að ljósmyndarinn yrði að ná góðum myndum. Við gengum langleiðina upp eða þar til Eyjafjallajökull blasti allur við. Og þvílíkt sjónarspil. Ég hef aldrei séð eins marga tóna á gráa litnum eins og blasti þar við. Eitthvað hafði dregið úr gosinu um miðjan daginn en þarna var það farið að færast í aukana og eftir kvöldmat var eins og fjandinn væri laus.... ekki það að hann sé ekki búinn að vera þarna í marga daga. Drunur heyrðust frá sprengingum og eldingum og mökkurinn gusaðist langar vegalengdir upp í himinhvolfið. Við sáum líka hvernig gosmökkurinn missti afl og hrundi niður á jökulinn eins og sandhrúga. Samkvæmt jarðfræðingnum er það ekki gott þegar eldheitt gosefni, súrefnislaust lekur svona niður brekkurnar.
Fólkið á svæðinu á mínar bænir þessa dagana og finnst mér skelfilegt til þess að hugsa að það sé þarna inni í mekkinum, fjölskyldur með allt sitt lifibrauð sem stendur og fellur með þessu fjalli. Svo verður líka að taka með í reikninginn áhrif gossins á heilsufar fólks til skemmri og lengri tíma. Ég vona að fólk sem ferðast /er á svæðinu fari að öllum leiðbeiningum svo það sitji ekki uppi með óafturkræft ástand sem rekja má til gossins.
Á landgræðslufundinum kom gosið til umræðu enda blasti það við okkur frá Gunnarsholti. Svæðið sem við erum að græða upp var auðnin ein fyrir einhverjum 40 árum síðan og því veltir maður því fyrir sér hvort tjón af gosefnum úr þessu gosi færi svæðið aftur um áratugi gróðurfarslega séð. Spunnust skemmtilegar og gagnlegar umræður á fundinum og var gott að hitta fólkið sem er að rækta allt í kringum okkur. Já það verður fjör og fullt af plöntum á Langöldu 13 næstu árin og áratugina. Þegar húsið rís verður samkeppni um nafn á því..... spennandi tímar framundan.
Hérastubbur
Ferðalög | Sunnudagur, 18. apríl 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef fengið fyrirspurnir frá vinum og ættingjum varðandi myndaleysið á blogginu eftir skjálftann. Það er skemmst frá því að segja að eftir-skjálfta tímann sem ég dvaldi í Santiago varði ég eins litlum tíma innan dyra og ég mögulega gat og þá reyndi ég að sinna fjölskyldu, heimilisverkum og pikka inn blogg textann. Myndvinnsla tekur ótrúlegan tíma, fyrst þarf að velja myndir, smækka þær og svo að hlaða inn á bloggið. Þetta allt tók bara of langan tíma fyrir mitt þol. Ég hef líka verið mjög orkulaus eftir að heim kom en núna undanfarna daga hef ég verið að tutla inn mynd og mynd og hef loks myndskreytt bloggfærslurnar allt frá skjálftanum.
Einnig hef ég bætt við bloggfærslum. Fyrsta bloggfærslan eftir skjálfta er frá Bjarna. Þið hafið eflaust velt því fyrir ykkur hvernig við, sérstaklega ég, hafi hegðað mér í skjálftanum og eftir hann í ljósi þess að það er ættingjum, vinum og vinnufélögum ljóst að ég var/er með klár einkenni áfallastreituröskunar vegna skjálftans. Lét ég eins og hauslaus hæna í skjálftanum? Í ljósi þess ákvað ég að bæta við bloggfærslu Bjarna frá 28. febrúar (Jarðskjálftinn í Chile 27.febrúar kl. 3:34 - Styrkleiki upp á 8.8) og reyna að svara þessari spurningu. Kalla þá viðbót ..... eins og hauslaus hæna?. Sumt er endurtekning í þeirri færslu, annað ekki. Vona að það komi ekki að sök.
Ferðalög | Mánudagur, 5. apríl 2010 (breytt kl. 22:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef lítið talað um þann áfallastuðning sem ég fékk tímann sem við biðum eftir flugi út úr Chile. Nú er ég hins vegar tilbúin til að leggja á borð vanmátt minn þó mér sé meinilla við að vera eitthvað öðruvísi en aðrir sem lentu í sama skjálftanum.....:) Klassísk einkenni hins sjúka er að verða enn vanmáttugri þegar allir aðrir í kring virðast fullir heilbrigði. Það fór hrikalega mikið fyrir brjóstið á mér. Þó ég ætti í raun að gleðjast yfir því að ekki væru fleiri í fjölskyldunni hræddir, að þeir hafi ekki skynjað hamfarirnar á sama hátt, en svo rökrétt hugsar maður nú ekki.
Fólkið í kringum mig úti sýndi ekki merki áfalls þó þau væru slegin. Við vorum mikið með Hörpu fyrstu dagana eftir skjálftann, enda bjuggum við inni á henni í fjórar nætur. Það var afskaplega gott að finna öryggið sem það veitti mér og eins mataði hún okkur á fréttum úr hinni spænskumælandi veröld. Fréttir á alþjóðavefum voru ansi einsleitar og skuggalegar. Borgin og fólkið í borginni tók sinn tíma til að jafna sig eftir fyrsta áfallið og upplifðum við mikla samstöðu.
Daginn eftir jarðskjálftann hafði Bjarni samband við tryggingafélagið út af flugmálum og spurði jafnframt um áfallahjálp. Það er ekkert launungamál að ég var/er með einkenni áfallastreituröskunar og viti menn, á mánudeginum hringir sálfræðingur RKÍ í okkur. Heyrir fyrst í Bjarna sem fær mjög nothæfar upplýsingar um þetta fyrirbæri sem hann segist varla hafa vitað að væri til. Við spjölluðum svo saman og þótti mér gott að vita af þessum stuðningi RKÍ sem ég leitaði svo í þegar heim kom.
Hins vegar verður að segjast að langmesti og mikilvægasti áfallastuðningurinn sem ég fékk kom frá mömmu hennar Hörpu henni Helgu Þorbergsdóttur hjúkrunarfræðingi í Vík í Mýrdal. Hún hringdi út til mín sama dag og sálfræðingurinn til að heyra hvernig mér liði. Var búin að frétta frá Hörpu að andlegt heilsufar mitt væri ekki upp á marga fiska. Við ákváðum í framhaldinu að tala saman í mynd á skype og áttum við nær dagleg samtöl út biðtímann. Hún lét sér það ekki nægja heldur fékk hún mig með sér á Helgafell Hafnfirðinga þegar heim kom og áfram töluðum við.
Ótrúleg kona og umhyggjusöm. Á biðtímanum í Santiago kom ég oft inn í íbúð eins seint og ég komst upp með á kvöldin (þegar byrjaði að rökkva) og þá var klukkan orðin ansi margt á Íslandi. Helga beið samt og einhvern tímann talaði hún við mig fram yfir miðnætti! Þetta var ómetanleg umhyggja sem hún sýndi mér og hvernig hún gat rætt áfallið og svo líka bara lífið, tilveruna og fólkið í löndunum tveim. Henni tókst með sinni lagni að fá mig til að leiða hugann að öðru en bíða eftir næsta eftirskjálfta. Bjarni sagðist finna á mér ef ég missti úr dag að tala við hana, að ég hefði þá minni eirð í beinunum. Mér fannst ég reyndar alltaf eirðarlaus en það er nú annað mál. Eitthvert kvöldið sem við ræddum saman kom einmitt eftirskjálfti sem allir fundu og ég fór bara að gráta í beinni á skype. Helga var hin rólegasta og í stað þess að kveðja þar sem ég væri sýnilega ekki í stuði til að spjalla (eins og einhverjir aðrir með minni þolinmæði hefðu freistast til) þá hélt hún mér uppi á tali í klukkutíma og náði úr mér mesta óttanum. Já hún er alveg einstök og er ég henni óendanlega þakklát fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og fjölskylduna í leiðinni. Harpa hefur erft eiginleika hennar því hún var þvílíkt þolinmóð að leyfa þessari vansælu konu með alla fjölskylduna að gista hjá sér margar nætur.
Kærar þakkir!
Ferðalög | Mánudagur, 5. apríl 2010 (breytt kl. 22:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gegnum tíðina hef ég ekki vanið mig á að hlusta á tónlist þegar ég hreyfi mig og var því eins farið á göngum mínum úti í henni Santiago. Heima hlusta ég stundum á rás eitt en eins og alþjóð veit þá er ekki mikið um dægurtónlist á þeirri rás, meira áhugaverðir þættir og klassísk tónlist. Þegar ég fór að hafa eirð í mér til að hlusta á tónlist á sjötta degi frá skjálfta þá urðu það Reiðmenn vindanna sem fyrst voru spilaðir.
Í fyrrasumar keypti ég diskinn með Helga Björns og reiðmönnum vindanna því það var eitthvað við hann sem heillaði mig. Það liðu ekki margar sekúndur í fyrsta laginu þegar ég var farið á brynna músum í miklu magni þar sem ég sat með ipodinn úti í garði. Heimþráin helltist yfir mig. Ég valdi viljandi íslenska tónlist með íslenskum textum sem höfðu eitthvað að segja, innihéldu eitthvað. Hlustaði m.a. líka á Töfrablik Jóns frá Hvanná. Með því að velja texta sem sögðu einhverja sögu gat ég gleymt mér við að ímynda mér aðstæður, í reiðhesta lögunum á plötu Helga Bj. var ég oft komin inn í aðstæðurnar inni á reginfjöllum / inn til dala og slakaði þvílíkt á.
Textar sem innihalda miklar klisjur s.s. I love you eða You hurt me ....... virka ekki sem slökun, því miður verð ég að hryggja textahöfunda sem gefa sig út fyrir að semja slíkt.
Hjerastubbur
Ferðalög | Laugardagur, 3. apríl 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar jörð hristist þá hristist hún að því er virðist óháð því hvað hristingurinn heitir eða það myndi ég ætla. En nei, sumir vilja skilgreina hristing upp á sömu tölu mismunandi eftir því hvort skjálftinn var "forystusauður" eða bara "fylgifiskur".
Á engilsaxnesku er gerður greinamunur á jarðskjálftum og eftirskjálftum, öðruvísi en hagar í Íslensku máli. Þar er það earthquake fyrir jarðskjálfta en hins vegar heitir eftirskjálfti aftershock. Íslenskan er kjarnyrtari og gefur eftirskjálftanum ákveðið vægi með því að kalla hann áfram skjálfta þó búið sé að splæsa orðinu eftir- á undan.
Með því að hristingurinn er skilgreindur sem aftershock missir hann verðgildi, hann er ekki eins merkilegur og mætti túlka að væri ekki eins hættulegur, á ensku að minnsta kosti.
Ég var að lesa chiliskan pistil um eftirskjálfta hrinuna sem enn stendur yfir í Chile og furðaði skrifarinn sig á því hvernig hægt væri að segja hristing upp á 7.2 sem eftirskjálfta þó forystusauðurinn hefði verið upp á 8.8!
Árið 1960 þegar stærsti skjálfti sem nokkurn tímann hefur verið mældur í heiminum, skjálfti upp á 9.5 reið yfir suðurhluta Chile kom skjálfti daginn eftir upp á 8.3 sem skilgreindur var sem eftirskjálfti!
Ég hafði þessar upplýsingar í huga þegar ég gat ekki sannfært sjálfa mig um að það væru bara saklausir eftirskjálftar sem gætu hugsanlega komið í kjölfar þess stóra þann 27.feb.
Kveðja
Ein gasalega tortryggin
p.s. Kíkti á USGS síðuna sem alltaf er nú spennandi lesning og til allrar hamingju ekkert hörmulegt nýtt að gerast þar. Hins vegar fann ég upplýsingar um að frá 27.feb til 29.mars komu 458 eftirskjálftar í kjölfar þess stóra. Þann 11. apríl segja þeir að 292 eftirskjálftar hafi verið stærri en 5.0 og 20 eftirskjálftar yfir 6.0. Ekki furða að fólki í kringum skjálftamiðjuna hafi fundist það í endalausum ólgusjó.
Ferðalög | Miðvikudagur, 31. mars 2010 (breytt 13.4.2010 kl. 09:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í fyrrasumar áttum við frábæra ferð vestur á firði og voru hin ýmsustu horn og hólar skoðuð þar. Þ.á.m. var kíkt inn í fornbókabúð einstaka á Flateyri þar sem bækur voru seldar eftir vigt. Fann ég þar merkisrit nokkuð sem ég hafði ekki enn komið í verk að lesa (og verð að viðurkenna að ég er ekki enn komin í gegnum hana) en það var Hús Andanna og var þessi bók á hinni ylhýru dönsku. Bjarni var á þeim tíma byrjaður að brölta í jarðhitamálum í Chile og fannst mér gráupplagt að komast að hinum innri chiliska manni í gegnum þetta ritverk.
Allavega, þá tók ég þessa bók fram áðan og greip fyrir tilviljun niður í þessa setningu: Fjölskyldan hélt áfram að borða án þess að gera athugasemdir. Þau höfðu líka vanist spádómum litlu systur (Clara). Hún sagði fyrir um jarðskjálfta í tæka tíð, sem var mjög praktískt í svona hamfara-landi, þá gafst tími til að koma postulíninu á öruggan stað og hafa skóna innan seilingar þegar maður þyrfti að hlaupa út í nóttina. Já jarðskjálftar eru merkilegt fyrirbæri og ekkert nýtt að fólk óttist kraft þeirra.
Ég minnist þess að Bjarni hafi nefnt það einhvern tímann á dvalartíma okkar í Chile að þeir væru í raun farnir að bíða eftir þeim Stóra, það væri kominn tími á 50 ára jarðskjálftann, bara alveg eins og við erum að bíða eftir Kötlugosi (sem leggi jarðarkringluna í rúst samkvæmt hamfaraspám). Ég minnist þess líka að hafa sagt að það væri nú þeirra mál og var mjög á því að þeir skildu sko bara fá að bíða eitthvað lengur.... En mér varð ekki að ósk minni.....
Þýsk vinkona mín sendi mér póst um að allt hefði sinn tilgang. Ég gramsa og gref eftir tilgangi skjálftans og mun sennilega gera um sinn. ...... Kannski átti hún við að jörðin þyrfti að losa um spennu eða kannski ekki....
Kær kveðja
Ferðalög | Miðvikudagur, 31. mars 2010 (breytt kl. 21:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú hafa chilisk yfirvöld farið yfir allar tölur hjá sér, lagfært reikult og tvöfalt bókhald og gefið út nokkuð áreiðanlegar dánartölur vegna skjálftans 27. febrúar og flóðbylgjunnar í kjölfarið. Ef hægt er að segja að dánartölur geti verið jákvæðar þá er hægt að gleðjast yfir því að færri létust en haldið hafði verið fram fyrstu vikurnar. Staðfest dauðsföll eru 11.apríl 507 manns. Þann 11. apríl er ekki talað um hversu margra væri saknað en þann 31.mars var 98 manns saknað. Bókhaldsskekkjuna vilja þeir skrifa á að erfitt hafi verið að fá áreiðanlegar tölur vegna umfangs skjálftans sem og vegna stjórnarskipta í landinu.
Ferðalög | Miðvikudagur, 31. mars 2010 (breytt 13.4.2010 kl. 08:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef ekki skrifað hér inni í dálítinn tíma, kannski margt að hugsa og vinna með eftir heimkomu. Mér líður orðið mikið betur, hætt að skjálfa daginn út og daginn inn, og finn að það sem ég er að vinna með gerir sitt gagn. Og hvað er ég að gera? Jú ég skrifa niður hugrenningar í blessaða chilisku stílabókina mína, hreyfi mig daglega minnst klukkustund, borða reglulega, næ góðum nætursvefni og tala við fagaðila. Ég viðurkenni vanmátt minn og ótta gagnvart þessum ógnvænlegu náttúruöflum og forvitnin er vöknuð úr dvala, ég er farin að lesa mig til um skjálftann. Áður var ég bara tilbúin til að taka skjálftaupplýsingar inn í smá skömmtum og alls ekki þær sem voru sársaukafullar.
Fann lítinn skjálfta eina nóttina og hjartað fór á þriðja hundraðið....... en þetta reyndist í raun Bjarni á bröltinu.... ég er búin að sannreyna það....:) En svakalega var þetta óþægilegt.
Ég fékk mína fyrstu skjálftamartröð daginn eftir heimkomu en eftir svefnlitla nótt hafði ég lagt mig eftir hádegið. Mig dreymdi að ég væri stödd í stórum sal/andyri og þá kom þessi sprengikraftur og allt fór af stað. Ég stóð þarna skelfingu lostin og horfði í kringum mig, leitaði að burðarvegg, svæði þar sem ég gæti skýlt mér. Við það hrökk ég upp með andfælum og ósjálfrátt leit ég upp í ljósið í herberginu til að athuga hvort það sveiflaðist.... mér fannst þetta svo rosalega raunverulegt.
Og meðan ég man, ég er hætt að iða..... já mér leið best ef ég gat verið á hreyfingu, því þá fann ég síður fyrir litlu skjálftunum. Ef ég gat ekki gengið, ef ég þurfti að standa kyrr t.d. í biðröð, þá ruggaði ég mér frekar en að standa alveg kyrr, var einhvern vegin alltaf að reyna að blekkja hugann.
Í dag geng ég inn í hús og byrja EKKI á því að skoða byggingarstílinn og hugsanlegar fljúgandi plötur og loftlagnir.
Batnandi mönnum er best að lifa.
Kær kveðja
Ferðalög | Föstudagur, 26. mars 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég á ykkur kæra fjölskylda, vinir og velunnarar svo margt að þakka á þessu ótrúlega skjálftatímabili í lífi okkar. Á samkomu hjá ÍSOR fékk ég að segja nokkur orð til samstarfsfólks Bjarna og eiga þessi orð mjög mikið erindi við ykkur öll. Ég ætlaði að vera búin að setja þetta inn en ég er bara ekki á fullu gasi ennþá.... en það kemur, treystið því....:)
Mig langar til að þakka ykkur alla hjálpina, stuðninginn og kveðjurnar sem bárust með suðrænum blæ um óraveg til Chile. Þessi jarðskjálfti verður í minnum hafður og er strax farið að gantast með hann sem 8.8 á Richter + einn (er þá verið að tala um hann Bjarna minn), en það er ekki nægilega nákvæmt. Ef á að nota þessa reikniformúlu þá var þetta skjálfti upp á 8.8 á Richter + þrír, því að þeir voru þrír Richterarnir mínir sem þarna voru staddir í 5. stærsta skjálfta sem nokkurn tímann hefur mælst í heiminum!
Hægt er að segja sögur úr skjálftanum, sögur þar sem áheyrendur segja ups og vá og jafnvel brosa pínulítið því þær sögur eru af fólki sem var til frásagnar eftir skjálftann. Hinn hlutinn, sá sem veldur því að hjarta mitt er þungt er að í þessum skjálfta (og flóðbylgju) létust 432 manns og 98 hurfu (breytt 31.mars skv. nýjustu upplýsingum) sem skilja eftir sig örvæntingarfulla aðstandendur. Því get ég aldrei gleymt.
En við sluppum heil og fyrir það er ég óendanlega þakklát og alla ykkar umhyggju.
Kær kveðja
Ferðalög | Föstudagur, 26. mars 2010 (breytt 31.3.2010 kl. 23:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá erum við komin heim! Dásamlegar móttökur og þakka ég ykkur öll falleg orð og kveðjur.
Eftir ótrúlega vota New York mættum við hér. Flugið heim var ljúft og fylgdu tár þegar flugfreyjan ávarpaði okkur á íslensku. Rosalega var ég búin að bíða í marga daga eftir þeirri stundu! Það er nú svo merkilegt að þó að ég sé komin með kunnuglegt undirlag undir fæturnar losna ég ekki við þessa ónotalegu tilfinningu að það geti farið af stað. Ég geri mér grein fyrir því að það séu hverfandi líkur á því að stærð þeirrar hreyfingar yrði eitthvað í líkingu við það sem við upplifðum en tilfinningin er samt til staðar. Úrvinnsla þessarar reynslu er lykilatriði. Ég ætla ekki að búa við það restina af mínu lífi að vera hrædd við jarðskjálfta...... ekki að ræða það!
Ég finn fyrir mikilli þreytu og mér finnst hvert smáverk taka á. Við sofnuðum aðeins eftir flugið í gær en svo var tímamunurinn að stríða mér í nótt og lítið fór fyrir svefni. Er búin að dvelja drjúgan tíma niðri í skóla í morgun og ræða málin við starfsfólk þar, upp á að fylgjast með líðan þess yngri. Erum að reyna að koma þeim báðum sem fyrst í sína gömlu rútínu.
Og Bjarni dottinn inn í sitt gamla far, mega vinnuálag og Panama á laugardaginn....
Kær kveðja
Ferðalög | Miðvikudagur, 17. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 21:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
New York er búin að vera ótrúlega blaut. Já við vorum í stanslausri sól í sjö vikur til að fá sjö vikna rigningarskammtinn á tveim sólarhringum hér í borg.
Gærdagurinn var eins og íslensk þjóðhátíð í öllu sínu veldi, úrhellis rigning og rok, ekta regnhlífabanaveður. Enda lágu regnhlífar hér út um allt, fólk henti þeim bara frá sér þegar þær eyðilögðust, voru ekkert að hafa fyrir því að leita að ruslafötu. Frekar sóðalegt finnst mér.
Við keyptum okkur skoðunarferðir hér um Manhattan og Brooklin bæði að degi til og kvöldi, í þurru veðri en reyndar miklu meira í rigningu. Það olli því að oft sást ekkert út um gluggana á rútunni og maður varð að nota ímyndunaraflið.
Það var ótrúlegur vatnsagi í "uptown" ferðinni sem við fórum í gær en þá flæddi vatnið fram og aftur eftir gólfinu eftir aksturslagi bílstjórans. Í þeim túr fórum við og skoðuðum American Museum of Natural History. Gríðarlega stórt safn og gríðarlega margir sem fengu einmitt sömu hugmynd og við að nota húsaskjólið þar undan rigningunni.
Fyrir mitt leiti voru alltof margir þarna inni og ég fékk algjört overload af upplýsingum, því þarna inni er mikið magn sýningargripa. Fundum Dum Dum og Dexter en ekki var húsið nú alveg eins og í myndinni "Night at the Museum". Það mátti heyra á tali margra að Dum Dum var aðdráttarafl. Enda geymdu þeir hann lengst inni í horni þannig að fólk yrði örugglega að skoða margt fleira í leiðinni.
Einhver sem veit ekki hver Dum Dum er? Jú það er páskaeyjastyttan í fyrrnefndri mynd. Hún var meinfyndin í myndinni en frekar líflítil í gær.
Við erum búin að koma við á 9/11 tvíburaturnasvæðinu. Fórum þar inn í St. Pauls kirkjuna sem stendur við hliðina og gegndi miklu hlutverki í umönnun eftirlifanda. Eins er í næsta húsi sýning um árásina og fólkið. Ég var djúpt snortin og skal viðurkenna að ég sökkti mér full djúpt í ástandið og barasta grét yfir þessu. Sá fyrir mér örvæntingarfulla ættingja leita stöðugt að sínum nánustu sem aldrei fundust, ekki bara í þessu slysi heldur í fleiri slysum eins og 2006 hörmungum í Asíu, og nú síðast við strendur Chile þar sem töluvert af fólki hvarf í skjálftaflóðbylgjum.
Strákarnir fóru í dag út í Liberty Island og skoðuðu Frelsisstyttuna. Ekki var hægt að fara upp í hana þar sem næsti lausi dagur upp var 27. apríl! Eins gott að panta í tíma. Þeim fannst þetta samt mjög skemmtilegt og gáfu mömmunni kærkomið mömmufrí sem eytt var í búðarölt. Gaman að skoða og máta föt sem passa manni..... get sagt ykkur að í henni Santiago var varla flík sem passaði á norrænan risa..... En núna..... dásamlegt! Ég var eitthvað að velta fyrir mér nærfatastærðum og þegar konan sem afgreiddi mig sagðist sjálf nota medium, var ég hin kátasta með mig því hún var með huggulegasta hamborgararass! Kaninn blekkir sig nefnilega svolítið með því að stækka bara flíkina en halda númerinu.
Kær kveðja
p.s. ég sakna þess svolítið að þurfa ekkert að nota sólgleraugun!
R.
Ferðalög | Mánudagur, 15. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 21:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðasti dagurinn í Chile var notaður í þetta klassíska, þrif og lokapökkun. Hafði notað daginn áður í að ganga um mín uppáhaldsútivistarsvæði og kveðja þetta fallega en ógnvekjandi land. Drógum Hörpu okkar einstöku út að borða kveðjumáltíð á uppáhaldspizza staðnum okkar Tiramisu, þeim besta í heimi!
Við ákváðum að vera snemma í því enda ég að verða viðþolslaus eftir því að komast í burtu. Á leiðinni út á flugvöll sáum við ummerki skjálftans, skemmdar brýr og byggingar.
Mesta raunveruleika sjokkið blasti við okkur þegar út á flugvöll kom! Þar voru risastór útihátíðartjöld á bílastæðinu. Í þessum tjöldum voru farþegar bókaðir inn, handskrifaðar upplýsingar um flug á tússtöflum, o.fl. í þeim dúr. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér þetta þó ég hafi verið búin að fá upplýsingar um að hluti þjónustunnar væri í bráðabirgðahúsnæði. Strúktúrinn í flugstöðvarbyggingunni hafði staðist álag skjálftans en loftræstikerfið/ljósakerfið hrundi niður úr loftunum og eitthvað brotnaði af gleri.
Vopnaleit fór fram innandyra. Þegar í dyrnar kom blöstu skemmdirnar við í loftunum, lokuð svæði og brotnar rúður og ég skal bara viðurkenna það hér og nú að ég neitaði að fara þangað inn fyrr en ég þyrfti. Við höfðum nægan tíma og því sátum við undir tjaldi ásamt fjölda fólks utandyra í yndislegu veðri. Strákarnir lögðust út á gras og höfðu það huggulegt þar til sól settist í Santiago. Þetta var svo súrrealískt að flugstöðvarbiðsalur væri göngustígar og grasbalar og útihátíðartjöld að það vantaði bara hljómsveitir með þjóðhátíðartónlist..... ég hefði nú sennilega samt verið slakari á útihátíð. Ég var á nálum allan tímann að það kæmi skjálfti sem gæti sett strik í reikninginn með að komast í burtu.....
Vopnaleit gekk vel og ég lifði af dvölina innandyra, gólfefnin slitin þar eins og uppi í íbúð eftir mig....:) Áberandi að farþegahópurinn var fólk að koma sér í burtu, mikill órói í sumum.
Við flugum upp hnöttinn yfir Kyrrahafinu og var órói allan þann tíma, u.þ.b. 5 tíma. Samt ekki þannig að það væri hræðsluvekjandi og öll afgreiðsla í vélinni gekk smurt. Kann vel við LAN flugstarfsfólk og þjónustuna um borð. Í Miami skiptum við um vél og flugum með American Airlines til New York og þvílíkt flug, stöðugir turbulensar. Öryggisbeltaljósið alltaf að kvikna aftur og aftur og flugstjórinn var stöðugt að biðjast afsökunar á látunum, starfsfólkið hætti endurtekið við að afgreiða veitingar og það hristist allt og skalf. Þegar við vorum nánast að lenda í New York reif flugstjórinn vélina aftur upp því það var eitthvað að flækjast fyrir á flugbrautinni! Ég hef alltaf haft áhyggjur af allri þessari flugumferð og hvort flugumferðarstjórar geti haft stjórn á öllu þessu liði..... J Við tókum bara einn aukahring og lentum farsællega.
Það sat ungur maður við hliðina á mér og hann var rosalega stressaður, hamraði með fætinum í gólfið (bættist við lætin í vélinni) og hann snökti hluta af fluginu. Ég hafði mestar áhyggjur af því að hann myndi að lokum missa stjórn á sér, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þegar við lentum komst ég að því að hann hafði verið niðri í Valparaíso í stóra skjálftanum og var ótrúlega sleginn eftir þetta allt.
Þið veltið því kannski fyrir ykkur hvernig mér hafi liðið, það er eðlilegt að hugleiða það .... J Ég hef nokkrum sinnum flogið innanlands í US og mér finnst ég alltaf lenda í óttalegum hristingi. Ég hef líka lent í því að vera komin í lendingu í Keflavík og flugstjórinn rifið vélina aftur upp...... nú og ég hef áratuga reynslu í mismunandi flugaðstæðum á milli Reykjavíkur og Egilsstaða.
Við erum núna stödd í New York í fyrstu rigningunni sem við finnum á eigin skinni í tæpa tvo mánuði. Þegar ég leit út um gluggann í morgun hélt ég að sólin biði mín bara eins og venjulega og varð furðulostin að það væri ekki!
Kær kveðja
Ferðalög | Föstudagur, 12. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 21:20) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag er fæðingardagur hennar ömmu minnar Ingibjargar frá Vaðbrekku. Þetta er góður ferðadagur en í kvöld eigum við flug frá Santiago til New York með millilendingu í Miami. Í dag var líka verið að jarðsetja son hennar og móðurbróður minn Jón Hnefil en hugur okkar er hjá fjölskyldu hans.
Ef eitthvað hefur komið fyrir s.s. eins og að ég hafi verið nærri búin að keyra út af eða einhvað álíka, þá hef ég hugsað að nú hafi hinn og þessi haldið verndarhendi yfir mér. Ég hugsaði það þarna um nóttina en svo var svo skrítið að óttahjúpurinn sem umlukti mig seinna þennan skjálftadag gaf þeim ekki færi á að ná sambandi við mig fyrr en fyrir tveim dögum síðan. Þá var ég utandyra þar sem mér líður best og skyndilega komu þau ótrúlega sterkt inn, foreldrar mínir, bræður og amma og afi. Söknuðurinn var sár en óskaplega gott að vita af þeim hjá mér. Finn styrk að þó ég bogni muni ég ekki brotna.
Í gær var ég eitthvað sorrý þar sem ég sat og hlustaði á tónlist og skrifaði hugrenningar niður í mína stílabók.
Ég kreisti aftur tárvot augun og upplifði pabba og mömmu svo sterkt hjá mér að þegar ég opnaði augun aftur bjóst ég allt eins við að þau stæðu við risastóra tréð á móti mér! En svo göldrótt er ég nú ekki.....:).
Blessuð sé minning þeirra.
Ferðalög | Miðvikudagur, 10. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 20:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðasta mánudag var skólabjöllum hringt inn, viku seinna en til stóð. Skólasetningu var seinkað um viku vegna jarðskjálftans, enda eflaust þurft að fara yfir öryggismál skólahúsnæðis ásamt áfallahjálp fyrir þolendur skjálftans.
Nú hins vegar er bærinn fullur af einkennisklæddum ungmennum því hér eru skólabúningar málið. Eftir því sem ég hef verið frædd um þá eiga skólabúningarnir að draga úr stéttarmun en það er auðvelt að fara framhjá því. Skólabúningarnir eru nefnilega misdýrir eftir því úr hve flottu efni þeir eru saumaðir, hversu vandaðir skórnir eru og o.fl. Það sést því auðveldlega áfram hver á pening.
Stéttamunur er mjög mikill hérna og gengur upp allt skólastigið og lífið.
Kær kveðja
Ferðalög | Miðvikudagur, 10. mars 2010 (breytt 3.4.2010 kl. 19:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)