Að koma sér fyrir á nýjum stað

Dagur 4  25. janúar

Skreið út á svalir rúmlega sjö í morgun, í rjómablíðu eftir heita nótt. Fyrsti vinnudagur Bjarna var í dag og ákvað hann að ganga enda bara 2 km á vinnustað. Restin af fjölskyldunni hélt áfram að láta þreytuna líða úr sér, og sváfum til skiptis. Að loknum vinnudegi Bjarna keyrði Carlos okkur í Alto Las Condes mollið. Risastórt moll með fjöldann allan af búðum. Þar var ótrúlegur fjöldi af fólki í flottum búningum að „vinna“ en allt gekk á hraða snigilsins.  Í þessari búð var hægt að kaupa nánast allt á milli himins og jarðar, m.a. svuntur og sloppa fyrir vinnuhjú! Jamm....... Ég er nú reyndar með vinnukonu herbergi......

Keyptum m.a. innlend frelsiskort því hér virkar ekki íslenskt frelsi og ekki ætla ég að hringja í gegnum Ísland í hvert skipti sem ég týni strákunum í einhverri búðinni. Í þessu ágæta molli versluðum við fyrir á annað hundruð þúsund pesoa enda ýmislegt sem vantaði á heimilið.  Okkur skilst á Carlos að það sé bara meðal verð fyrir fjögurra manna chiliska fjölskyldu. Pesoinn er ca. fjórum sinnum verðminni en okkar ágæta ofursterka íslenska króna.

Eftir kvöldmatinn fórum við í gönguferð í hverfinu og nú upp í hæðina við golfvöllinn en þar eru risahýsin í löngum röðum. Grimmir hundar, eftirlitsmyndavélar og gaddar á múrveggjum voru áberandi. Íslenskur bílafloti við húsin og eins og Harpa sagði okkur, eru allar líkur á að fólk eigi þessa bíla. Hins vegar er það nú svo hér í Santiago sem víða annar staðar í heiminum að bílar eru keyptir á lánum.

Sólsetur i SantiagoÚtsýnið af hæðinni var dásamlegt og veðrið í stíl. Innst og efst í botnlanganum hittum við fyrir vinalegan Chile búa sem lofaði okkur að njóta útsýnisins frá sínum bæjarhól...... hann bjó í skuggalega stóru húsi svona utanfrá séð. Talaði litla ensku en leyst á okkur sem þjóðverja.... ekki verra en hvað annað svosem... Meðan við dáðumst að útsýninu leit Jón Hákon ekki af blæjusportbílnum sem maðurinn átti. Hann tók eftir þessum áhuga og veifaði bíllyklunum í strákinn sem fór allur hjá sér við þessa athygli.

Sem fyrr kom fram er golfvöllur þarna í hæðinni. Golfáhugamenn á Íslandinu voru með mikil hvatningarorð um að við myndum nýta okkur þetta og drengirnir yrðu að fá tækifæri til að æfa sig þó hringurinn kostaði kannski á annan tug þúsunda  íslenskra króna. Nú er komið á daginn að peningar eru ekki allt, ........  til viðbótar við að eiga nóg af peningum til að fá að spila þarna þarf maður víst að vera með dökk blátt blóð í æðum... veit ekki hvort er einhver litur á Ricterunum en það er klárt að vinnukonan Jónsdóttir sleppur aldrei þarna inn!

Þreytan er að líða úr okkur, við drekkum óendanlegt magn af vatni og gosi, eins og við séum að bæta upp vökvaskort eftir flugið. Eins er heitt úti og hefur það  auðvitað sín áhrif.

Kær kveðja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband